11. september í héraðsdómi

 

Ég bar vitni í Héraðsdómi Reykjaness þann 11. september og það var merkilegt að koma inn í dómshús í fyrsta sinn. Ég þekki ekki vel hvernig dómstólar vinna eða hvað þeir meta. Mér fannst skipta miklu máli að jarðýtan sem mætti í hraunið þennan eina dag hefði ekki verið þarna nema vegna þess að þarna voru mótmælendur, hún kom vegagerðinni sjálfri ekkert við. Jarðýtan ruddist gegnum hraunið – alla veglínuna og sárið eftir þessa einu umferð gegnum hraunið stóð óhreyft tveimur mánuðum síðar. Jarðýtan hafði aðeins það hlutverk að ógna fólkinu, ryðja því burt og eyðileggja í leifturárás það sem fólkið vildi vernda og taldi með rökum að væri hægt að vernda í dómsmáli sem lá fyrir – en lá ofan í skúffu í dómskerfinu.

Screen Shot 2014-02-07 at 5.22.19 PM

Aukafjárveiting var ekki veitt til að flýta málinu og útkljá það heldur kusu yfirvöld að fara mun dýrari leið valdbeitingar (ofbeldis) þar sem 60 lögreglumenn niðurlægðu fólkið og ógnuðu á sama tíma og hraunið sem þeim var heilagt var troðið niður og rústað fyrir augum þeirra af fádæma ruddaskap. Markmiðið var ekki að semja, fólk fékk kærur sem höfðu verið prentaðar út og dagsettar á föstudegi, þegar blitzvegagerðin var á mánudegi. Þeir sem voru kjarkaðir og staðfastir (og undir 100kg) voru settir í kalda einangrunarklefa og síðan fyrir dómstóla. Hvert er markmiðið? Hverjum datt í hug að í þessu litla landi ætti að byggja upp kalt og ópersónulegt lögregluríki? Eru þetta skilaboð til samfélagsins? Er skilyrðislaus hlýðni æðsta dyggðin og reyndist hún 20. öldinni vel?

1656310_608941332512609_836467742_n

Hefur ekki svona fólk einmitt verið fyrirmyndir í öllum viti bornum samfélögum? Og það sem ég hugsaði í þessum dómssal var – eru dómstólar til að verja fólk eða valdakerfið? Meta þeir hvort þessi jarðýta hafi verið þarna að óþörfu og jafnvel ólöglega, til þess eins að storka fólki og búa til glæpamenn úr þeim sem eru með heilbrigða réttlætiskennd – meta þeir meðalhófsreglu og mannúð – eða er þetta meira eins og lögfræðivél – 01010110: Hlýddirðu skipunum? Ef NEI – þá ertu sekur. Og með nákvæmlega þessari aðferð – væri ekki hægt að handtaka hvern sem er hvar sem er og gera að glæpamanni?