Hverjir vilja ,,vernda“ þig?

Gæsir búa til friðardúfu

Lífið gengur sinn vanagang og fólk gengur að sínum réttindum vísum og man eða veit ekki á hvaða grundvelli við byggjum okkar samfélag. Ég sé að ég á 70 vini sem mótmæla byggingu bænahúss í tengslum við trúarbrögð sem 1/5 jarðarbúa virðast aðhyllast. Staðsetningin skiptir fæsta máli á síðunni, menn vilja bara koma í veg fyrir að svona miðstöð verði til og sumir vilja banna þessi trúarbrögð almennt á Íslandi, meðal þeirra er fyrrum framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna. Gott og vel, við skulum banna eina tegund trúarbragða en hvernig framkvæmum við þetta bann? Bönnum við fólki að biðja? Bönnum við fólki að leigja sér sal eða bara að byggja eða eiga hús undir starfsemina? Lokum við landinu fyrir þeim sem aðhyllast þessa trú og hvernig metum við og mælum við trú fólks? En ef menn eru frá viðkomandi löndum og segjast trúlausir? Lokum við landinu almennt og við hvaða lönd miðum við? En ef þetta er sænskur ríkisborgari? Og hvernig framfylgjum við lögunum og losum okkur við þessa trú eða komum í veg fyrir að hún birtist okkur í daglegu lífi? Með lögregluvaldi? Rannsóknum, hlerunum? Vísum við fólki úr landi en hvað með blönduð hjónabönd? Hvað með þá 600 sem eru hér – (fáránlega lítill hópur miðað við tvo borgarfulltrúa) Hvað með börnin þeirra? Á að endurmennta þau? Á að kristna þau? Hvernig? Og er það ekki þannig að þeir sem eru harðastir á þessum síðum hata líka umhverfisverndarsinna og femínista og sósíalista og þeim er meinilla við RÚV, listamenn, Evrópu almennt, Háskólann og reiðhjól og hver er þá munurinn á þeim og þeim sem þeir ætla að ,,vernda okkur“ gegn.