Hér fyrir neðan er upptaka af innleggi Andra Snæs Magnasonar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? sem hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Fyrirlesturinn fór fram í stofu 101 í Lögbergi milli 12 og 13 fimmtudaginn 13. febrúar 2014.
Hvernig verður bók til?
Ég hélt mér einkum við Bláa hnöttinn en hafði ætlað mér að fara um víðan völl og inn í önnur verk, en Blái hnötturinn reyndist meira en nóg fyrir eina kennslustund, þó kom ég við bæði í LoveStar og Draumalandinu og Bónus ljóðum. Það var gott stuð í salnum og skemmtileg stund að mér sýndist. Hér er upptaka af þessum fyrirlestri.
Það er aldrei að vita nema ég hendi inn nokkrum frumgögnum til viðbótar svo fólk geti lesið og áttaði sig á því hvert ég var að fara. Þar með talinn áður óbirta endann á LoveStar, millikaflann í Bláa hnettinum, umsókina um listamannalaun frá 1998 sem lýsir hugmynd höfundar um verkið áður en það kom út og reyndar – áður en það var skrifað og kannski nokkur ljóð eftir Bergsvein Birgisson. Ég hafði ætlað mér að lesa þau í Háskólanum en gleymdi að lesa – eitt þeirra úr Innrás liljanna varð kveikjan að skógarbirni og heilum kafla í Bláa hnettinum.