Eru Danmörk og Svíþjóð hluti af öxulveldi hins illa?

Hef hingað til ekki verið 100% með eða á móti aðild að ESB. En undarlegt að sjá hvað rökin gegn sambandinu eru sífellt meira rugl. Stjórnmálamenn tala um ESB eins og einhverskonar öxulveldi hins illa – Svíþjóð, Finnland, Eistland, Holland, Belgía, Þýskaland, Ítalía, Spánn, Frakkland, Danmörk osfrv … nánast öll Evrópa nema Noregur og Ísland. Er þessi hópur á bak við óeirðirnar í Úkraínu? Er sæmandi að senda nágrannalöndum okkar endalaus neikvæð og vænisjúk skilaboð? Er farsælt að dissa Evrópu en daðra við Rússland og Kína þar sem jafnvel facebook færslur eru bannaðar? Heimurinn er að renna saman og við höfum ekki innviði til að búa til lög og reglur um allt sem þarf að ná utan um í flóknum heimi. Okkur er nánast ofviða að þýða lögin, hvað þá að búa þau til. Við höfum ekki innviði til að meta flókin deilumál í heiminum. Utanríkisráðherra Íslands ætti í flestum tilfellum að vera á sömu skoðun og utanríkisráðherrar norðurlandanna, nema kannski þegar kemur að mygluostum. Ég trúi ekki að hér sé raunverulega fólk sem fílar þennan dónaskap og derring – ESB eða ekki – hvorki paradís né heimsendir – en það er nóg komið af þessu rugli .