Það sem vantaði í New York Times

Menn hafa verið að tala um rangfærslur í New York Times grein um Ísland og þar virðast menn afar viðkvæmir og málið þykir jafnvel alvarlegt. En deilan er tómur orðhengisháttur um setningarfræði, hvort komman hefði átt að vera á eftir eða undan Þjórsárverum. Jöklar, fossar, ár OG Þjórsárver eru um 40% …

„The Icelandic government has spent decades protecting its glaciers, pools, ponds, lakes, marshes and permafrost mounds in the Thjorsarver Wetlands, which constitute 40 percent of the entire country, mostly in the interior.“

Ef New York Times hefði virkilega ætlað sér að skrifa stóra grein um málið hefðu þeir hefði hæglega getað birt mynd af Aldeyjarfossi og sagt fólki að flýta sér að sjá hann, kannski flýta sér að sigla niður Jökulsárnar í Skagafirði, borða lax veiddan við Urriðafoss, kannski flýta sér að ferðast kringum Skaftá við Hólaskjól eða Hólmsá við Atley eða fara Sprengisandsleið án þess að hafa línur fyrir augunum alla leiðina. Svo mætti fara í Krísuvík og skoða síðan hverasvæðin á Reykjanesi, já eða fara austur og flýta sér að sjá Töfrafoss, Kirkjufoss og Kringilsárrana… nei það er víst of seint. Ég er sannfærður um að stórir fjölmiðlar muni komast á bragðið og gera þessu ítarleg skil, nægt er myndefnið að minnsta kosti. Mér er í sjálfu sér sama um áhrif á ferðamennsku – þessi mál hafa þegar skaðað mennsku okkar.

Lagarfljót

Þetta minnir mig á mann sem ég réði einu sinni í vinnu til að byggja fyrir mig bílskúr en svo hætti hann aldrei að byggja bílskúrinn, ég var kominn með fimmfaldan bílskúr og hann var búinn að malbika leikvöllinn fyrir aftan hús til að leggja trukkum. Til að fjármagna það seldi hann Kjarvalsmálverk sem ég fékk eftir langömmu mína. Hann er búinn að éta eiginlega allt í búrinu en það var búið að ná sátt um að hann myndi láta staðar numið þegar hann væri búinn að éta köttinn. En núna er fjölskyldan að rífast aftur vegna þess að hann vill éta hálfan hundinn að auki. Og hvað ætlar hann að gera við hundinn? Jú búa til hundafóður. Vegna þess að það eru svo margir sem elska hunda, segir hann, það er svo góður markaður. Ég hefði átt að reka hann og var að spá í það fyrir nokkrum árum en ég er ekki lengur með lykla að húsinu.