Draumur um Sigmund Davíð

MAÓ 1706

 

Það er sól úti, mig dreymdi að Sigmundur Davíð hafi fundið sitt gamla sjálf. Hann talaði af ástríðu um gömlu húsin og miðborgina og síðan um hálendið og náttúru Íslands í sama samhengi. Frá Bessastöðum horfði hann yfir Gálgahraun og sagði að vegurinn gegnum hraunið væri frábært dæmi um vegagerð í hreinni í andstöðu við það sem hann hafi numið í skipulagsfræðum í Oxford. Bjarni Ben horfði á hann blíðlega, kyssti hann og sagði. Þú ert æði. Algert æði. Nú þurfum við að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang.

En Sigmundur horfði á hann og benti á Straumsvík. Sérðu ekki reykinn Bjarni? Sérðu ekki að hjólin eru öll í gangi? Það eru þrjú álver hérna í fullum rekstri! Framsóknarflokkurinn hvarf næstum því þegar þið létuð okkur bera alla ábyrgð á óvinsælum virkjunarmálum. Hann varð hataðasti flokkur á landinu þótt þið væruð jafn virkjunarsjúkir. Sjáðu hvað við erum stórir þegar við tölum ekkert um virkjanir! Hjól atvinnulífsins eru á fullu, hér er virkjuð orka sem er fimm sinnum meiri en almenningur getur nýtt sér. Við erum stórveldi en vandamálið er skuldir heimila og skuldir orkufyrirtækja. Landsvirkjun kemur til með að skila góðum arði ef hún hættir að skuldsetja sig. Við veiðum 2% af öllum fiski í heiminum. Það er verið að búa til sáraumbúðir úr roði á Ísafirði, ímyndaðu þér hversu mikið meira við gætum gert með þennan fisk. Ferðamennska stóreykst og skilar sér í hinar dreifðu byggðir. Listalífið hefur aldrei verið blómlegra. Hollywood stjörnur um allt hálendi með heilt álver af tökuliði hver. Af hverju ættum við að hafa áhyggjur af einhverju? Ef við tökum á skuldunum, þá erum við ríkasta þjóð í heimi. Við borgum hálfa Kárahnjúkavirkjun árlega í vexti, ekki viltu skuldsetja okkur meira?

En það þarf að auka verðmætasköpun og útflutningstekjur Sigmundur! Hvað eigum við þá að gera, ef Helguvík fær ekki heila Kárahnjúkavirkjun?

Eitt álver mun aldrei ráða úrslitum um framtíð Íslands. Þú veist það full vel sjálfur þótt það sé gaman að stjórna í tímabundinni þenslu. Eigendur álversins í Helguvík eru mestu hrægammar í heimi. Þeir fá okkur til að niðurgreiða orkuna með þrýstingi sveitarfélaga og svo ræna þeir skattinum og kaupa ser skútu í Mónakó. HS Orka hefur engan áhuga á að standa við samninginn við þá. Ekki OR heldur. Ekki Landsvirkjun heldur. Þetta er búið, þessi tími er búinn! 

Horfum okkur nær! Sjáðu til dæmis hvað listamenn hafa gert í samstarfi við bændur. Sjáðu hvað heimurinn verður fallegur ef við tökum höndum saman. Þetta styður við ferðamennsku, myndar gagnkvæman skilning landsbyggðar, 101 Reykjavíkur og umheimsins. Ef aðeins 10% bújarða fá nýja góða hugmynd sem skilar einu starfi eru það fleiri störf en öll eyðileggingin á Lagarfljóti! Landið er að rísa, ef það heldur áfram að rísa með þessum hraða erum við í fínum málum eftir tvö ár.

Bjarni hörfaði aðeins og sagði: En við þurfum að endurheimta traust umheimsins á Íslandi! Alþjóðlegi fjármálaheimurinn hatar vinstri stjórnir. Sigmundur opnaði erlendu stórblöðin, sérðu ekki Bjarni, Nóbelsskáldin í hagfræði elskuðu Jóhönnu en það hlæja allir að okkur saman! Búsáhaldabyltingin og IceSave var talið til marks um dug og djörfung Íslendinga en við höfum ekki afl til að kveða niður þennan orðróm. Norðmenn gera grín að okkur, Þjóðverjar, Spánverjar hafa orðið fyrir vonbrigðum. Enginn í heiminum mun taka Ísland alvarlega ef við förum saman í stjórn. IceSave málið vakti byltingaranda í heiminum, von um sigur á peningaöflum sem mergsjúga almenning, ég var hluti af þeim krafti – ekki þú.

En þú ert líka brennuvargur!

Nei, ekki ég, ég var í Oxford. Höskuldur Þórhallsson er reyndasti þingmaður okkar, hann kom inn árið 2007. Við erum hreinar meyjar. Við erum aktívistar, saklaus sveitastelpa að vestan, gamalgróin framsóknarkona úr borginni, grasrótin úr InDefence og IceSave. Frosti hefur frábæra reynslu af nýsköpun á meðan þið hafið flestir tekið við gömlum fjölskyldufyrirtækjum og glutrað þeim niður. Við höfum losað okkur við alla, Finn og Halldór, Ó! Ó! í Samskipum á meðan þið angið af bensíni og sóti með Davíð vomandi yfir ykkur.

Þið? Hreinar meyjar! Framsóknarmenn aktívistar! Þvílíkt bull!

Já! Á síðustu árum hafa aktívistar sótt í sig veðrið. Í skipulagsmálum gæti ég gert margt fyrir höfuðborgarbúa og landið allt. Þar hafa aktívistar haft rétt fyrir sér, í húsavernd, í umhverfismálum, umferðarmálum, skólamálum, alþjóðamálum, femínistarnir eru ómetanlegir þótt Brynjar vinur þinn fíli þá ekki. Umhverfishreyfingin hefur haft rétt fyrir sér í ótal málum, við þurfum að vernda Mývatn og nú má ekki menga höfuðborgina meira með brennisteinsvetni, jafnvel ekki fyrir álverið í Helguvík. Við getum ekki fórnað laxinum í Þjórsá eftir slysið við Lagarfljót. Stjórnarskráin nýja! Hún var aktívismi sem byrjaði hjá fólkinu. Það er þessi andi sem kom mér inn í pólitík. Það er þarna sem hin raunverulega gróska er hér á landi. 

Bjarni hvessir brúnir: En ég er stærsti flokkurinn!

Þið eruð að deyja. Sjáðu grasrótina ykkar í SUS! Hún er rotin, þröng, fordómafull og reið, hún er í engu samræmi við hugsjónir Framsóknarmanna. Hún hatar landbúnaðarkerfið, hún hatar eiginlega allt. Veðurstofuna, Árnastofnun, Sinfó. Þið eruð dauðir innan 10 ára með þessu áframhaldi. 

SUS

Með hverjum vilti þá stjórna?

Hvað með aktívistastjórn? Með Kötu í Vinstri Grænum? Hún er að blómstra og frábært að vinna með henni. Hún er líka laus við erfiða fólkið í flokknum. Framsóknarvillingurinn hann Gummi Steingríms með Bjartri Framtíð myndi sóma sér vel þótt okkur hafi lent saman. Við þekkjum hans fólk. Hann er kominn í alþjóðasamstarf Framsóknarmanna! Píratar geta stutt okkur.

Björt framtíð eru hálfvitar!

Sjáðu orkuveituna. Óttar Proppé átti þátt í að snúa rekstrinum á punktinum. Ekki vanmeta listafólk, ef einhver getur gert mikið úr litlu er það fær listamaður. Og fær listamaður lætur ekki frænda sinn spila á gitar eða hanna umslag af því að hann er að redda honum vinnu, fær listamaður velur aðeins þann besta, þótt hann þekki hann ekki neitt. Orkuveitan mætti endursemja um skuldirnar, en hún er á réttri leið.

Þið þurfið stóran öflugan meirihluta!  

Til að gera hvað? Þið eruð svo reiðir, það er hefndarhugur í ykkur. Hvað á stóri meirihlutinn að gera? Að auðvelda mistök? Að valta yfir andstæðingana? Að hefna fyrir Geir og búsáhaldabyltinguna? Eigum við einhverntíma að komast út úr hruninu? Hvar endar þetta land ef Brynjar Níelsson og Pétur Blöndal eru rödd ykkar í umhverfismálum?

Bjarni gekk til Sigmundar. Setti upp stóru augun sín. Stóru blíðu augun. Sigmundur minn. Það gengur aldrei upp! Það verður glundroði. Bjarni faðmaði Sigmund. ,,Vertu hjá mér.“

Sigmundur leit út um gluggann. Hann beit í neðri vörina. Hann horfði á jakkafötin hans Bjarna, þessi dáleiðandi jakkaföt sem sögðu: Ábyrgð, rekstrarþekking, framtíðarsýn. Sigmundur lokaði augunum og reyndi að láta fötin ekki blekkja sig. Hann hugsaði um Villa Vill og hjúkrunarfélagið Eir. 

Sigmundur leit undan og stundi. ,,Hvort er betra að fara út í óvissuna eða að deyja hægt í örmum þínum? Stóra loforðið mitt var veðmál, það er ekkert víst að það takist, heldurðu að ég hafi sofið vel nóttina fyrir IceSave dóminn? Það er betra að vera með aktívistunum en að hafa þá á móti sér. Davíð hrósar mér núna í Mogganum – en þú veist hvernig Davíð er. Ég verð að fylgja hjartanu, ég verð að muna hvar rætur mínar liggja, í grasrótinni, hjá aktívistunum.

Stórt tár lak niður stóru augun hans Bjarna, niður stóru hökuna hans niður á stóru fæturna hans en Sigmundur gekk út í óvissuna.

Þarna vaknaði ég.