Það skiptir öllu máli hver stjórnar landinu

ÍSLANDXB:XD2006

Ef þú ert ungur kjósandi og varst 12 ára árið 2006 eða með höfuðið fullt af óþarfa í tímans önn þá er vert að minna þig á hvernig ástandið var í umhverfsmálum þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur stjórnuðu landinu. Myndin hér fyrir ofan birtir fyrirætlanir um virkjunarframkvæmdir, álversbyggingar og umsóknir um tilraunaboranir orkufyrirtækja. Það var engu líkara en landið væri villta vestrið fyrir álfyrirtæki. Á hverjum degi birtust í fjölmiðlum loforð um framkvæmdir sem áttu helst að hefjast strax næsta vor. Þjórsárver voru í hættu, Langisjór, Jökulsárnar í Skagafirði. Umsóknir um rannsóknarboranir á Torfajökulssvæðinu. Þarna var verið að sökkva Kringilsárrana, það var verið að eyðileggja Lagarfljótið. Þetta var ógeðslegur tími. Það var ömurlegt að horfa upp á þetta, hræðilegt að standa í þessum deilum og þessu stríðsástandi, hrikalegt að horfa upp á vini eða ættingja sem trúðu raunverulega á þessa framtíðarsýn. Að sjá fólk sem manni þótti vænt um kjósa flokk eins og Framsókn eða Sjálfstæðisflokk þrátt fyrir þessa hryllingsherför gegn landinu. Hundruð manna þurftu að vinna nótt og dag við að upplýsa almenning um hvað var yfirvofandi. Orðræða stjórnmálamanna og orkusölumanna var: ENN HÖFUM VIÐ AÐEINS NÝTT 20% nýtanlegrar orku. Það þýðir að ÞESSI MYND VAR MARKMIÐIÐ. Hún var normalástand sem stefnt skyldi að. Að gera þetta EKKI var órökrétt, hættulegt, það var að tína fjallagrös. Öll nýtanleg orka Austurlands hafði verið seld Alcoa til 40 ára, hugsanlega með tapi. Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót, Bjarnaflag, Gjástykki, Þeistareykir áttu að fara í Álverksmiðju Alcoa á Bakka.

Það eru til stjórnmálamenn sem syrgja að af þessu varð ekki: http://www.dv.is/frettir/2012/9/18/bjarni-ben-vill-fleiri-virkjanir/

Öll nýtanleg orka á Suðvesturhorninu, Eldvörp, Krýsuvík, Hellisheiði, Þjórsá, Þjórsárver og líklega eitthvað af Skaftá átti að fara í Álver í Helguvík. Rio Tinto og Century áttu í hörðum slag um það mál en Century er hernaðarlegra og byrjaði að byggja álverið áður en nokkur leyfi lágu fyrir. Eins og einn gáfaður maður lýsti þessu: Fjallkonan var dauð inni í herbergi og þeir voru fljótir að girða niður um sig. En svo kom hrunið og núna eru þeir ennþá með buxurnar á hælunum með einhverja beinstífa stálgrind við Helguvík en enga orku. Orkufyrirtækin eru í vandræðum með að uppfylla samninga og í ljós hefur komið að þjóðin sættir sig ekki við að vera tilraunadýr um áhrif brennisteinsvetnis á heilsufar. Að ramma inn höfuðborgarsvæðið með jarðvarmavirkjunum og álverum er einmitt það sem átti að gera. Enn eimir af bólunni og boranir of nærri Mývatni eru ábyrgðarlausar og sama gildir um ótrúlegar ívilnanir fyrir kísilverksmiðju á Bakka.

Þessi stefna var ekki aðeins talinn valkostur af stjórnmálamönnum, heldur eina leiðin til að komast af á landinu. Hún hefur verið KJARNINN í orðræðu Sjálfstæðismanna. Það var engu líkara en galdrafár færi um sveitarstjórnir sem urðu helteknar af áldraumnum og byrjuðu jafnvel sína eigin persónulegu markaðssetningu eins og þessi síða úr bæklingi Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands á Selfossi ber með sér:

Power options

Þeir sem fylgdust með hraðanum þegar virkjað var við Kárahnjúka, frá því örnefnið kom fyrst í blöðum, þar til Lagarfljótið var dautt – hljóta að sjá að svona bækling varð að taka alvarlega.

Það er ein afar öflug sveitarstjórnarmanneskja á Suðvesturlandi sem mér finnst að eigi að komast á þing. Það er hún Inga Sigrún Atladóttir. Hún stóð nánast ein sveitarstjórnarmanna gegn fáránlegum línulögnum Landsnets sem þeir segja að eigi að þjóna ,,almennri notkun“. En Landvernd bendir á að stærð þeirra sé algerlega út úr kortinu: http://www.visir.is/kollum-hlutina-rettum-nofnum/article/2013704189997

Helguvíkurmenn byrjðu semsagt að reisa álverið í von um heimaskítsmát gegn heimskri lúdóþjóð. Að við myndum færa þeim alla orku Suðvesturhornsins á gjafverði. Að leggja undir allt Reykjanesið, Hellisheiði, Þjórsá og jafnvel Eldvötnin í Skaftárhreppi og skuldsetja Orkuveituna og Landsvirkjun upp á einhverj hundruð milljarða til viðbótar. Helsta loforð Framsóknarmanna fyrir kosningar er þetta: http://www.vf.is/adsent/upp-med-alverid/57068

Það skiptir máli hver er við völd og mér finnst Svandís Svavarsdóttir frábær stjórnmálamaður en hún hefur verið gagnrýnd mikið fyrir að ,,vera á móti öllu“ – það er að segja – fyrir að fylla ekki upp í Íslandskortið hér að ofan. Hér er afrekalisti hennar. Ég held að dómur sögunnar um hana verði annar en Sivjar Friðleifsdóttur sem eyðilagði Lagarfljót ásamt félögum sínum og affriðaði Kringilssárrana. Þegar Illugi Gunnarsson telur að ,,sérfræðingar“ eigi að vera einir um að koma að ráðstöfun auðlinda okkar í Rammaáætlun – þá telur hann einmitt að það hefði ekki átt að taka tillit til athugasemda almennings í ferlinu. Vil ég kjósa mér minni völd? Á ekki að vera til farvegur fyrir almenning til að hafa áhrif? Það eru líka til viðhorf um að ,,markaðurinn verði að ráða“. Það þýðir einfaldlega að þeir sem eru blankir tímabundið í lífinu – eiga að vera fullkomlega valda og áhrifalausir líka. Þeir sem bjuggu til þessa fáránlegu heildarmynd hér fyrir ofan eru hámenntaðir sérfræðingar og það hefur verið drulluerfitt fyrir venjulegt fólk að vinda ofan af henni. Fyrir sumum verkfræðingum er þessi mynd einfaldlega eina röklega útkoman útkoman ef þú átt háhitasvæði og fossa – annað er óröklegt, annað er sóun. Það þarf að nýta allt.

Það lítur út fyrir að flokkurinn sem berst fyrir ,,heimilunum“ í landinu sé að verða stærsti flokkurinn. En við eigum eitt heimili. Það heitir Ísland og ég er skíthræddur um þennan málaflokk ef það lendir aftur í höndum Sjálfstæðis og Framsóknarflokks og þeir taka upp gamla planið, fulla ferð áfram – ekkert stopp.

Ef þið kynnið ykkur nýja stefnu Landsvirkjunar og nýja stefnu Orkuveitunnar – þá sjáið þið að það skiptir máli hver stjórnar.

2 thoughts on “Það skiptir öllu máli hver stjórnar landinu

  1. Bakvísun: Æðsti strumpur og hvatalífið / eitthvað um kosningar - OK EDEN

  2. Bakvísun: 2013 - OK EDEN

Lokað er á athugasemdir.