Guðmundur Páll Ólafsson – minningarorð

Það er ekki oft sem Ísland elur af sér manneskjur eins og Guðmund Pál Ólafsson. Hann var frumlegur og frjór. Hann var vísindamaður sem þorði að hugsa eins og listamaður og hann var listamaður sem þorði að láta til sín taka í samfélaginu. Hann var hugsuður, hugsjónamaður og eldhugi. Hann stóð báðum fótum í sögunni og hefðinni og horfði langt fram. Hann leyfði sér barnslega forvitni, skáldlegt innsæi og uppgötvun.

Þeir eru ekki margir sem þora að láta í ljós opinskáa og einlæga ást sína á jörðinni og lífverum hennar eins og Guðmundur Páll gerði í sínum ritum. Hann gerði þessa ást að ævistarfi enda hafði hann einstæða hæfileika til  að fanga hana og miðla henni í sínum fallegu bókum, Fuglar, Perlur, Ströndin, Hálendið, Þjórsárver og þeirri sem hann var í þann mund að ljúka: Vatnið. Sem upplýsingarmaður trúði hann því að mannkynið gæti snúið af braut eyðileggingar í krafti fræðslu og þekkingar. Maðurinn getur aðeins elskað það sem hann skilur. Og hann getur aðeins skilið það sem honum er kennt. Hann vissi að þekking og virðing fyrir náttúrunni ætti að geta fyllt upp í tómið sem innihaldslaus neysla og græðgi skilur eftir sig.

Og hvað gat svona maður annað gert í lok hinnar trylltu tuttugustu aldar en að standa upp til varnar Íslandi, þegar helstu Perlur í Náttúru Íslands voru settar á brunaútsölu. Guðmundur Páll vakti þjóðina af værum blundi með ótrúlegum krafti og báráttuþreki og hann barðist fram á síðasta dag. Þjóðin má ekki sofna aftur, hún má alls ekki sofna aftur.

Rétt eins og honum þótti vænt um jörðina,  var auðvelt að láta sér þykja vænt um hann. Guðmundur Páll var mikill húmoristi, gestrisinn og hláturmildur, hann var íhugull og á einhvern hátt aldurslaus í öllum háttum. Hin mikla þekking sem í honum bjó braust ekki fram í yfirlæti eða hroka heldur einlægum vilja til að miðla og fræða. Hann var gjöfull á tíma sinn og ráðleggingar. Hann átti sér stað í hjarta þeirra sem lásu verk hans en hjá þeim sem kynntust honum persónulega fékk hann heilt hjartahólf.

Um leið og ég trúi varla að Guðmundur Páll sé farinn þá velti ég fyrir mér hvernig svona maður verður til. Hversu oft sameinast svo einstakir hæfileikar í einni manneskju? Að vera náttúrufræðingur, rithöfundur, ljósmyndari, kafari, fjallamaður og baráttumaður, að vera auk þess mikill fjölskyldumaður og ljúfur og góður vinur vina sinna. Svona menn koma sjaldan fram, kannski bara nokkrum sinnum á öld. Það er sönn gæfa að fá að vera uppi á slíkum tímum og vera samferða þeim þótt ekki sé nema skamman spöl.

Ég færi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur, ég fagna ævistarfi hans og sakna góðs vinar.

Mynd af Guðmundi Páli: Jóhann Ísberg