Að eyðileggja háhitasvæði

Þjóð sem þekkti háhitasvæði sem voru virkjuð á frekar smáaum skala við Svartsengi, við Nesjavelli og við Kröflu hafði frekar jákvæða mynd af slíkum framkvæmdum þegar framkvæmdir hófust við Hellisheiðarvirkjun, hún var talin skárri en eyðilegging á vatnasviði Þjórsár uppi við Þjórsárver eða hörmungarnar uppi við Kárahnhúka. Margir Náttúruverndarsinnar vildu heldur ekki ,,vera á móti öllu“.

Ég hef heyrt nokkuð oft ákveðna röksemd, hún virðist breiðast út eins og hálfgert ,,mím“ að það sé til votts um hræsni náttúruverndarsinna að hafa hleypt í gegn Hellisheiðarvirkjun á meðan þeir voru á móti virkjunum ,,úti á landi“. Það er margt athyglisvert í þessari umræðu, vegna þess að þeir sem tala þannig virðast álíta sjálfa sig einhvernveginn utan við umræðuna. Þeir bentu ekki á þetta sjálfir en telja að það sé hlutverk einhvers óskilgreinds hóps að standa vörð um ákveðin landssvæði.

Nú fer fram umræða um rammaáætlun og þótt mikill ,,sigur“ hafi unnist í sambandi við Torfajökulsvæðið og nokkra aðra staði þá má velta fyrir sér hvernig svona ,,sigur“ eða tap er skilgreint. Er einhver á landinu sem vill virkja allt. Bókstaflega allt landið? Og ef eitthvað er verndað – er það ,,tap“ hans sem þarf að mæta með ,,hófsemi“ umhverfisverndarsinna.

Það eru ekki öfgar að vernda allt sem eftir er – það er nú þegar búið að ganga of langt og jafnvel lengra en æskilegt hefði verið. Nú setja menn alvarlegar spurningar við áform um virkjanaröð nánast eftir öllum Reykjanesskaganum. Þetta bakland höfuðborgarinnar, hluti af heilbrigðiskerfi þjóðarinnar í andlegum og líkamlegum skilningi á að fylla með virkjanaröð sem er nánast samfelld frá Reykjanesstá til Nesjavalla. Þeir sem telja Hellisheiðarvirkjun hafa verið illa hannaða, of stóra, of eyðileggjandi og of mengandi – hljóta að velta fyrir sér – viljum við fjórar slíkar til viðbótar á Reykjanesskagann? Vilja menn sem töldu Hellisheiðarvirkjun mistök að náttúruverndarsinnar hafi líka hljótt yfir þessum framkvæmdum? Hafa virkjunarmenn lært af mistökum sínum? Viðurkenna þeir mistök sín? Hafa framfarir orðið í verkhönnun? Hafa menn minnkað borplön, prófað aðrar aðferðir, fækkað borplönum eða minnkað þau? Virða jarðhitamenn sérstakt landsslag jarðhitasvæða eða eru þeir firrtir og telja landslag grjóts og mosa einskis virði. Ekkert er neins virði nema gras og aspir? Er hægt að horfa upp á menn fara með sömu úreldu tæknina á mörg helstu háhitasvæði okkar samtímis þegar það er nánast bókað að allir munu horfa á þessar framkvæmdir í framtíðinni og hrista höfuðið og þeir sem tóku þátt í þeim muni skammast sín – ekki síst ef satt reynist að sum svæðin verði ónýt eftir aðeins örfáa áratugi. http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1238122/

Það er ögurstund núna hvað varðar framtíð Reykjaness. Myndir Ómars Ragnarssonar sýnir metnaðarleysi Orkufyrirtækja – sem vaða yfir stór svæði til að koma fyrir stórvirkjum vinnuvélum – en fjarlægja ekki ummerkin þegar borunum er lokið. Svona plan þarf að gera þegar hið saklausa hugtak – tilraunaboranir fara fram.