Lóan er komin í strompinn minn

Þar sem ég sat og drakk morgunkaffið heyrði ég í vorboðanum ljúfa syngja sitt dirrindí. Eins og aðrir íslendingar er ég klassískt skilyrtur fyrir þessu hljóði og byrjaði samstundis að slefa eins og einn af hundum Pavlovs þrátt fyrir að úti geisaði vetrarhríð. En söngurinn kom ekki að utan, heldur úr arninum mínum. Þar sem ég vissi að enginn myndi trúa því að það væri lóa í arninum mínum, og ef ég segði einhverjum frá þessu fullur af gleði og tilhlökkun myndi einhver fara að efast um geðheilsu mína. Þess vegna tók ég fuglasönginn upp á myndbandið hér fyrir ofan. Lóusönginn má heyra mjög greinilega á 43. sekúndu. Mér heyrðist að þarna væri mikið stuð, vegna þess að í arninum virtist vera hrafn, gargönd, stelkur og kannski kría. Ég kannast ekki við að lóan hafi áður komið með vorið niður strompinn eins og amerískur jólasveinn og því tel ég að hér hafi verið stari á ferðinni, kannski sama hermikrákan á ferðinni og laug því að manni á Eyrarbakka að vorið væri komið þann 5. mars.

Hér má sjá glögglega hvernig skáldskapur hefur bein áhrif á þróun dýrategunda. Eftir áratuga ofsóknir lifir starinn ennþá og fjölgar sér en hann nam ekki land á Íslandi fyrr en á 20. öld. Hann fór ekki að verpa í Reykjavík fyrr en um 1960. Hann nam land löngu eftir að skáldin hættu að yrkja um fugla og því hefur hann engin rómantísk ljóð til að verja sig eins og lóan og spóinn og skógarþrösturinn. Því er fátt annað til ráða en að aðlagast – því hver vill stúta hreiðri einhvers sem syngur lóusöng ofan í strompinn og yljar manni eins og lóa í vetrarhríðinni!

Ef myndbandið birtist ekki þá er beinn linkur hér.