Að skera Hálendi Íslands í tvennt

Til að skilja landnám orkufyrirtækjanna á Hálendi Íslands þarf að skilja tæknilegt þyngdarafl framkvæmda og strategíu sem er óháð fagurfræði eða gildismati. Framkvæmdir eru oftar en ekki ,,skynsamlegar“ á sama plani og Norðlingaölduveita. Hér má sjá glærusýningu aðstoðarforstjóra Landsnets en þeir eru greinilega farnir að velta fyrir sér þverun halendis Íslands með ,,Hágöngulínu“ –  háspennulínum sem styrkja flutningskerfi stóriðju (stundum dulbúið sem byggðalína). Skrokkölduvirkjun, þyrfti 60 km línu fyrir aðeins 30 MW. Með Hágönguvirkjun verður tæknilegur þrýstingur á virkjun Skjálfandafljóts. Skák og mát og hálendið er klofið í tvennt.

Nú hefur Iðnaðarráðherra heimilað rannsóknir á Skrokkölduvirkjun. Hún virðist alveg fáránleg ein og sér, enda þyrfti að byggja 60 km langa háspennulínu yfir ósnortin víðerni til að flytja aðeins 30 MW. Þegar menn ræða um Hágönguvirkjun, Vonarskarð, Fljótshnjúksvirkjun og Hrafnabjargarvirkjun þá þarf að skoða málið í samhengi. Ætlum við að skera Hálendi Íslands í tvennt eða ekki? Ætla menn að ræða heildarmyndina eða ekki? Það þarf að setja mjög skýra stefnu og fólk þarf að vera mjög meðvitað og vakandi um þessi mál. Allir þessir virkjunarkostir hanga á sömu spýtunni. Mér persónulega finnst ekki öfgafullt að vernda miðhálendið. Hér er mynd af Aldeyjarfossi – tekin af Christopher Lund – sem Hrafnabjargarvirkjun myndi spilla.