Hér fann ég ansi merkilegan lista. Það má setja hann í samhengi við heitasta umræðuefni vikunnar.
Í dag hafa margir tileinkað sér hagfræðilega hugsun og vita ekki hvort það borgi sig að heimsækja ömmu sína fyrr en þeir hafa reiknað út sinn hlut í arfinum. Þetta folk getur dundað sér við að reikna út hrein uppboðsverðmætin sem eru falin í verkum þeirra sem eru á þessum lista frá árinu 1970.
Aðrir geta velt fyrir sér hvaðan hatrið sprettur sem veldur því að þeir kjósa að kalla fólk aumingja, hobbíista, afætur – eða vilja sjá hæfileikafólk handmoka jarðgöng fyrir sig. Og af hverju menn beita alltaf fyrir sig skúringarkonum á Landspítalanum, iðnaðarmönnum eða langveikum börnum þegar finna skal listamönnum eitthvað til forráttu. Hvaða fordómar eru það að halda að skúringarkona hafi ekki áhuga eða þörf fyrir list. Menn geta líka skoðað listann frá 1970, orðið heimspekingar og spurt sig: Hver er þess megnugur að meta hvað er list og hvað ekki? Þjóð getur ákveðið að gera mönnum kleift að verða góðir í því sem þeir gera best. Nefnið einn segir Gylfi Gylfason. Á listanum eru þeir 99.
Þeir sem velta fyrir sér hvað gerist þegar eitthvað svið fær enga styrki geta velt fyrir sér hversu margir fá styrk árlega til að skrifa bækur fyrir unglingspilta (sem er kannski mikilvægasti hópurinn sem þarf að ná til í dag). Og hversu margar slíkar bækur komu út á Íslandi í fyrra. Til að setja það í efnahagslegt samhengi getur tekið að meðaltali tvö ár að skrifa góða bók og 4000 eintaka sala (sem er góð) myndi skila höfundi innan við tveimur milljónum í tekjur.
Þeir sem hafa áhuga á að vita hvenær umræða um listamannalaun hófust geta lesið þessa skemmtilegu grein:
Þeir sem vilja njóta ávaxtanna af skattekjum Íslendinga árin 1930 – 1970 er bent á ofangreindan lista. Verk þeirra má nálgast í bókasöfnum þjóðarinnar þar sem allar bækur íslenskra höfunda frá upphafi fást ókeypis til aflestrar. Einnig má benda á Listasafn Íslands eða stássstofur betri borgara um allt land, hljóðritasafn RÚV geymir margar ágætar perlur frá þessum tíma. Það væri í sjálfu sér ágæt hugmynd fyrir þá sem vilja lifa innihaldsríku lífi að prenta út listann, hengja á ísskápshurðina og njóta vel.