Myndin hér að ofan er af svokölluðu Gullaldarliði Fylkis sem varð Íslandsmeistari í Knattspyrnu árið 1986 – þegar þeir voru 13 og 14 ára. Morgunblaðið og DV lögðu heilsíður undir þennan úrslitaleik og Halldór Halldórsson á DV kallaði þá aldrei annað en Gullaldarlið Fylkis. Á þessum árum spilaði meistaraflokkurinn ýmist í annarri eða þriðju deild. Strákarnir höfðu engar glæstar fyrirmyndir til að miða sig við en ég man að ég hugsaði þegar þeir unnu þennan fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins: Ef strákarnir verða áfram jafn góðir og jafnaldrarnir í KR og ÍA ætti Fylkir séns á Íslandsmeistaratitli árið 2000. Sá sem horfði eingöngu á meistaraflokkana spila í þriðju deild hefði þótt slíkar væntingar fáránlegar.
Þessi samanburður flaug mér í hug þegar niðurstöður um læsi ungra pilta birtust nýlega. Alþjóðlegar Pisa kannanir sýndu að um 23% 15 ára stráka á Íslandi teldust ekki geta lesið sér til gagns á móti 9% stúlkna. Þessi þrefaldi kynjamunur er athyglisverður, vegna þess að kynin eru saman í bekk, sitja í sömu tímum, hafa sömu kennslubækur og búa við sömu aðstæður. Þetta ólæsi veldur lélegum árangri í stærðfræði – vegna þess að strákarnir eiga erfitt með að skilja orðadæmi. Í nágrannalöndum okkar fer veraldlegur auður yfirleitt saman við menntastig og læsi. Hér á landi er þessu öfugt farið. Við erum eina landið í Pisa könnuninni þar sem tengslin eru neikvæð. Þvi meiri veraldlegar eigur á heimili, því meiri líkur á lélegum árangri í lesskilningi. Mælingar benda til þess að lestur framhaldsskólanema fari minnkandi en á sama tíma hafa fjárveitingar til skólabókasafna dregist saman. Í íslenskum grunnskólum er minni tíma varið til móðurmálskennslu en í grunnskólum annars staðar á Norðurlöndum og kennaraefni hér á landi fá sífellt minni menntun í íslensku.
Ég velti fyrir mér – ef staðan er svona núna – hvernig verður staða Íslands eftir 15 ár ef þessar niðurstöður eru ekki teknar alvarlega? Ef þetta endurtekur sig ár eftir ár? Höfum við efni á að sóa hæfileikum fjórðungs drengja af heilli kynslóð? Ef menntun er grundvöllur hagsældar – og lestur er grundvöllur menntunar – hvernig verður hagvöxturinn ef fjórðungur strákanna hefur engan aðgang að rituðum upplýsingum heimsins? Ef læsi er grundvöllur fyrir upplýstu lýðræði – hvað kjósa menn eftir 15 ár? Og ef staðan er svona meðal íslenskra drengja – hvernig er hún þá meðal barna sem eru af erlendu bergi brotin? Hversu hörmulega höfum við þá brugðist þeim og framtíðarmöguleikum þeirra?
Kynjamunur af þessu tagi er algengur á hnignandi jaðarsvæðum um víða veröld. Þar sem strákarnir ætla sér beint í skógarhöggið, verksmiðjuna eða námuna en stelpurnar sjá menntun sem leið til að komast burt og ná sér í maka og betra líf annarsstaðar. En þessi munur sést hér í Reykjavík – þar sem engin augljós störf bíða þeirra sem ekki afla sér menntunar. Stelpurnar hljóta þá að fara ef strákarnir hafa tekið ákvörðun um að verða andlegir eftirbátar þeirra. Það má velta fyrir sér hvort óbeit á jafnréttisbaráttu sem hefur verið ríkjandi hjá ungum strákum megi túlka sem ómeðvituð viðbrögð við þessu ástandi.
Fylkir hefur verið í fyrstu deild frá árinu 1999 – liðið hefur verið hársbreidd frá Íslandsmeistaratitil en bikartitilinn hafa þeir unnið í tvígang. Uppistaðan í því liði var gullaldarliðið frá 1986 – Kiddi, Tóti, Gunni og Finnur ásamt yngri strákum sem litu upp til þeirra. Einhver gæti sagt að gott fótboltalið sé óhjákvæmilegt í barnmörgu og vaxandi hverfi – en sú er alls ekki raunin. Breiðholtið er stærra en Árbærinn og þar hefur sami árangur ekki náðst. Gullaldarstrákarnir urðu ekki svona góðir vegna þess að það voru leikfimitímar í Árbæjarskóla. Sigursteinn var frábær kennari – en það þarf meira til ef menn vilja skara framúr. Þennan árangur má fyrst og fremst þakka áhuga foreldra og endalausri sjálfboðavinnu hugsjónamanna sem störfuðu fyrir Fylki. Áhugi fjölmiðla var strákunum hvatning, heilsíður í DV og Mogga skiptu máli. Aðstaða þeirra til æfinga var ekkert til að hrópa húrra fyrir – rauðamölin var reyndar óvenju góður malarvöllur en aðstaðan var stórbætt með samhentu átaki. Allt bendir til þess að sambærilega vinnu þarf í samfélaginu öllu til að tryggja læsi og lestur. Strákarnir þurfa fyrirmyndir og hvatningu – ekki síst heima hjá sér, ekki síst frá feðrum sínum og þeir þurfa góðar bækur.
Ég hef stundum spurt fólk: Hvað heita mest lesnu bækur á Íslandi? Yfirleitt hefur fólk svarað: Símaskráin? Biblían? Arnaldur? En mest lesnu bækur á Íslandi hafa sjaldan fengið umfjöllun í fjölmiðlum og þær fá aldrei dóma. Þær heita nöfnum eins og Sproti, Glimrende, Matrix, Mályrkja, Lífheimurinn, Glói Geimvera. Ég hef aldrei séð umfjöllun um þessar bækur, aldrei séð sérfræðinga eða kennara velta fyrir sér hvort þær teljist góðar eða slæmar, skemmtilega eða leiðinlega skrifaðar. Hvort þær séu úreltar, hvort þær mættu vera fleiri og fjölbreyttari og hvaða höfundar eru bestir. Ætla má að 40.000 – 60.000 börn lesi bók sem er notuð í 10 – 20 ár. Á meðan Arnaldur semur nýja bók á hverju ári þykir æskilegt að nýta kennslubækur sem lengst, það hefur þótt óþarfa kostnaður að semja og prenta bók fyrr en gamla upplagið er dottið í sundur. Það var til dæmis áfall þegar Berlínarmúrinn féll og allar landafræðibækur urðu úreldar. Ef eitthvað er verra en sögulegir atburðir til að rústa sögukennslunni þá eru það ungir vísindamenn sem grafa undan kenningunum sem börnin hafa lagt á minnið.
Skólabækurnar eru aldrei settar í samhengi við góðan eða slakan árangur í alþjóðlegum könnunum. Hvaða bækur nota þjóðir sem standa sig best? Við ræðum aldrei hvaða viðmið við eigum að nota þegar kemur að menntun. Hver skilgreinir hvað börn eiga að vita og kunna? Furðufiskar og lífríkið í hafinu kringum Ísland ætti að vera örvandi fyrir ímyndunaraflið. Ættu 10 ára krakkar á Íslandi ekki að hafa æði fyrir fiskum eða hvölum? Þeir ættu allir að vilja verða kafarar og sjávarlíffræðingar. Eða hvað? Ákvað einhver að þeir ættu ekki að hafa áhuga? Eða erum við almennt hlutlaus og meðvitundarlaus um menningarheim barna og unglinga? Eldvirkni og eldgos síðustu ára ættu að fylla þá löngun til að verða jarðfræðingar og vísindamenn. Íslendingasögurnar og bókmenntirnar eiga að fylla þá draumum um að verða skáld eða fornleifafræðingar. Hversu margar bækur ættu grunnskólakrakkar að fá til eignar? Hvort myndi duga þeim lengur – ipad eða 300 blaðsíðna bók í lit um allt sem viðkemur eldgosum, regnskógum og furðufiskum?
Strákarnir okkar hafa tileinkað sér margt í nútímatækni og heimurinn er fullur af spennandi tækifærum og flottum græjum. Séu þær notaðar rétt geta þær gert okkur læsari, klárari og auðugri menningarlega. Þær gefa okkur áður óþekkt vald til að skapa og miðla. Möguleikar til að fræðast um heiminn og tengjast fólki um víða veröld eru meiri en nokkru sinni fyrr. En mikilvægustu upplýsingarnar eru ekki á Youtube. Sá sem ekki hefur þjálfað sig í lestri hefur takmarkaðan aðgang að heimi vísinda, tækni og heimspeki. Aðgangur að trúarbrögðum, ljóðlist og hugmyndasögu heimsins verður lítill sem enginn. Ef Ísland á að eignast góða kennara, eðlisfræðinga, hjúkrunarfræðinga og verkfræðinga verðum við að vera læs og víðlesin. Læsi er lykillinn að erlendum tungumálum, án læsis getum við ekki ræktað okkar eigin sögu, tungu og menningu. Án færni í eigin móðurmáli er erfitt að miðla hugsunum sínum og hugmyndum í rituðu og mæltu máli.
Margir hafa spjarað sig í lífinu ólæsir – en þessi hópur sem nú mælist illa læs er svo stór að það má líkja ástandinu við áskapaða fötlun eða vítavert sinnuleysi. Í þessum fjórðungi stráka sem ekki geta lesið sér til gagns liggur stærsta vannýtta auðlind þjóðarinnar – tækifærin eru svo mörg að þau fylla heilu bókasöfnin. Ef ekki er brugðist við af krafti blasir við að strákarnir okkar og þjóðin öll – falli niður í þriðju deild.
Þótt við drögumst afturúr þá hafa líklega aldrei fleiri jarðarbúar lært að lesa heldur en einmitt á síðustu árum. Hér er myndskeið sem ég tók af krökkum sem ég heimsótti í Bingua Hope Primary School í Huidong hreppi, Liangshan hluta Sichuan í Kína. Foreldrar þeirra eru margir hverjir ólæsir og vinna í borginni við að framleiða ipad, gallabuxur og leikföng og sjá börnin einu sinni á ári. Þeir leggja allt að veði enda er krökkunum ætlað annað hlutskipti, þetta er Gullaldarliðið þeirra.
Unnið upp úr erindi sem var haldið í Norræna húsinu 21. janúar 2012. Alvara málsins – Þjóð í ólestri.