Svona verða fréttir til

Hér er hægt að gera litla æfingu í að sjá hvernig fréttir birtast okkur og hvaðan þær koma. Í fyrsta lagi er fréttatilkynning frá Samáli. Það eru nýstofnuð samtök álframleiðenda á Íslandi. Þar á eftir er hlekkur á frétt á Stöð 2. Prófið að hlusta á fréttina og veltið fyrir ykkur hversu miklu fréttastofan bætti við fréttatilkynningu Samáls. Skoðið síðan úrklippu neðst sem ber saman mengun Alcoa álversins á Reyðarfiðri og álvers sem Norsk Hydro hugðist reisa á sama stað. Hér er SAMÁL:

Losun gróðurhúsalofttegunda í álframleiðslu minnkar milli ára

Íslenskur áliðnaður í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði

9. maí 2011

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum áliðnaði nam að meðaltali 1,71 tonni á hvert framleitt tonn af áli og dróst saman um 0,5% á milli ára. Er losun íslenskra álfyrirtækja 12% minni en að meðaltali í Evrópu, ef frá er talin losun vegna raforkuframleiðslu.

Að raforkuframleiðslu meðtalinni er heildarlosun vegna álframleiðslu hér á landi aðeins um 20% af heildarlosun á hvert framleitt tonn í Evrópu.

Losun gróðurhúsalofttegunda í áliðnaði hér á landi er með því minnsta sem þekkist í álframleiðslu í heiminum og hefur minnkað um 73% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990.

Losun flúorefna minnkaði um að sama skapi 4% á milli ára og nam 0,4 kg á hvert framleitt tonn. Er þetta nærri 30% minni losun á hvert framleitt tonn en að jafnaði í Evrópu og um 70% minni en að jafnaði í heiminum. Frá 1990 hefur losun flúorefna á hvert framleitt tonn af áli minnkað um liðlega 90%.

Á síðastliðnu ári voru framleidd tæplega 820 þúsund tonn af áli á Íslandi og jókst framleiðslan lítillega á milli ára. Útflutningsverðmæti áls 222 milljörðum króna á síðasta ári.

HÉR ER FRÉTTIN:

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV72D15436-82DC-4651-8896-74BF5EFEB13A

HÉR ER TAFLAN:

Samanburður á álveri Alcoa á Reyðarfirði og áformuðu álveri Norsk Hydro:

Það má síðan nota þetta sem grundvöll fyrir umræður við matarborðið. Hver skrifaði fréttina? Til hvers eru fréttir? Hvaða gagn gera fréttir? Gerði þessi frétt meira gagn fyrir þig eða Samál? Hver valdi hvaða tölur voru notaðar og hvernig þær voru fram settar? Fara hagsmunir ykkar saman? Hvað fer stór hluti af orkuframleiðslu Íslands til stóriðju? Hvað greiddu orkufyrirtækin eigendum sínum mikinn arð á síðasta ári? Hvað greiddu álfyrirtækin eigendum sínum mikinn arð? Hversu mörg tonn af dósum voru ekki endurunnar í Ameríku á síðasta ári? Hvað eru útflutningstekjur? Hvað eru fréttir? Hvað eru hagsmunaaðilar? Til hvers eru lobbíistar? Hversu margir eru í fullu starfi við náttúruvernd á Íslandi? Hversu margir starfa í kynningardeildum álfyrirtækjanna? Hver skrifaði fréttina? Hvað er hann með í mánaðarlaun? Hvað fékk hann mikinn tíma til að skrifa fréttina? En fréttamaðurinn, hvað er hann með í laun og hvað fékk hann mikinn tíma? Hvað kom fyrir Ísland, hvernig gerðist það og á það að gerast aftur?