Ég hef haldið nokkra fyrirlestra á undanförnum árum og þar hef ég oft verið spurður – ,,en á hverju eigum við að lifa?“ og þá oft í samhengi við stóriðjuumræðuna. Hvað ætlum við að gera í framtíðinni? Hvað á að gera í staðinn? Síðan hafa menn haldið erindi eins og þetta hér: ,,Skapa þarf 35.000 störf fyrir 2020.“ Þetta er ógnvekjandi framtíðarsýn. ,,Við“ eða ,,iðnaðurinn“ þurfum að skapa þessi störf til viðbótar við allt sem hvílir á okkur í daglegu lífi. Þá er nú ánægjulegt að það sé hægt að töfra fram tvö álver – til þess að skera vandamálið niður í 34.000 störf, (eða 30.000 með fölsuðum margföldunaráhrifum). Þegar menn spyrja hvaða störf við eigum að skapa fyrir unga fólkið okkar, já eða peninga handa öryrkjunum – þá hef ég stundum dregið upp þessa mynd hér:
Þetta er lokaritgerð frá árinu 1997 eftir Heiðrúnu Gígju Ragnarsdóttur, frá sama ári og ég útskrifaðist úr Íslenskudeild HÍ. Lokarigerð Heiðrúnar heitir The characteristics of carbon fibre prosthetic socket.
Ég held að ég myndi ekki skilja eitt orð í þessari ritgerð. Og ég myndi ekki hafa hugmynd um hvað hún ætlaði að gera við þessa þekkingu. Ég gæti jafnvel verið hræddur um að þetta sé ekki nógu praktískt vegna þess að ég skil ekki ritgerðina og veit ekki um neitt starf sem bíður eftir þessari þekkingu. En þessi ritgerð á einhvern þátt í því að þessu fyrirtæki gengur vel, það er ekki ,,iðnaðurinn“ sem heldur uppi fyrirtæki. Það er henni að þakka að fótalaus maður var úrskurðaður vanhæfur til að keppa á Ólympíuleikum í spretthlaupi. Það var talið að koltrefjafæturnir gæfu honum forskot á hina, fótaleysið var semsagt meðhöndlað eins og hvert annað svindl hjá Ólympíunefndinni. Samanber þetta myndskeið. Í Ameríku keyra menn á ýmsum frösum þegar svartnættið blasir við – eins og til dæmis – ,,ef við getum sent mann til tunglsins hlýtur þetta að vera hægt“. Ég held að við ættum að koma upp okkar eigin frasa: ,,Ef fótalaus maður getur keppt í spretthlaupi ættum við að geta þetta eða hitt.“ Ég held hins vegar að ég hafi aldrei séð viðtal við þessa stelpu í sambandi við þetta mál, eða nokkurn annan sem kom nálægt því að hanna þessa fætur. Að minnsta kosti voru viðtölin ekki nógu mörg til þess að hún yrði fyrirmynd ungra stúlkna sem hugsa sem svo að það væri nú ekki galið að fara í læknisverkfræði og gera blindum manni kleift að verða ljósmyndari – svo ég taki jafn fáránlegt dæmi og fótalaus spretthlaupari hlýtur að hafa hljómað fyrir 20 árum.
Myndskeiðið hér að ofan er dálítil sunnudagsskemmtun verkfræðinema í HÍ. Þeir sendu blöðru 100.000 fet upp í loftið til að taka mynd af jörðinni. Já hvað eiga þeir af sér að gera af sér þessir strákar í framtíðinni? Hvar eiga þeir að vinna? Ég hef rosalegar áhyggjur, þeir virðast ekki jarðtengdir. Hvar er grafan þeirra? Hvaða starf getur Jón Steindór eða Gylfi Arnbjörns búið til handa þeim? Ég held að það sé miklu líklegra að þessir strákar ráði þá Jón og Gylfa í vinnu í framtíðinni – ef þeir kjósa þá að búa á Íslandi. Það er eiginlega forsenda þess að Gylfi fái ellilaun – að krakkar eins og þessir nenni að búa á landinu. Ég hef engar forsendur til að vita hvað þessir strákar sem sendu blöðruna upp eru að hugsa, hvað þeir kunna, eða hvað þeir geta, en ef þetta er sunnudagsskemmtunin – hef ég engar áhyggjur. Þeir eiga eftir að gera eitthvað – en vonandi eitthvað gagnlegt og ótengt fjármálaverkfræði.
En ég held að þetta sé það sem menn tala um – já og í rauninni syrgja þegar framtíðarsýn klikkuðu karlanna ber á góma. Hversu rosalega heilaþvegnir menn eru á Íslandi. Hversu ótrúlega fastir menn eru í fornum hugsunarhætti. Hvað þeir vantreysta og misskilja menntun og möguleika Íslands en vanrækja um leið skyldur sínar um að búa hér til almennilegar reglur, stefnu og yfirsýn. Það er sorglegt hvað skortir mikið á að nýjar hugmyndir eða ný hugsun komist að og skjóti rótum og hvað fúskið fær að grassera. Það er sorglegt að þarna er maður sem virðist telja eðlilegt að byrja að reisa álver í Helguvík án þess að hafa tiltæka orku. Hann styður þarna óútfyllta ávísun á ótrúlega eyðileggingu á Reykjanesskaga – svo að Hellisheiðarvirkjun bliknar í samanburðinum. Sjá meira hér.
(P.s – Reiði- og analbloggarar eiga að ekki að taka þessari grein bókstaflega þannig að ég telji að við munum lifa á því að senda blöðrur upp í geiminn og taka mynd af jörðinni. Þetta er bara dæmi um það sem er kallað – mannauður. Þú sendir fólk í nám til þess að það geti ráðið þig í vinnu í framtíðinni. )