Í Draumalandinu eru stutt myndskeið frá Indlandi. Þau eru komin frá Indverskum kvikmyndagerðarmanni og rithöfundi sem heitir Samarendra Das. Við hefðum gjarnan viljað kafa dýpra í þá hlið, kjör fólks á Jamaica, Brasilíu og Indlandi. Samarendra Das hefur kynnt sér þessi mál afar vel og hann hefur nú gefið út bókina: Out of This Earth: East India Adivasis and the Aluminium Cartel. Samarendra kemur til landsins á vegum Saving Iceland. Samarendra gefur okkur einstakt tækifæri til að kynnast þeirri hlið iðnaðarins sem hefur nánast aldrei verið kynnt okkur, hvaðan skipin koma með hvíta duftið sem við sjáum stundum sigla inn Hvalfjörðinn, Straumsvíkina eða Reyðarfjörð.
Samarendra Das á Íslandi – Fyrirlestrar og kynning á „svartbók áliðnaðarins“
Dagana 14. – 21. ágúst verður indverski rithöfundurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og aktífistinn Samarendra Das hér á landi, í annað sinn á vegum umhverfishreyfingarinnar Saving Iceland. Tilefni komu hans er útkoma nýrrar bókar hans og forleifafræðingsins Felix Padel, Out of This Earth: East India Adivasis and the Aluminium Cartel, sem er gefinn út af Orient Black Swan útgáfunni og mætti kalla „svartbók áliðnaðarins“. Miðvikudaginn 18. ágúst kl. 20:00 verður Samarendra með fyrirlestur og kynningu á bókinni í Reykjavíkur Akademíunni, Hringbraut 121. Fleiri fyrirlestrar munu eiga sér stað annars staðar á landinu á meðan Samarendra er hér og verða þeir auglýstir síðar.
Síðasta áratuginn hefur Samarendra verið viðriðinn baráttu Dongria Kondh frumbyggja Odisha héraðsins á Indlandi, gegn breska námufyritækinu Vedanta sem hyggst grafa eftir báxíti til álframleiðslu á landi frumbyggjanna – nánar tiltekið Nyjamgiri hæðunum. Baráttunni hefur vaxið ásmegin upp á síðkastið og hefur til að mynda fjöldi opinbera aðila selt hlut sinn í fyrirtækinu á þeim forsendum að það standi ekki undir kröfum um virðingu við mannréttindi og samfélög innfæddra. Þar verður ekki dregið úr þætti Samarendra en hann hefur skrifað hundruði greina, gefið út og ritstýrt bókum og unnið að heimildarmyndum um baráttuna og tengd málefni. Nýju bókina, Out of This Earth, mætti kalla „svartbók áliðnaðarins“ þar sem hún tekur á áliðnaðinum frá öllum hans dökku hliðum. Í fréttatilkynningu frá útgáfufyrirtækinu Orient Black Swan segir m.a. um bókina:
„Ál er málmur sem við álítum sjálfsagðan hlut, sjálfsagðan þátt framleiðslu. En höfum við nokkra hugmynd um hversu dýrkeyptur hann raunverulega er? Bókin rekur falda sögu áliðnaðarins og segir hana í gegnum hundruðir radda, hundruði sagna, um hvernig hvert landið á fætur öðru hefur gleypt við loforðunum um velmegun og stungið sér til sunds í hringiðju arðráns og skulda sem aldrei verða borgaðar aftur. Hver eru tengsl hins gríðarlega hruns íslensku bankana annars vegar og byggingu virkjana og álvera hins vegar? Hver er tengsl mafíugripdeilda á fjáreignum Rússlands annars vegar og stöðugt auknum völdum álbaróna hins vegar? Hvers vegna voru sett takmörk á byggingu álvera í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratugnum, og álver þess í stað reist í öðrum og fátækari löndum á borð við Gana, Gíneu, Jamaíka og Indland?“
Í bókinni segir Samarendra frá því hvernig iðnaðir á borð við áliðnaðinn eru keyrðir áfram og reknir af alþjóðlegum auð- og einokunarhringjum sem samanstanda af námufyrirtækjum, fjárfestingarbönkum, ríkisstjórnum, málmkaupmönnum og vopnaframleiðendum. Innlegg Samarendra í hérlenda umræðu kemur á besta tíma, nú þegar enn virðist stefnt á að reisa fleiri álver hér á landi og umræðan um sölu H.S. Orku til Magma Energy – fyrirtækis sem á rætur sínar að rekja til málmanámureksturs í Suður-Ameríku – er í hæstu hæðum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Samarendra kemur til landsins. Hann var hér sumarið 2008, þegar andspyrnubúðir Saving Iceland stóðu yfir á Hellisheiði, og hélt vel sóttan og vel heppnaðan fyrirlestur í Reykjavíkur Akademíunni ásamt Andra Snæ Magnasyni. Eftir fyrirlesturinn var eins og skyndilega væri umræðan um hnattrænt samhengi álframleiðslu til staðar hér á landi og fjölluðu stærstu fjölmiðlar landsins loksins um báxítgröft í samhengi við hérlenda álframleiðslu. Þetta er í þriðja sinn sem Saving Iceland stendur fyrir komu erlendra gesta hingað til lands því sumarið 2007 fór fram ráðstefnan Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna á Hótel Hlíð í Ölfussi þar sem fólk frá fimm heimsálfum kom saman og deildi sögum sínum af umhverfis- og félagslegum áhrifum virkjana- og álframleiðslu.
Eins og áður kom fram verður Samarendra með fleiri fyrirlestra og verða þeir kynntir síðar í vikunni. Við hvetjum fjölmiðla til að mæta á fyrirlesturinn í Reykjavíkur Akademíunni auk þess að tala við Samarendra – um bókina, áliðnaðinn og baráttu frumbyggja Indlands. Þau sem vilja ná tali af honum eru beðin um að hafa samband við Saving Iceland í gegnum netfangið savingiceland@riseup.net.
Saving Iceland
www.savingiceland.org
savingiceland@riseup.net