Já vel hönnuð atburðarás myndi einhver segja. Magnaðar tímasetningar, nánast klisjulegar. Í skáldskap heldur heimurinn niðri í sér andanum, jafnvel fuglarnir þagna við mikilvæg augnablik. Þannig fór með skýrsluna, eins og í tónverki, bók, spennumynd, fatal attraction, kemur lækkun, lok, hvíld áður en verkið er keyrt upp aftur. Og það eina sem manni dettur í hug er hvað þetta er fáránlega ljóðrænt, hvað tímarnir eru goðsögulegir. Í skýrslunni togast ekki á hið góða og illa. Miklu frekar líkist hún Alien vs. Predator, hirði ég eigi um hvor drepist.
En gosið á fimmvörðuhálsi var fallegt. Það sem kom mér á óvart var tvennt.
1: Hljóðið – gosið var taktfast, það var ekki yfirgnæfandi og magnað eins og foss, það var eins og púls, það var einhverskonar svipubassi – minnti mig helst á hjartsláttinn sem maður heyrir gegnum hlustundartækið í mæðraskoðun. En færri slög á mínútu – getið heyrt það í vídeói hér fyrir neðan.
2. Hljóðið – hraunið hljómaði eins og einhver væri að bryðja gler. Það var líka fallegt.
Og kannski er meðgöngulíkingin bara sönn. Þetta var bara smá sónarskoðun sem við fengum, kannski er Katla að fara að fæðast.
Ég fór uppeftir með Christopher Lund vini mínum, seinni ferðin hans. Myndirnar eru hér og hér. Stoltur af mínum manni að hafa komið þeim inn á National Geographic. Ég tók með mér mína litlu tökuvél að gamni og sonur minn klippti saman myndband. Á meðan þið bíðið eftir Top Gear þá er hérna smá myndband.