Draumalandið á RÚV og tilnefning til menningarverðlauna DV

Draumalandið verður sýnt á RÚV á sunnudaginn klukkan 19:30. Í dag var tilkynnt að Draumalandið hefur fengið tilnefningu til menningarverðlauna DV sem nú eru veitt í 31. skipti. Þau verða afhent miðvikudaginn 10. mars. Meiri upplýsingar um verðlaunin á vefsíðu DV.

Hér eru kvikmyndirnar sem tilnefndar eru:

KVIKMYNDIR

Draumalandið
Þessi magnaða ákæra yfir rústum íslenska draumsins var nokkur ár í vinnslu og kom ekki fyrir almenningssjónir fyrr en nokkru eftir efnahagshrunið, en upphaflega stóð til að sýna hana fyrr. Við það varð áhrifamáttur myndarinnar meiri; í stað þess að vera aðeins aðvörun um villu og ranga vegferð varð hún spegillinn sem sýndi okkur samhengið milli ýmissa orsaka og þeirra afleiðinga sem við nú glímum við. Þetta er þróttmikil frásögn og ástríðufull, höfundunum Þorfinni Guðnasyni og Andra Snæ Magnasyni er mikið niðri fyrir. Þeir vilja hrifsa áhorfendur úr værð draumalandsins og inn í kaldan veruleikann; hvað gerðist, hvers vegna gerðist það og af hverju leyfðum við því að gerast? 

Njálsgata
Gráglettin og heilsteypt stuttmynd sem fjallar um líf ungs fólks í Reykjavík árið 1996. Ísold Uggadóttur tekst vel að fanga stemningu liðins tíma, þegar fólk neyddist til að eiga prívat símtöl í vinnunni innan um annað fólk í síma með snúru í vegg, fyrir tíma farsímanna. Leikur þeirra Dóru, Jörundar og Darra er samstilltur, leikmyndin og búningar vekja nostalgíuna sem og tónlistin. Eins er stemningin á vinnustaðnum: Símaskránni, dásamleg. Dramað í myndinni felst í því hvað getur gerst í ástarsamböndum þegar traustið brestur og óöryggið og afbrýðisemin ná yfirhöndinni. Ísold stundar nú meistaranám í kvikmyndaleikstjórn við Columbia-háskólann í New York. Það verður gaman að fylgjast með þessari ungu, hæfileikaríku konu í framtíðinni.
 
Bjarnfreðarson/Fangavaktin
Hinn magnaði Vaktabálkur Ragnars Bragasonar og félaga hefur fært okkur ógleymanlegar persónur sem hafa náð að smeygja sér inn í vitundina og verða að viðmiðum í hvunndeginum. Orðfæri þeirra hefur einnig orðið hluti af því daglega tungutaki sem við notum til að skilgreina tilveruna frá degi til dags. Þættirnir hafa skapað ný viðmið í gerð leikins sjónvarpsefnis á Íslandi og standast fyllilega alþjóðlegan samanburð. Sjónvarpsþættirnir Fangavaktin og bíómyndin Bjarnfreðarson eru áhrifamikill lokakafli heildarverksins. Í Fangavaktinni lokast Georg Bjarnfreðarson innan rimla hugans, um leið og Daníel og Ólafur Ragnar byrja að losna undan áhrifavaldi hans. Í bíómyndinni Bjarnfreðarson freistar Georg þess að finna leiðina út, fyrirgefa sjálfum sér breytni sína. Sú leit hans að endurlausn, með hjálp sinna gömlu félaga, er allt í senn; kómísk, sorgleg og hjartnæm. 
 
Sólskinsdrengurinn
Móðir Kela, ungs einhverfs drengs, leggur upp í leit að leiðinni inn fyrir skel sonar síns. Þessi saga um trú, þrautseigju og lítil kraftaverk er næmlega sögð af þroskuðum kvikmyndahöfundi, hvers mannskilningur og samkennd með hlutskipti fólks skín úr hverjum ramma. Þetta er myndin þar sem Friðrik Þór sneri aftur. Það er engin tilviljun að þekktar stjörnur hafi lagt þessu verki lið, eða að myndin fari nú í víðtæka dreifingu í Bandaríkjunum og víðar, því að þessi hjartnæma og áhrifamikla saga lætur engan ósnortinn.
 

Íslensk alþýða
Það er ávallt gleðiefni þegar fyrsta kvikmynd ungs kvikmyndahöfundar heppnast svo vel að áhorfandinn fær nýja sýn á veruleikann. Heimildamyndin Íslensk alþýða eftir Þórunni Hafstað er þannig mynd. Þórunn, sem nýlokið hefur námi í sjónrænni mannfræði, beinir sjónum að verkamannabústöðunum við Hringbraut og nokkrum íbúum þeirra. Áherslan er bæði skemmtileg og nýstárleg; þetta er saga um samskipti fólks við það rými sem það hrærist í. Með því að skoða þessi samskipti nær Þórunn að sýna okkur venjulegt fólk í því samhengi sem við leiðum oftast hjá okkur. Smáatriði opinbera óvæntar hliðar. Hið ofur hvunndagslega reynist áhugaverðara en áhorfandinn ætlar. Húsið hefur sál og aðgát skal höfð í allri nærveru og umgengni. Myndin vakti mikla athygli á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, síðastliðið vor og á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í haust. Vonandi ber Sjónvarpið gæfu til að sýna hana sem fyrst, enda á hún fullt erindi við íslenska alþýðu.

Nefndin 
Ásgrímur Sverrisson
kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri, formaður

Bjargey Ólafsdóttir
kvikmyndagerðarmaður og myndlistarmaður

Dóri DNA
Tón- og sviðslistamaður