John Thorbjarnarson – in memoriam

Picture 19

Á sunnudag fengum við þær sorglegu fréttir að John Thorbjarnarson móðurbróðir minn hafi látist úr malaríu á Indlandi þann 14. febrúar. John fæddist þann 23. mars árið 1957 í New Jersey í Bandaríkjunum, hann stýrði verndaráætlunum fyrir Wildlife Conservation Society í Florida og starfaði um allan heim að verndun krókódíla og fenjasvæða. John var sonur Björns Þorbjarnarsonar skurðlæknis í New Jersey, fæddur 9. júlí 1921, og Margaret Thorbjarnarson (fædd Brown í Toronto Kanada 2. febrúar 1928.)  

John var einn fremsti vísindamaður á sínu sviði. Hann leiddi starf sem stuðlaði að endurreisn Orinoco krókódílsins í Venezuela og kínverska krókódílnum við Yangtze fljót í Kína. Krókódíllinn í Kína taldi aðeins um 150 villt dýr og var í bráðri útrýmingarhættu eftir að búsvæði dýranna hafði nánast allt farið undir verksmiðjur og ræktarlönd. John leiddi einnig frumrannsókn á atferli og lifnaðarháttum anaconda kyrkislöngunnar í Venezuela. John gaf út fjölmörg rit, rannsóknir og vísindagreinar um sérsvið sitt, í vor er væntanleg bók eftir hann um kínverska krókódílinn.

Íslensk tunga á varla orð um dýrin sem urðu sérgrein Johns – en hann lauk doktorsnámi frá Háskólanum í Florida árið 1991. John stuðlaði að sjálfbærum veiðum, skilningi og virðingu fyrir ofsóttum rándýrum. John stundaði rannsóknir á krókódílum í Níl, á Haíti, á Kúbu, Uganda og í Amazon frumskóginum þar sem hann dvaldi langdvölum. Gælunafn hans í Burma var Kyunpatgyi – í höfuðið á goðsögulegum risakrókódíl.

John er skýrt dæmi um það sem er stundum kallað í Ameríku – follow your childhood dreams. Alveg frá því hann var barn var ljóst hvert stefndi en hann sagði eitt sinn í viðtali að líklega hafi þáttur frá National Geographic breytt lífi sínu á sjöunda áratugnum. Fjörtíu árum síðar var hægt að sjá hann sjálfan við störf í National Goegraphic, sem aftur hefur eflaust haft mótandi áhrif á framtíðardrauma barns einhversstaðar í veröldinni. (Með því að smella á pílurnar má fá stærri mynd.)

John eyddi æskuárunum í skógum og tjörnum bak við hús fjölskyldunnar í New Jersey þar sem hann kom heim með öll möguleg skriðdýr sem fundust á þessum slóðum.  Það er til óborganleg mynd af honum níu ára gömlum með frekknóttan Caiman krókódíl á höfðinu. 
Björn afi flutti til Bandaríkjanna í kringum 1950 og náði miklum frama sem yfirlæknir á New York sjúkrahúsinu og prófessor við Cornell háskóla. Björn afi og Peggy bjuggu í stóru hvítu einbýlishúsi með risastórum garði og fjóra efnilega unglinga. Kathy, Paul, John og Lísu. Það var ljómi yfir öllu þeirra lífi. Þau áttu hund og ketti, hamstra og naggrísi en herbergið hans John var ævintýraheimur, hann átti safn af steingerfingum, þar bjó lítill krókódíll og í stóru glerbúri var þriggja metra löng kyrkislanga sem fékk sér stundum sundsprett ásamt hundinum og okkur í sundlauginni. John leyfði okkur að finna kraftinn í kyrkislöngunni þegar hún hringaði sig um hendur okkar. Á kvöldin drógust leðurblökur að ljósinu í lauginni ef við fórum í kvöldsund.
Líf Johns var sveipað ævintýraljóma, hann var skemmtilegur en jafnframt hæglátur og jarðbundinn persónuleiki. Líklega geta ekki margir státað af því að hafa forðað heilum dýrategundum frá útrýmingu eða komið á fullum sættum milli þorpsbúa og rándýranna sem þeir hræðast. John valdi sér ekki hættulaust líf, en hann sagði alltaf að það hættulegasta við starfið væru ekki krókódílar eða kyrkislöngur – heldur umferð, matareitrun og moskítóflugur og þar hafði hann rétt fyrir sér. John var staddur á Indlandi til að halda fyrirlestur um náttúruvernd en lést úr malaríu á sjúkrahúsi í Nýju Delhi. John var fráskilinn og barnlaus en lætur eftir sig fjórar systur og foreldra á lífi og stóran frændgarð í Ameríku og Íslandi. Það er mikill missir að John Thorbjarnarsyni, krókódílar og kyrkislöngur heimsins hafa misst mikilvægan bandamann, fjölskyldan kveður kæran bróður og frænda og við sjáum eftir mikilvægri fyrirmynd í lífinu. 
Afi og Peggy hafa nú þurft að sjá á eftir báðum sonum sínum, en Paul varð bráðkvaddur árið 1996. Það er fyrir menn eins og John, sem gera það að verkum að lífríki jarðarinnar er nokkrum dýrategundum ríkara og draumar okkar og markmið eru aðeins stærri. Blessuð sé minning hans.
 
Mynd um Caiman verkefnið í Amazon: 

One thought on “John Thorbjarnarson – in memoriam

  1. Votta ykkur samúð mína.
    Myndin af John er alveg frábær og frásögnin þín líka.
    Mbk
    Chrissi

Lokað er á athugasemdir.