Draumalandið í aðalkeppni IDFA – Amsterdam

Tuschinski kvikmyndahúsið í Amsterdam

Tuschinski kvikmyndahúsið í Amsterdam

Úr Fréttablaðinu 7. nóv 2009

Hátíðin stendur frá 19.-29. nóvember í ár. Um 2.000 myndir sækja um þátttöku á IDFA ár hvert og tæplega 200 myndir eru sýndar á hátíðinni en aðeins 17 myndir voru valdar í keppnina í ár og er Draumalandið ein þeirra. Það er mikið keppikefli kvikmyndagerðarmönnum og framleiðendum að koma myndum sínum á hátíðina og stendur valið yfir sumarlangt fram á haust. Hafa þeir IDFA-menn, eins og flestir forráðamenn stærri hátíða, lagt áherslu á að ná til sín frumsýningum á nýjum myndum og verður því að teljast nokkur árangur hjá framleiðendum Draumalandsins að myndin skuli tæk í aðalkeppni þótt langt sé liðið frá frumsýningu hennar hér á landi. Draumalandið keppir því meðal bestu mynda á heimsmælikvarða. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk heimildarmynd er valin í aðalkeppnina á IDFA og því stór áfangi fyrir íslenska kvikmyndagerð og mikill heiður fyrir kvikmyndagerðamennina sem að myndinni stóðu. Keppt er um aðalverðlaunin, 12.500 evrur, svo eftir nokkru er að slægjast.

Þar að auki hefur Draumalandið verið valin ein af fimm myndum sem munu ferðast um kvikmyndahús í Hollandi meðan á hátíðinni stendur og einnig hefur Ally Derks, stjórnandi hátíðarinnar, valið Draumalandið sem eina af sínum tíu uppáhaldsmyndum og verður hún sýnd í sérstöku viðhafnarprógrammi ásamt þeim myndum að hátíð lokinni. Þannig að það verða margir sem munu sjá Draumalandið af hollenskum þegnum næstu mánuði og bætist þar enn við orðspor þjóðarinnar í Niðurlöndum.

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa í langan tíma sótt Amsterdam heim meðan á IDFA hefur staðið, flestir þó til að taka þátt í fjáröflunarstefnunni sem þar er haldin í tengslum við hátíðina en þar koma saman allir helstu dagskrárstjóra stöðva í Evrópu og heyra kynningar á nyjum verkefnum í heimildamyndagerð. Ekkert íslensk verkefni komst þar á blað í ár.- pbb