Ímyndið ykkur að þið sjáið auglýsingu: „The most beautiful adventure in the world“. Það er flogið yfir norska firði og yfir öllu hljómar brot úr Pétri Gaut eftir Grieg. Síðan kaupir maður farið og fær nákvæmlega það sem maður keypti, með tónlistinni og öllu. Hér er myndbrot úr stuttri siglingu sem ég fór síðustu helgi um Lýsufjörð í Noregi í tengslum við bókmenntahátíð í Stavanger. Það er ekki nóg að sigla og njóta – Grieg er blastaður í 200 decibelum. Í bókinni Travels in Hyperreality – lýsir Umberto Eco ferðalagi um ofurraunveruleika Bandaríkjanna. Vaxmyndasöfn, skemmtigarða og áfangastaðir þar sem raunveruleikinn hefur verið endurgerður svo að enginn verði fyrir vonbrigðum. Stærsti píramídi í heimi er til dæmis í Las Vegas, markmið arkítektanna var að ef þú hefur heimsótt þennan píramída munir þú verða fyrir vonbrigðum þegar þú kemur til Egyptalands. Þar er allt minna, daufara, óraunverulegra. Líklega er sögusafnið í Perlunni það næsta sem kemst ofurraunveruleika á Íslandi . Og stundum er erfitt að sjá muninn, hvort húsafriðun er raunveruleg eða viðleitni til að skapa ofurraunveruleika – eins og þegar Fjalakötturinn er endurskapaður í Aðalstræti á sama tíma og alvöru hús eru látin grotna niður annarsstaðar í bænum af illvígum verktökum bökkuðum upp af smekklausum bankamönnum. En hér er norska útgáfan af ofurveruleika. Það dugar ekki að vera staddur í „fegursta ævintýri í veröldinni“. Það verður að peppa það upp – magna upplifunina – það má ekki valda vonbrigðum.