Af óseðjandi orkuþörf í Helguvík

Á sunnudag var viðtal við Andra Snæ Magnason í hádegisfréttum RÚV. Umfjöllun og umræðu um það mál má sjá hér og hér. Ef comment eru skoðuð á Eyjunni mætti ætla að orkuþörfin væri byggð á einhverskonar persónulegri skoðun minni en svo er ekki, ekkert frekar en tveir plús tveir eru fjórir. Ef álverið í Helguvík hefði verið 100.000 tonn þá hefði eflaust verið hægt að byggja ágætt álver í Helguvík. En því miður er grunnstærð álvers, stærðin sem öll tæknin, kerin, sílóin og rafkerfið inni í þessum verksmiðjum hannað miðað við 360.000 tonna einingu. Það þýðir einfaldlega að skrapa þarf orku sem jafngildir heilli Kárahnjúkavirkjun og flytja til Helguvíkur. Þetta segja allir í bransanum. Stækkun álversins í Straumsvík sem var felld snerist að sögn fróðra manna einmitt um þetta, að setja svona einingu við hliðina á gamla álverinu. Á Húsavík gildir hið sama og allt tal um minna álver voru því miður blekkingar. Og þessar stærðir þýða einfaldlega að áliðnaðurinn hefur vaxið Íslandi og orkulindum landsins yfir höfuð.

Áformin um að tvöfalda orkuframleiðslu á Íslandi og tvöfalda síðan aftur eru fáheyrð og fáránlegar í þróuðu samfélagi. Þarfir áliðnaðarins eru orðnar of miklar og því miður sjáum við menn spila leiki, sem ég vil kalla hreinan óheiðarleika í framsetningu á upplýsingum til almennings. Þessar fréttir Stöðvar 2 verða að teljast til fyrirmyndar vegna þess að þær fjalla um heildarmynd en ekki bitana sem fyrirtækin ætla almenningi að kyngja. Fréttin hér að ofan sýnir hvað þarf mikla orku til Helguvíkur – en allt það er þó háð mikilli óvissu. Ekki hefur verið rætt hvort höfuðborgin þoli meiri brennisteinsmengun, hvort eigi að gjörnýta svo mörg mikilvæg útivistarsvæði fyrir Norðurál, auk þess sem að fáir vita að í Þjórsá lifir 6% af villtum laxastofni Íslands – búsvæði hans myndu eyðileggjast. Orkuþörfin er gríðarmikil og kallar á brjálaða skuldsetningu af hálfu orkufyrirtækja Íslendinga sem nú þegar eru að sligast og ekkert eigið fé til að leggja í nýjar framkvæmdir.

Þá er búin til leikflétta sem má kenna við sjúkdómsvæðingu einkavæðingarsinna: Það er ekki talið forsvaranlegt fyrir opinbera aðila að svala orkuþörf Norðuráls og því þarf aðilii eins og Magma Energy að koma til bjargar og einkavæða þessar orkulindir. Því miður hafa stjórnvöld, orkuyfirvöld, iðnaðarráðuneyti og fleiri brugðist í þessu máli. Menn leyna upplýsingum fyrir almenningi, gera samning um 360.000 tonna verksmiðju sem þeir ætla annaðhvort ekki að uppfylla, eða nota gömlu góðu aðferðina við að sjóða frosk, hækka hitann hægt og rólega. Í tilfelli Alcoa á Húsavík var laumað inn litlu álveri – sem síðan var stækkað um 50% án þess að hafa nokkur áhrif á umfjöllun um verkefnið eða teljast forsendubreyting. Núna þegar Alcoa hefur hafið framleiðslu á Reyðarfirði hefur fyrirtækið greinilega ákveðið að nota lélegri rafskaut og losa því 50% meira af SO2 en í fyrstu var tilkynnt. Lítið álver var alltaf fyrirhugað í Helguvík, tilkynning um 50% stækkun kom fyrir ári síðan, þann 9. október, þremur dögum eftir hrun. Það kom mér ekki á óvart vegna þess að starfsmenn Norðuráls höfðu sagt mér þetta fyrir löngu – að litla tillagan væri blekking – og þeir voru ekki sáttir við að taka þátt í slíkum leik.

Nýja tillagan um stækkun Straumsvíkur, sem snýst um að lagfæra gömlu verksmiðjuna og stækka um 40.000 tonn með 75MW orkuþörf hefði alveg örugglega fengið 90% fylgi í kosningum – ef hún hefði verið í boði enda má segja að hún teljist eðlilegt viðhald og er eflaust fjárfesting sem er hlutfallslega mannafls og hönnunarfrek. Hún felur ekki í sér 8 nýjar virkjanir og rask á óspilltu landi. Orkuverðið þyrfti þá að vera uppi á borðinu og mannréttindamál móðurfélagsins sömuleiðis.

Það er alveg sorglegt að sjá menn vaða uppi eins og Norðurál gerir í Helguvík, þeir byrja að byggja án þess að hafa fengið tilskilin leyfi og knýja á um samning sem er hreint og beint dónalegur, fara fram eins og einhverjir Sturlungar. Samningurinn felur ekki aðeins í sér skattfríðindi, mengunarréttindi og ríkisstyrki heldur telja menn sig geta sópað til sín allri orkunni á suðvesturhorninu eins og ofangreindar fréttir sýna. Norðurál er þannig hernaðarlegt í útþenslu sinni og þrýstingi sem verkalýðsfélög taka undir af fullum þunga. Þetta er ekki spurning um að vera með eða á móti áli – þetta er spurning um að standa í lappirnar þegar alger geðveiki ríður yfir. Auðlindir eru vandmeðfarnar, þær geta skilað tapi, þær geta orðið þjóðum bölvun, jafnvel þótt þær skili miklum gróða. Menn eiga að anda rólega – og ekki selja Magma skúffufyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja, við höfum ekki efni á að halda uppi frekum körlum á einkaþotum. Það tímabil er búið.

2 thoughts on “Af óseðjandi orkuþörf í Helguvík

  1. Þetta er óhugnarlegt þaran í Helguvík og suðurnesjamenn eru svo bognir að enginn þorir að segja neitt enda skipta mótmæli endu máli því meirihlutinn og jákórinn hans veður bara.

    Glöggt dæmi um þetta og áhugavert svar Árna Sigfússonar og Böðvars Jónssonar má sjá á bls. 2 í 36 tölublaði Víkurfrétta þar sem þeir svara bréfi iðnaðarráðherra og segja athugasemdir hennar vegna sölunnar á HS Orku vera „flokkspólitíska árás“!

Lokað er á athugasemdir.