Draumur Dr. Helga Pjeturs frá 1907

Hér er draumur sem Dr. Helgi Pjeturs skráði hjá sér árið 1907. Ég las hann fyrst 2006 og þótti hann athyglisverður en það má segja að fyrst árið 2009 sé hann þrunginn merkingu. Hann fer hér á eftir: 

,,Mig dreymdi í haust mjög einkennilegan draum. En á þessari miklu afturhvarfsöld, þegar ýmislegt það, sem menn höfðu ættlað sokkið svo djúpt í haf fortíðarinnar, að það kæmi ekki upp aftur að eilífu, skolast nú aftur í straumi tímans, þá þarf auðvitað naumast að taka það fram, að allir draumar eru nokkurs konar vitranir og þýða eitthvað. Ætla ég því, að dæmi fyrri manna, að segja draum minn, ef verða mætti, að einhver kynni að ráða.

Ég þóttist sjá um lönd öll og þótti mér ekki annað undarlegra bera fyrir augu en gullhrúgur margar og misstórar, og lá skrímsli á hverri. Mannsmynd þótti mér vera á minnstu skrímslunum, en engin á hinum stærri. Voru þau næsta ferleg ásýndum og eigi óáþekk jötunvöxnum smokkfiskum, með stór og starandi fiskaugu og langa griparma búna krókum og sogbollum; seildust armarnir ótrúlega langt og víða, og drógu að hrúgu sinni gull, hvar sem festi. Þó þótti mér nærri því enn furðulegra en þetta, að sjá hvernig gullið dróst að skrímslunum án þess að hægt væri að sjá, að þau legðu sig í framkróka til að afla þess, og var því líkast að segulafl nokkurs konar byggi í gullhrúgunum. Hrúgurnar fóru sýnu vaxandi, einkum þær sem stærstar voru, og náðu skrímslin hvergi að hylja þær. Ég hugði nú betur að og sá þá, hvernig jafnvel eirmolar, sem fátæklingar höfðu í höndunum og ætluðu að kaupa sér brauð fyrir – úr sviknu mjöli –drógst að haugum skrímslanna og urðu að gulli. Eigi ósjaldan bar það við, að stærri skrímslin spúðu eitri á hin smærri svo ákaft, að þau hrökkluðust af gullhaugum sínum, en þeir söfnuðust jafnharðan undir stærri skrímslin.

Svo var að sjá, sem flest vildi mannfólkið allt gjöra til að þóknast skrímslunum og dansaði kringum gullhrúgurnar með ýmsum kynlegum látum til heiðurs við skrímslin. Þó voru ýmsir, sem tóku sig útúr, krepptu hnefana og hrópuðu að betur mætti vegna á jörðunni, ef ekki snerist allt að því að efla skrímslin, og auka gullhrúgur þeirra. Virtust menn þessir taka saman ráð sín.

Ég þóttist nú líta yfir Ísland, þar sem það lá í útsænum, brimkögrað og fossum stafað. Ég þóttist sjá þar allmörg skímslin, en  engin voru þau afarstór, er ból sín höfðu á landinu sjálfu, og mannsmynd á þeim flestum. Ýms auð bæli sá ég, og þóttist ég vita, að úr þeim hefðu skrímslin flutt sig í önnur lönd, og gull sitt og lægi þar á því. Gullagnirnar, sem urðu af striti landslýðsins, drógust allflestar að hrúgum skrímslanna; lágu ýmsir gullagnastraumar út af landinu svipaðir til að sjá eins og ar í sólargeisla. Ég renndi augunum eftir digrasta geislastafnum og sá að þar veitti gullögnum í hrúgu eina allstóra, skammt frá kastalaborg eigi fornlegri, fyrir austan hafið. Skrímslið, sem á henni lá var þrútið og illilegt og blés eitri stundum, svo að loft blandaðist mjög.

Í þessari svipan sá ég skrímslisarm einn festa sig á landið eigi langt frá Reykjavík; var hann grimmilega útbúinn að krókum og sogfærum og svo langur, að ég þóttist þar engan enda mega á sjá,  og kom mér til hugar kötturinn, sem Þórr lyfti forðum, og svo var langur, að þó að Þórr seildist svo hátt upp, að skammt var eftir til himins, þá losnaði köttur eigi að heldur; var það raunar Miðgarðsormur. Sem liggur um lönd öll, en enginn köttur, sem Þórr reyndi sig við. Sjálfur Miðgarðsormur kom mér í hug, er ég sá skrímslið, er arminn átti, sem var að sjúga sig fastan á landið. Ekkert skrímslið var jafn tröllslega á vöxt og ásýnd alla eins og þetta, og þegar það mjakaði sér eitthvað til á gullhrúgu sinni, sem fremur líktist fjalli en haugi, þá gengu rammgerðir klettar úr skorðum eða féllu jafnvel niður með dynkjum og dunum. Var mér svo felmt við alla þessa sjón, að ég bjóst til að flýja af þeim stað, er ég stóð á, en við það vaknaði ég; og lýkur þar draumnum.“