Eins og dávaldur hafi náð tökum á okkur

Viðtal í Morgunblaðinu. Laugardaginn 2. maí, 2009.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

Heimildarmyndin Draumalandið, í leikstjórn Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar, hefur vakið mikla athygli og hlotið afar góða dóma. Myndin fjallar meðal annars um stóriðjustefnu stjórnvalda og tekur harða afstöðu gegn henni.

Gagnrýni flokkuð sem áróður

Má ekki segja að þessi mynd sé að ákveðnu leyti áróðursmynd? 

„Áróður og ekki áróður. Það sem er að gerast á Íslandi í stóriðjuframkvæmdum er bylting, við bara skiljum það ekki af því að það er búið að normalisera byltinguna. Það var búið að byggja upp raforkukerfi á Íslandi sem var tvöfalt stærra en það sem öll þjóðin þurfti. Síðan var ákveðið að tvöfalda orkuframleiðslu á Íslandi í einni framkvæmd. Á allra þjóða mælikvarða er það bylting, hvaða iðnríki í heiminum tvöfaldar orkuframleiðslu sína í einum rykk? Eftir þessa byltingu, þegar orkukerfið hafði verið tvöfaldað og allt efnahagslífið keyrt í botn fyrir eina framkvæmd, fannst mönnum eins og ekki væri nóg að gert og vildu tvöfalda aftur það sem hafði verið tvöfaldað með áframhaldi á Bakka og í Helguvík. Þetta segja menn hiklaust þrátt fyrir að orkufyrirtækin séu í standandi vandræðum. Á Íslandi heitir þetta ekki áhætta – heldur skynsamleg þróun. Þegar þessi öfgafulla stefna mætir síðan landslagi sem er eitt hið dramatískasta sem fólk hefur séð á hvíta tjaldinu þá verða til kröftugar andstæður og auðvitað frábært efni í bíómynd sem við Þorfinnur nýttum okkur til hins ýtrasta.

Gagnrýni var flokkuð sem áróður á Íslandi. Það var jafnvel talið bera vott um óheilindi og illsku að vera gagnrýninn. Vísindamenn sem stóðu í vegi fyrir stórum ákvörðunum fengu á baukinn, misstu lífsafkomuna og starfsframann eða voru lækkaðir í tign. Á hinn bóginn gerðust stjórnvöld nánast upplýsingafulltrúar stórfyrirtækja. Það má líkja þessu við ríki sem stunda mikla tóbaksframleiðslu. Þar fer jafnvel heilbrigðisráðherrann með rulluna um dásemdir light-sígarettna sem heilbrigt og siðferðilegt mótvægi við kínverskar tjörusígarettur og leyfir sér að efast um skaðsemi tóbaks. Það er nákvæmlega það sama sem hefur gerst hér í umhverfismálum. Umhverfisráðherrann talaði um grænan málm og virtist tilbúinn að færa stórfyrirtækjum ósnortin svæði á silfurfati, staði sem ættu að vera á minjaskrá UNESCO. Miðað við eðlilega þróun hér á landi þá hefðum við ekki farið að tala um Þjórsárver fyrr en árið 2215. En vegna þess að álver notar raforku eins og milljón manns kemur upp sú staða að ein kynslóð telur sig þurfa að ákveða í einni svipan hvaða leifar skuli skilja eftir fyrir næstu kynslóðir.“

Óskiljanleg aðstaða

En nú er kallað á stórframkvæmdir, til dæmis úti á landi til að fjölga störfum og stuðla að uppbyggingu.

„Fyrir norðan er samkvæmt fjölmiðlum mikil örvænting vegna þess að fólk veit ekki hvort Alcoa vill koma þar að málum eða ekki. Ég las leiðara í DV þar sem leiðarahöfundur var ekki sáttur við Draumalandið og sagði að ég væri eins og Marie Antoinette, vildi bjóða fólkinu úti á landi kökur. En hvaða fólk erum við að tala um? Fólk sem býr í gjöfulu landi, við gott mennta- og heilbrigðiskerfi, langlífi, orku og gnægð matar. Eigum við að bera það saman við tötralýð í frönsku byltingunni sem er að deyja úr hungri? Fyrir norðan gætu menn, í sátt við alla, aflað sér orku sem er meiri en höfuðborgarsvæðið notar á jólunum. Tíu sinnum meira en íbúafjöldinn. Ég held að allir bæir í heiminum sem sæju fram á slíka möguleika væru sáttir og teldu sig hafa öll tromp á hendi. Og ef við leggjum allt á borðið. Gjöful fiskimið, blómlegan landbúnað, hvalaskoðun og jarðvarma, Mývatn, Ásbyrgi, Laxá, menntun, lífsgæði, vatn og orku sem gæti knúið höfuðborgarsvæðið. Ættu menn að vera svartsýnir með allt þetta? Hvað hefur þá brugðist ef fólk örvæntir? Nú er neyðin slík að menn virðast til í að skrapa saman allri orku sem er tiltæk norðanlands til að troða upp einu Alcoa-álveri í viðbót. Þá dugar ekki minna en orka fyrir milljón manna samfélag. Þá er Alcoa búið að ná sér í alla orku Austurlands, alla orku Norðurlands fyrir utan Jökulsá á Fjöllum, hún er hluti af þjóðgarði sem er styrktur af Alcoa.

Ef þetta væri borðspil og ég væri Alcoa myndi ég telja mig hafa unnið leikinn. Búið að ná sér í alla helstu fossa Austurlands og Aldeyjarfoss fyrir norðan og spara sér þá samtals 30-50 milljarða árlega í orkuverði miðað við orkuverð í Evrópu og Ameríku. Síðan á að afhenda Norðuráli nánast alla orku sem er tiltæk sunnanlands. Þessi fyrirtæki gætu síðan auðveldlega runnið saman í eitt. Mér þykir menn ansi brattir að leggja svo mikið vald í hendur eins fyrirtækis. Mér finnst óskiljanlegt hvernig við Íslendingar getum verið lent í þessari aðstöðu. Það er sammerkt með öllum nýlendum að þær þakka herranum fyrir líf sitt en ekki öfugt. Við erum búin að plata okkur með orðagjálfri um að verið sé að skapa störf. Eins og störf verði ekki til nema með brjálæðislegum lánum, fórnum og sársauka en ekki með samskiptum og gagnvirkni fólks. Jú, við notum auðlindir og hráefni til að skapa störf en ekki bara það. Alls ekki bara það.“

Óttavætt frelsi

En hvað er eiginlega athugavert við álframleiðslu, er hún ekki bara gagnleg?

„Við Íslendingar erum nú þegar einn stærsti álframleiðandi í heimi. Það má eflaust búa til eitthvað gagnlegt úr því sem er brætt og væri ágætt að sjá það gerast. Alls staðar í þessum iðnaði er gott fólk sem tekur eðlilega þessa umræðu persónulega. Byltingin er vandamálið og eyðileggingin sem hraðinn veldur. Það er mjög sérstakt að horfa upp á þann hugsunarhátt að það sem er orðið stórt verði að tvöfalda og síðan verði að tvöfalda það aftur. Stundum er eins og dávaldur hafi náð tökum á okkur. Vegna þess að þó að ,,allt hitt“ sé 99 prósent af hagkerfinu þá sjáum við það ekki. Álframleiðsla er 3 prósent af málmframleiðslu heimsins sem er síðan 1 prósent af heimsframleiðslunni. Svo horfa menn á þessi 99 prósent sem heimurinn hefur upp á að bjóða eins og það sé auðn þar sem ekkert standi til boða. Það má benda á að heilbrigðiskerfi Vesturlanda slaga upp í 10 prósent af heimsframleiðslunni. Fólk hefur aðgang að öllum upplýsingum heimsins, getur haft samskipti við allan heiminn en horfir í tómið og spyr: Hvað á að gera í staðinn? Stundum er eins og okkar ágætu miðaldra karlmenn hafi gefist upp og hafi enga framtíðarsýn. Þeir eiga ekki leiðtoga sem hefur opnað fyrir þeim heiminn. Það er búið að njörva hugsunina í einhverskonar kúgunarástand. Þeir skrifa um nauðsyn stórframkvæmda og segja að þær séu forsenda byggðar, atvinnulífs og hagvaxtar. Svo spyrja þeir: Hvað annað á að gera? Menn líta svo á svarið „eitthvað annað“ sem níðyrði. Það er búið að óttavæða frelsið. Frelsið gengur út á að það sé ekki hægt að reikna út eitt stórt svar fyrir atvinnulífið, að hver einstaklingur sé sérfróður um eigin hæfileika og þannig farnist samfélaginu best. En núna snúa menn frelsinu við og spyrja: Ef þú hefur ekki svar er ekkert að marka þig. Miðað við þessa hugsun, þá ætti að vera hægt að reikna út nákvæmlega hvað Ísland ber margar manneskjur. Verksmiðja hér og 1000 störf. Verksmiðja þar og 1000 störf. Kannski væri hægt að reikna þannig út að landið geti borið 200.000 manns og þá verði hinir að fara. Gott og vel, þá skal ég fara úr landi og rýma til. En yrðu fleiri störf á Íslandi eftir fyrir hina – ef 100.000 manns færu frá Íslandi? Nei, það væri það ekki.Þetta er einskonar hugsanavilla um það hvernig atvinnulíf og störf verða til. Við eigum ekki að líta á möguleika mannsins til að fá starf sem undantekningu frekar en reglu. Það er heldur ekki hægt að telja atvinnulausa og búa til plan út frá því – eins og landið sé kjúklingabú sem megi redda með einni heildarlausn. Oft er lækningin verri en sjúkdómurinn. Stórframkvæmdir árið 2002 styrktu krónuna um 10-20 prósent og eyðilögðu fleiri langtímastörf í útflutningsgreinum en framkvæmdin skapaði. Síðan komu bankarnir og helltu olíu á eldinn en hið sama gildir um þá – þeir drógu að sér og yfirborguðu hæfileika sem hefðu leitað annað.“

Búum við stríðsástand

Hvernig á þjóðin að komast út úr kreppunni?

„Ef einhver segist vera með auðvelda og skiljanlega lausn er hann annaðhvort ofurmenni eða blekkingameistari. Það er engin ein lausn úr kreppunni að mínu viti. En ef við horfum á hvað var á Íslandi fyrir 80 árum og hvað sú kynslóð byggði frá grunni – nánast allt sem við sjáum í kringum okkur, þá er fáránlegt ef við getum ekki einu sinni haldið í horfinu. Við búum við eins konar stríðsástand. Á slíkum tímum er fólk kallað í herinn. Ríkisstjórnin fer ekki sjálf út á vígvöllinn heldur eru þúsundir manna sendar af stað. Í hruninu var stór hópur fólks tilbúinn til að láta kalla sig í herinn en það var enginn farvegur. Ég veit að allir PR-menn landsins voru í öngum sínum og reyttu hár sitt yfir klúðrinu gagnvart almenningsáliti heimsins – en við höfðum engar varnir – ég veit að margir vildu mynda neyðarteymi og vinna jafnvel frítt strax á fyrstu dögum hrunsins – sinna smá herskyldu.Við höfum heldur ekki séð félag fótgönguliða í útrásinni stíga fram og segja okkur hvaða reglum þurfi að breyta svo bankahrunið endurtaki sig ekki. Margir þeirra sem unnu innan kerfisins og vita hvað fór úrskeiðis eru enn að verja gamla kerfið. Ef þeir sem komu nálægt útrásinni vilja standa í lappirnar og lifa með reisn í framtíðinni þá hafa þeir tækifæri til þess með því að gera heiðarlega upp við fortíðina. Heimspressan hefur áhuga á Íslandi og nóbelsverðlaunahafar blogga um okkur. Við ættum alveg að geta haft áhrif á hvernig alþjóðlega regluverkið verður lagað og þá kemur kannski traustið og virðingin aftur. Það er brýnasta efnið vegna þess að útrásin skilur eftir sig, þrátt fyrir allt, margt hæfileikafólk með mikla menntun, sambönd – og mistök sem það hefur lært af. Þetta fólk þarf fyrst og fremst traust til að geta hafið störf á ný. Mér finnst erfiðast að vita ekkert. Þetta er eins og skoða hús – jú, mér líst vel á það – ekki flókið að búa í því og alveg hægt að lappa upp á það – en ég veit ekki hvort ég hef efni á afborgunum. Eru það 100.000 á mánuði? 200.000? Gæti staðan orðið þannig að það yrði tæknilega ómögulegt að búa á Íslandi?“

Völundarhús borgarinnar

Hvaða hugmyndir hefur þú um endurreisn atvinnulífsins?
„Fljótlega eftir hrunið tengdist ég hópi sem vill setja upp verkstæði þar sem vélum yrði safnað saman, iðnaðarmönnum og hönnuðum til að búa til prótótýpur og leggja hugsanlega grunn að framleiðslu á hlutum eða nýjum hugmyndum. Við fórum að leita að húsnæði fyrir starfsemina en nú hefur hálft ár farið í flakk um völundarhús borgarkerfisins. Það vantar aðeins meiri hraða – menn verða að grípa fólk sem er tilbúið að leggja fram krafta. Tíminn skiptir máli vegna þess að iðnaðarmenn og arkitektar hafa rúman tíma um þessar mundir. Þarna væri vettvangur til að fá hugmyndir og búa síðan til raunverulega hluti. Smiðirnir hefðu þarna sömuleiðis aðstöðu á stað þar sem búið væri að safna saman alls kyns vélum og gætu búið til lampa, borð og stóla og aðra nytjahluti. Gamlir menn sem eru að fara á eftirlaun gætu miðlað þekkingu til sér yngri manna. Arkitektarnir eru ekki að fara að byggja hús alveg strax en gætu beint sjónum að smærri lausnum, smærri hlutum, vöruhönnun og fleiru.Ég á von á því að hugmyndin verði að veruleika en fram að þessu hefur of mikill tími farið í kerfið. Ég held að það séu hundrað svona hugmyndir sem við þurfum að gera að veruleika. Það eru fjölmargir hugsjónahópar að vinna um allt land og víða má jafnvel finna hreina endurreisnarstemningu og magnaða hluti sem eru unnir í sjálfboðavinnu. Háskólarnir brugðust mjög skjótt við, Prisma – sem er endurreisnarsetur Bifrastar og Listaháskólans, Neistaverkefni Bjarkar og Hugmyndaráðuneytið eru dæmi um öflugt og merkilegt framtak, allkyns hópar og einstaklingar sem eru að gera mjög spennandi hluti sem verða vonandi eitthvað og það fær mann til að trúa því að þessi kreppa gæti jafnvel orðið til góðs. Við hefðum líklega ekki orðið sérlega heilbrigt samfélag ef við hefðum farið línulega í sömu átt og við stefndum.Að vissu leyti þarf fólk að leysa upp allar hugmyndir um tímakaup, laun og svo framvegis. Menn þurfa að vera tilbúnir að nýta húsnæði og tæki frekar en að bíða. Það þarf mikið hugsjónastarf við að koma þessu aftur í gang og stjórnvöld munu aldrei geta það ein og sér.“

Hugsar þú í pólitískum lausnum, til dæmis í sambandi við Evrópusambandið?

„Ég hitti mann um daginn sem sagði við mig þegar Evrópusambandið barst í tal: „Sérðu ekki hvað það er stórkostlegt að horfa inn í herbergi þar sem Frakki, Breti og Þjóðverji búa til skýrslur um agúrkur? Fyrir rúmum sextíu árum voru þeir að murka lífið hver úr öðrum. Finnst þér ekki eitthvað fallegt við að núna sameinist þeir í því að búa til skýrslur um agúrkur?“Ég vil að íslensk stjórnvöld fari í viðræður við Evrópusambandið og upplýsi þjóðina um það hvað sé í boði og þá hef ég rétt til að samþykkja eða hafna aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér leiðist hvernig umræðunni hefur verið haldið niðri.“

Hef alltaf svikið lesendur

Þú ert rithöfundur sem skrifaði skáldskap en hefur fært þig yfir í virka þjóðfélagsumræðu, ertu að gleyma skáldskapnum?

„Ég fór frá vísindaskáldskap, barnahugsjónabókmenntum og gríni yfir í að berjast við embættismannakerfi og risafyrirtæki. Mér fannst ég verða að gera það. Þegar ég skrifaði Draumalandið hvarflaði að mér að það væri ekki mitt hlutverk að skrifa um þjóðfélagsmál, ég ætti að vera skáld og skrifa skáldskap fyrir eilífðina. En svo fór ég að lesa þjóðfélagsgreinar Halldórs Laxness frá fjórða áratugnum og mér fannst það sem hann sagði þar vera rétt og viðeigandi. Ég las líka Adam Smith og Rousseau, menn sem mótuðu sinn heim og sín viðmið.Ég ákvað að gefa mér lausan tauminn, leyfa mér að fara á þessar slóðir án þess að finnast ég vera að svíkja skáldskapinn. Það er ágætt að vera ekki að troða þjóðfélagsskoðunum mínum inn í skáldverkin því það spillir oft slíkum verkum. Ég hef alltaf svikið lesendur mína ef svo má segja, frá ljóðum fór ég í smásögur, þaðan í barnabók, þaðan í vísindaskáldsögu fyrir fullorðna og þaðan í hugmyndabók um raunveruleikann og síðan í kvikmynd.Núna eru einhverjar fjórar bækur að brjótast um í mér og nokkrar komnar áleiðis, bæði skáldskapur og raunveruleiki. Ástandið núna á Íslandi er samt þannig að skáldskapurinn á mjög erfitt með að keppa við raunveruleikann, hann er svo miklu ótrúlegri.“