Ólafur H. Torfason, RÚV RÁS 2, SDÚ, 17. apríl 2009
DRAUMALANDIÐ * * * *
Ísland 2009. Ls: Þorfinnur Guðnason og Andri Snær
Magnason. Háskólabíó. 1:30 klst.
Draumalandið er að mörgu leyti heilsteyptasta og markvissasta heimildamyndin í okkar fábreyttu kvikmyndasögu. Bragðsterkt handritið byggist á samnefndri metsölubók Andra Snæs sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Þorfinnur leggur til merkilega og í raun óviðjafnanlega reynslu sína í heimildamyndagerð þar sem skáldlegt flug og tilbúningur svifta raunsæisverkefnum í viðbótarvíddir. Umfjöllun Draumalandsins felst að stærstum hluta í afhjúpandi gagnrýni á verkefni og aðferðir í virkjanamálum hérlendis, með skærustu kastljósi á Kárahnúkavirkjun og samskiptin við ál- og vopnaframleiðandann Alcoa. Sú varnarbarátta fyrir vistkerfunum sem þarna birtist spennir umfjöllunina um umhverfismál upp í finþátta tilfinningalegar kenndir. En það sem ræður úrslitum um ferskan og lífgandi ilm Draumalandsins er hvernig atburðir og þróun síðustu ára eru af listfengi og þrótti sett í víðara íslenskt og erlent samhengi, alveg frá síðari heimsstyrjöld og lýðveldisstofnun 1944. Verkið rímar og stuðlar af margvíslegri kímni – og á köflum hlakkandi kaldhæðni – persónum strítt af því þær sögðu það sem sögðu og gerðu það sem þær gerðu. Tónlistarhlið verksins er magnað stuðlaberg út af fyrir sig hjá Valgeir Sigurðssyni. Um áróðursþætti verksins sér náttúran sjálf.
ÓHT, Rúv Rás 2, Sdú, 17. apríl 2009.
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –
Olafur H. Torfason