MILLJARÐAR OG MÖRG ÞÚSUND STÖRF! AF ÆÐI OG BÓLUM OG FRÉTTUM SEM BLÁSA UPP BÓLURNAR

picture-18

Ég hef stundum velt fyrir mér hvers vegna æði ganga svona harkalega yfir Ísland, af hverju það er ekki til móteitur við æði, af hverju svona margir sýkjast, af hverju raunveruleikaskynið verður svona ruglað. Kannski er það veikleiki íslenska karlmannsins, þegar dugnaður hans og áræðni kemst í baneitrað samband við tækifæri í heiminum. Þrátt fyrir að vera orðin þróað ríki þá erum við veik fyrir byltingum. Að tvöfalda, að þrefalda, að tífalda eitthvað og verða stærst, ekki miðað við höfðatölu – heldur einfaldlega stærst. Ein ástæðan er kannski skortur á upplýsingum, kannski skortur á menntun eða menningu eða jafnvel röskun á skynjun okkar þannig að við skiljum engin stærðarhlutföll. Við erum smáþjóð og fyrirsagnir birtast í blöðum sem eru absúrd og fáránlegar en birtast manni eins og um skynsemi væri að ræða. Í Morgunblaðinu í mars árið 1987 er þessi fyrirsögn:

„Spá um þróun loðdýraræktar til 1996:
Framleiðsluverðmæti loðskinna gæti orðið 3 milljarðar miðað við sama vöxt greinarinnar og verið hefur.“

Á þessum tíma voru 30 minkabú á landinu. Spáin gerir ráð fyrir tuttuguföldum vexti. Þrír milljarðar var engin smá upphæð árið 1986. Fréttin vísar í skýrslu sem telur fjölskyldubú munu verða 600 árið 1996. Fyrirvarar einhverjir, helst þeir að framboð á fiskúrgangi verði ekki nóg. Mánuði síðar er bjartsýnisfrétt í fullu samræmi við þessa þróun: „Minkastofninn tvöfaldast á þessu ári.“ Aðeins þremur árum síðar í apríl árið 1990 er þessi dramatíska fyrirsögn:

„Lodýrarækt:
Þetta er komið á síðasta snúning.
Margir á barmi örvæntingar.“

Við þekkjum nærtækari dæmi, heldur dramatískari um spár um vöxt fjármálageirans. Alltaf sama sagan, hvergi að sjá móteitur, jarðtengingu eða efasemdir þegar atvinnugreinar tvöfaldast, þrefaldast, nífaldast, tólffaldast. Það má nefnilega bóka að þegar venjulegur maður getur reiknað út öruggan hagnað og tvöföldun á einhverju. Þá er komin bóla. En fréttir magna bólurnar. Methagnaður. Það er stigið á bensíngjöfina, byltingin er óhjákvæmileg. Að bylta ekki, er talið óraunsæi, jafnvel geðveiki.

Alcoa á Reyðarfirði notar þrisvar sinnum meiri raforku en allt höfuðborgarsvæðið á aðfangadag. Eins og 600.000 manna borg. Með Kárahnjúkavirkjun var ál og orkuframleiðsla á landinu tvöfölduð í einum rykk – stærð fjárfestingarinnar var á byltingarskala og hún var kveikjan að gullæði sem sem kallaði yfir þjóðina bjartsýni og skuldsetningar, ofurgengi og ósjálfbæra tilfærslu á störfum úr útflutningsgreinum í innflutningsgreinar. Framkvæmdin var á byltingarskala en flestir skynjuðu hana sem óhjákvæmilega, brýna nauðsyn, eina valkostinn. Eftir að orkuframleiðsla hafði verið tvöfölduð, með tilheyrandi skuldsetningu þá er markið sett enn hærra:

Álið skilar meiru en fiskurinn
Ef áætlanir ganga eftir er reiknað með að álframleiðslan tvöfaldist og flutt verði út um 770 þúsund tonn á þessu ári
að verðmæti um 160 milljarðar.

Eftir þessa tvöföldun er sett markmið um tvær sambærilegar verksmiðjur til viðbótar. Tvöföldun, síðan aftur tvöfölduð tvöföldunin. Samtals eiga opinber orkufyrirtæki að skuldsetja þjóðina sem nemur hálfri þjóðarframleiðslu og veðja henni á einn málm sem við vonum að haldi sér næstu 40 ár. Samtals að framleiða orku fyrir tvö fyrirtæki sem myndi duga tveggja milljón manna borg – á jólunum. Og það eru engir varnaglar í fréttunum. Það er bara stigið á bensíngjöfina:

„Umhverfisráðherra:
Styður ekki stjórnarfrumvarp um álver í Helguvík.
Talið skapa 3000 störf.“

Fyrirsögnin hefði getað verið svona: Ráðherra styður ekki 3000 störf. Allt annað en byltingin er absúrd. Fáránlegt, óraunhæft. Sé einhver í vafa um hvernig bólur verða til og smitast þá er það einhvernveginn svona: Allt annað en bólan er fáránlegt. Sá sem stendur í vegi fyrir æðinu er klikkaður. Séu komment skoðuð má sjá reiðina ólga og karlmennskuna: MÖRG ÞÚSUND STÖRF en ein kona á móti. Fréttin fjallar ekkert um varúðarmerkin sem hlaðast upp sem ættu að duga sem móteitur á dópið og dáleiðsluna sem er falið í orðinu 3000 STÖRF. Ekkert um skuldir orkufyrirtækjanna, lækkandi álverð sem er komið undir þau mörk sem menn reiknuðu með þegar metið var hvort Kárahnjúkar gætu borgað sig. Ekkert um hvaðan á að skrapa saman samtals heilli Kárahnjúkavirkjun upp úr háhitasvæðum á Reykjanesi. Ekkert um að nú þegar fer loftmengun yfir hættumörk vegna Hellisheiðarvirkjunar og hvernig heiðin sjálf er að verða óhæf til útivistar í kyrru veðri. Gróður er þegar farinn að drepast en samt á að þrefalda orkuframleiðslu á heiðinni og áfram út á Reykjanestá og skuldir fyrirtækisins sömuleiðis.
Framkvæmdin er óhjákvæmileg. Nú er tíminn til að tvöfalda – að leggja allt undir. 700.000 tonn eru ekki nóg. Það þarf að tvöfalda. Kannski er það aflahugsunin. Meira er betra. En áhættan er meiri en störfin. 500 milljarða skuldir orkufyrirtækja geta auðveldlega yfirskyggt arð af öllum störfum og rúmlega það. Þrátt fyrir að vera orðin ein stærsta bræðsluþjóðin í heimi – ekki miðað við höfðatölu – heldur samtals – þá skrifa menn hástöfum á netinu: HVAÐ Á AÐ GERA Í STAÐINN? Það er uppgjöf í tóninum. Eftir því sem maður gerir meira af einhverju einu, því minna dettur manni í hug af einhverju öðru. Fulla ferð áfram – byltingin er óhjákvæmileg. Tvöföldum. Þreföldum. Byltum. Verðum stærst í heimi – og þá loksins munum við hafa útrýmt ójafnvægi og atvinnuleysi að eilífu. Við verðum örugg. Sagan kennir okkur það. Eða þannig.

picture-19

Þessi mynd sýnir hvað margir telja að sé skynsamlegur og óhjákvæmilegur vöxtur ál og orkuiðnaðar á Íslandi. Stækkun í Sraumsvík var reyndar felld en samsvarandi orku hefur verið bætt við áætlanir á Húsavík og Helguvík. Virkjunarhraðinn er gríðarlegur og engar líkur til þess að við sjálf myndum ákveða að nema staðar þegar 2015 markmiðinu er náð.