Loftkastali Landsbankans, sædýrasafn eða Alþjóðadómstóll Evu Joly (og mitt framlag til bólunnar)

picture-22

Í hugmyndasamkeppni Landsbankans árið 2004 lagði ég fram fjórar mögulegar hugmyndir um hvernig mætti byggja upp einskismannslandið milli miðborgarinnar og hafnarsvæðisins. Ein hugmynd var rómantíska afturhvarfsleiðin, en ég hef persónulega alltaf verið hrifinn af henni, vegna þess að útópíur má stunda hvar sem er – en sagan á sér alltaf bara einn stað. Lóðin er á landfyllingu og líklega nákvæmlega sá staður þar sem súlur Ingólfs skolaði á land samkvæmt fornum sögum. Hvort lóðin markar þannig upphaf og endi byggðar á landinu er önnur saga. Síðasta hugmyndin var ,,Alþjóðlega rándýra ævintýraleiðin“. Hún var svona:

,,Menn fá stóran alþjóðlegan brjálæðing til að teikna eitthvað alveg rosalegt í staðinn fyrir EKKERT. Eitthvað geðbilað og sjokkerandi. Einhvern Liebeskind, einhvern Alvar Aalto okkar tíma. Hús sem þrífellir borgarstjórnarmeirihlutann, stofnar félag með sér og gegn sér og gerir alla vitlausa. Eitthvað sem tekur menn 50 ár að læra að meta.”

Þessi leið varð ofaná – Bjarke Ingels ásamt BIG group í Danmörku, Einrúm í Glaðheimum, Arkíteó og ég sjálfur lögðum hausinn í bleyti til að búa til nákvæmlega þetta og unnum keppnina. Ef einhverjum finnst tillagan útópísk ætti hann að líta á heimasíðu BIG og sjá að þessi tillaga er ákaflega hófsöm og heimilisleg miðað við margt sem BIG hefur hannað og byggt. Deiliskipulagið gerði ráð fyrir gríðarlegu og í rauninni óhóflegu byggingarmagni, heilum 20.000 fermetrum og þá var úr vöndu að ráða. Kubburinn sem myndaði form deiliskipulagsins var því tekinn og undinn og snúinn og þannig reynt að laga hann sem best að miðbænum, að mynda svið á móti Arnarhóli, skúta fyrir Lækjartorg og tengja  við svæðið sem snýr að tónlistarhúsinu. Af þessum snúningum myndast form hússins. Tillögurnar eru til sýnis á Háskólatorgi en margar bestu stofur heims tóku þátt í þessari keppni. Ef myndin er skoðuð vel má sjá að húsið snertir ekki jörðina, enda var þetta allt draumur, sjónhverfing – ský. Í Frakklandi voru teikningarnar síðan unnar upp í þrívíddarmyndir – eins og sviðsmynd úr Blade Runner.

Það er full ástæða til að skoða tillögurnar og ræða af alvöru hvað á að gera við þetta mikilvæga svæði. Það er auðvitað ennþá hægt að reisa þetta hús – Íslendingar voru bestir í bólunni og ættu að verða bestir í hruninu – vantar ekki Alþjóðadómstól Evu Joly? Svo vantar auðvitað sædýrasafn eða alþjóðlegan áhættufælinn kvennabanka. En kjarni málsins er sá – að tillögurnar geta orðið grunnur að umræðu um hvað skuli gera þarna – vegna þess að alltaf þegar ný bóla fer af stað – eru yfirvöld og almenningur alltaf jafn óviðbúin – og heimila jafnvel eitthvað eins og 20.000 fermetra hús þar sem súlur Ingólfs flutu að landi…