Platína Hafmeyja

Þá er hún orðin eins árs – stelpan sem hét fyrstu dagana Platína Hafmeyja Andradóttir og fæddist þann 31. janúar 2008. Dagurinn var rólegur, Magga komin fjóra daga fram yfir og ekkert að gerast, gangsetning áætluð föstudagsmorgunninn.  Þannig að hún sagði við Andra: Farðu bara á Bessastaði á afhendingu bókmenntaverðlaunanna. Þetta gerist ekki í dag.

Andri fer á Bessastaði í sínum smóking, er síðastur í salinn ásamt Björgólfi Guðmunds og klukkan 16:10 lítur Andri á símann og ekkert að gerast. Klukkan 16:37 lítur Andri á símann og þá blikkar hann: „Heima hringir“. Andri svitnar, Ólafur er í miðri ræðu og afhendingin að fara af stað og Andri hugsar: Magga er ekki að hringja í mig til að segja mér að kaupa mjólk á leiðinni heim og Hlynur er á æfingu og Kristín Lovísa fimm ára kann ekki að hringja. Síminn blikkar og síminn hringir út. Hann hringir lengi lengi en það er dónalegt að svara á meðan forsetinn er í miðri ræðu og fullur salur af fólki og þá blasir við þegar hann þagnar: 7 MISSED CALLS. Öll frá HEIMA. Klukkan 16:27, 16:29, 16:31, 16:34…

Andri rýkur út í þann mund sem er tilkynnt að Sigurður Pálsson fái verðlaunin. Statement hugsar einhver. Andri hringir, á tali heima en hringir í tengdó. Magga missti vatnið heima segir hún (thank god for gsm og eins gott að Magga var ekki á Bessastöðum til þess eins að stela senunni). Andri skellir á og hleypur út í bíl. Magga er ein heima með tvö börn. Magga biður Kristínu Lovísu um að hjálpa sér en hún verður hrædd og lokar sig inni í herbergi. Elín Freyja hoppar í rúminu. Andri brunar frá Bessastöðum, yfir nokkur rauð ljós og hringir á meðan í Steffan nágranna sinn og biður hann um að hlaupa heim sem hann gerir. Andri bíður í símanum á meðan. Enginn svarar í fyrstu, síðan kemur Kristín Lovísa og opnar dyrnar. Andri stígur bensínið aðeins fastar en þá er tengdó komin heim og við drífum okkur uppeftir. Anna Eðvalds ljósmóðir tekur við okkur. Hún tók líka á móti Kristínu Lovísu. Anna var búin að redda herbergi með heitum potti þannig að Magga fer í pottinn, samdrættir harðna en ekki eins mikill sársauki og áður út af vatninu og klukkan 19:07 syndir út þessi líka fína hafmeyja. Hún syndir í land og í fang móður sinnar með hjálp ljósmóður. Þetta var æðislegt sagði Magga, besta fæðingin til þessa og mikið var þetta falleg stúlka, 14.5 merkur, með svarta ló, helblá á litinn, bólótt í framan, krumpuð með rúsínuputta og hjólbeinótt – semsagt alveg dásamlega fullkomin. Við fórum heim um hádegið á föstudag og krakkarnir fengu að kynnast númer fjögur sem hét fyrst bara Platína Andradóttir en síðan var hún skírð Hulda Filippía – eftir ömmu sinni.