Ég hef stundum ekið með erlenda blaðamenn Sæbraut og Borgartúnið sem ég segi þeim að heiti Boulevard of Broken Dreams. Þarna er Höfði, þar féll kommúnisminn, þarna er Kaupþing í næsta húsi. Þar féll Kapítalisminn. Þarna gnæfir turninn tómi – hann hýsir sálir verðbréfamiðlara sem aldrei fæddust. Neðar eru höfuðstöðvar Glitnis – rústir reistar á rústum Sambandsins. Núna er Glitnir orðinn Íslandsbanki aftur. Ég tók þátt í samkeppni ásamt teymi arkítekta um endurbætur á höfuðstöðvum Íslandsbanka við Kirkjusand árið 2005, sem við reyndar unnum. Tillagan var ekki byggð – eða hefur enn ekki verið byggð vegna þess að Glitnir fékk stóru strætólóðina og fór í aðra keppni með býsna útópískri niðurstöðu.
Það verður eflaust rannsóknarefni sagnfræðinga að bera saman þessar tillögur, 2005 annarsvegar og hin frá árinu 2007.
Þegar við skoðuðum sögu hússins sáum við að undir ljótu klæðningunni frá tímum Sambandsins lá býsna fallega teiknað hús í fúnkísstíl, frystihús Júpíter og Mars sem Pétur Ófeigsson lét byggja – og var þá eitt stærsta frystihús á landinu. Tillaga okkar gekk út á að endurheimta útlit gamla hússins, gömlu gluggana og gamla verksmiðjuútlitið – og byggja síðan við það nýja viðbyggingu. Við snerum aðalinnganginum við og létum gras liggja upp að húsinu Sæbrautarmegin með bílastæðum undir og við teiknuðum göngubrú til að íbúar í Laugardal kæmust út á Laugarnesið. Bankinn ætti að tengja sig sögu okkar sem fiskveiðiþjóðar. Á lóðinni var gamalt saltfiskflökunarhús frá þeim tímum þegar Kirkjusandur var hvítur af saltfiski – það átti að verða kaffi eða veitingahús. Við ættum að leyfa okkar að vinna með söguna frekar en að forðast hana – í fiskinum voru alþjóðleg umsvif löngu áður en hugtakið útrás varð til. Fiskflökunarkonurnar stóðu við borð í sömu röðum og skrifborð verðbréfamiðlara síðar. Í báðum tilfellum var góðæri, uppgrip, stemmning og slor. Það er reyndar búið að rífa saltfisk–flökunarhúsið. Ég veit ekki af hverju, það var ekki fyrir neinum og núna stendur ekkert eftir.
Ekki má gleyma LHÍ sem fékk rústir Slátufélagsins fyrir sína starfsemi. Nú er nóg af tómu húsnæði um allan bæ fyrir list og menningu. Merkilegt hvað það er samt alltaf afgangsstærð?