Hvalir

Ég hitti blaðakonu frá Times skömmu eftir hrun í fyrra. Við hittumst á Sægreifanum og ég plataði hana til að fá sér hrefnuspjót. Hún hafði verið að skemmta sér kvöldið áður og varð föl í framan og skrapp á klósettið – hrefnan kannski ekki það besta sem menn fá við þynnku. Greinin var samt á jákvæðum nótum þótt hún hafi verið skrítin – Iceland is still a good place to party. Í október var nægt hvalkjöt fyrir þá sem vildu éta hvali en málefnið var ekki í umræðunni. Núna á að veiða hvali en ekki nógu marga til að hafa áhrif á fiskistofna. Markaðurinn er ekki nógu stór til að bæta efnahag þjóðarinnar og birgðir hafa hlaðist upp í Japan vegna ríkisstyrkra veiða þar í landi. Þeir hafa verið sakaðir um að mala það í hundafóður. Þetta er einhverra hluta vegna eitthvað sem höfðar til íslenskra karlmanna, hrunið er flókið og það er sælt að geta gripið í eitthvað sem maður skilur. Miðaldra menn fara í ræðustól á Alþingi og rökræða um hvali á meðan fólk er að missa hús og vinnu og landið æruna. Það er merkilegt að sjá hvernig stjórnmálamenn setja mál á dagskrá og hvernig venjulegt fólk fylgir eftir. Allt í einu tala menn og hugsa um eitthvað sem enginn var að tala eða hugsa fyrir nokkrum mánuðum. Allt í einu rífast menn og rökræða eins og þeir ættu lífið að leysa. Ég hef ekkert hugsað um lóur mjög lengi, ekki síðan í ágúst að minnsta kosti og ég hef ekki talað við vini mína um lóur og ég hef ekki rifist um lóur. En allar fermingarveislur færu á hvolf ef við leyfðum sjálfbærar veiðar á þeim. Ef allir Íslendingar þola umfjöllun um hvali í klukkustund þá hefur þjóðin eytt sem nemur 33 mannárum í þessa vitleysu eða rúmlega 100 starfsárum. Á 100 starfsárum væri hægt að gera margt gáfulegt og gagnlegt. Semja nýja stjórnarskrá, skrifa 40 skáldsögur, klára 10 doktorspróf. Stjórnmálamenn setja mál á dagskrá og við tölum og tölum og verðum heimskari með hverjum deginum. Í stað þess að hugsa um fluguhnýtingar, uppeldi, ítölsku endurreisnina, skammtafræði eða förum út og mokum langan skurð þá er lífi okkar sóað í bull og vitleysu.