Engar smá sögur

Engar smá sögur eru komnar út í nýrri útgáfu með formála höfundar:

Engar smá sögur í nýrri útgáfu.

Engar smá sögur:

Ég var 19 ára þegar ég samdi mínar fyrstu smásögur og smátt og smátt bættust fleiri við ásamt ljóðum og sú hugsun læddist að mér að kannski gæti ég orðið rithöfundur. Ég var á eðlisfræðibraut í Menntaskóla og fór þaðan beint í læknisfræði þar sem ég taldi ekki praktískt að ætla að lifa á skriftum. Það var almennt ekki talið gæfuspor fyrir ungan mann að leggja fyrir sig skáldskap þegar hann gæti bæði leyst jöfnur og lagt gangstéttarhellur. Ég sat því uppi á lesstofu í byggingu verkfræðideildar Háskóla Íslands og skrifaði sögu um Sjómann sem veiddi hafmeyju í stað þess að lesa fósturfræði og sagan um Lögmál árstíðanna var skrifuð fyrir vini mína sem voru að kikna undan námskeiði í raunfallagreiningu. Ég komst ekki í gegnum Numerus Clausus í læknisfræðinni og það hefur eflaust bjargað einhverjum mannslífum. Ég komst í lokaúrtak í inntökuprófi flugumferðarstjóra en féll þar á persónuleikaprófi. Eflaust björguðust þar enn fleiri mannslíf.

Fyrsta opinbera birtingin á sögu var í fjölrituðu dreifiriti verkfræðinema árið 1994 og síðan sendi ég söguna um Sjóarann og hafmeyjuna í smásagnasamkeppni hjá Ríkisútvarpinu. Sagan hlaut viðurkenningu og var flutt um sumarið í útvarpinu. Það var stór stund í lífi mínu þegar ég smalaði vinnufélögunum inn í bíl til að hlusta á söguna þegar hún var flutt strax á eftir morgunleikfiminni með Halldóru Björnsdóttur. Allir voru sofnaðir í bílnum áður en lestrinum lauk en síðar frétti ég af sjómanni vestur á fjörðum sem hafði hlustað á söguna og líkað vel. Það var mér mikil hvatning. Smásögurnar komu fyrst út árið 1996 og sama ár komu út Bónusljóð sem vöktu talsvert meiri athygli en smásögurnar og seldust mun betur. Það má segja að þetta haust hafi ég verið í eigin skugga, enda mun meiri vinna og metnaður í smásögunum. Kannski urðu orð Halldórs Guðmundssonar útgefanda míns að áhrínsorðum þegar hann færði mér fyrsta eintakið af smásagnasafni mínu: Big step for a man – small step for mankind.

Þegar hér var komið við sögu var ég 23 ára og skyndilega höfundur að þremur bókum. Ég taldi ekki fært að snúa aftur til daglegs lífs og árið 1996 var því síðasta sumarið sem ég notaði stimpilklukkuna hjá Rafmagnsveitunni. Ég var nokkuð heppinn vegna þess að á þessum tíma var efnahagslægð og engin augljós eftirspurn eftir vinnuafli mínu, ekki hjá auglýsingastofum og fáar freistingar í boði, verðbréfamiðlarar voru varla til, hvað þá tölvufræðingar og Íslenskuprófið frá HÍ er svo ágætt að því fylgja engin sérstök starfsréttindi og þar af leiðandi lá beinast við að halda áfram að skrifa.

Engar smá sögur eru einskonar hrærigrautur, það má merkja að sá sem skrifaði þær var ýmist að leggja á minnið munnlegar sannanir fyrir eðlisfræðipróf eða lesa Þjóðsögur Jóns Árnasonar og lesa ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Engar smá sögur eru ekki síst undir áhrifum frá sérkennilegum stuttmyndum, ljóðagerð og almennum súrrealisma, smásögum Calvino, Primo Levi, Kurt Vonnegut og Roald Dahl og verkum höfunda hér heima eins og Gyrði Elíasson og Þórarin Eldjárn.

Það er engin pólitík í þessum sögum, eða lítil sem engin þannig að þeir sem vilja lesa meira Draumaland fá hér ekkert við sitt hæfi. Sögurnar eru skrifaðar á því ágæta tímabili sem stundum hefur verið kennt við End of History, þegar járntjaldið var fallið, Ameríka var talin óumdeilanleg alheimslögga, Aladdín var fulltrúi Islams í Vesturheimi og það var engin eftirspurn eftir íslenskum orkulindum. Engar smá sögur hafa verið ófáanlegar um alllangt skeið. Þær henta vel fyrir þá sem vilja svæfa vinnufélaga sína eftir morgunleikfimi eða deyfa sársauka þeirra sem þurfa að lesa raunfallagreiningu þegar sólin skín. Ef hún er auk þess lesin af sjómanni vestur á fjörðum er tilgangnum með útgáfunni náð.

Á Skeiðarvogi Reykjavík – maí 2008
Andri Snær Magnason