Hugsjónin Ísland

Hugsjónin Ísland
– Ræða á útifundi –
Austurvöllur 15. nóvember 2008.
Andri Snær Magnason

Við erum víst gjaldþrota segja útlensku blöðin. Þau íslensku segja að þetta sé allt að sleppa fyrir horn. Við erum gjaldþrota og alþingi ráðþrota.

Hér var barist árið 1949. Fólkið bað um þjóðaratkvæði – menn voru nýbúnir að fá sjálfstæðið en lýðræðinu var strax stolið af þjóðinni. Menn vildu bara kjósa, það var kjarni umræðunnar. Strax voru komnir flokkar sem töldu sig vita betur en fólkið eða lýðurinn – þetta skelfilega forskeyti í orðinu lýðræði. Þá var barist en við hvern ættum við að berjast? Við sitjum öll í sömu súpunni – lögreglan líka, lögregla sem verður gjaldþrota missir starfið. Ekki trufla lögregluna, leyfið henni að hlusta og berið virðingu fyrir Alþingishúsinu, það er þjóðargersemi.

Við erum víst að læra einhverja lexíu – doktorsnám fyrir heila þjóð í að læra af mistökum sínum en kannski fyrst og fremst annarra. Ráðamenn okkar sváfu á vaktinni, þeir sváfu á vaktinni og voru með hugann við eftirlaun. Mér er í sjálfu sér sama um kjörin. Megi þeir fari á eftirlaun sem fyrst.

xxxxxxxxxx

Ég þekki rithöfund sem var í rusli um daginn. Hann var nýbúinn að gefa út bók, búinn að sitja sveittur yfir henni í þrjú ár og þegar hún loksins kom út fékk hún bæði smánarlega dóma og enga sölu. Hann var niðurlægður í Kastljósi, hann var rakkaður niður í Morgunblaðinu, hann fékk hauskúpu í Fréttablaðinu og slátrun útvarpinu.

Hann hringdi í vin sitt, trúnaðarvininn sem var einn af hans helstu yfirlesurum. Vinurinn fór undan í flæmingi þar til hann muldraði, ég var eiginlega sammála þessum dómum en ég vildi ekki særa þig.

Hann vildi ekki særa vin sinn – hann vildi frekar að hann sóaði þremur árum ævi sinnar í misheppnað verk til þess eins að verða niðurlægður fyrir alþjóð og nánast útskúfaður úr heimi bókmenntanna.

Núna skulum við spyrja:

Var hann góður vinur? Var hann sannur vinur vinar síns eða hefði góður óvinur jafnvel reynst honum betur?

xxxxxxxxxxx

Við sjáum núna að þeir sem gagnrýndu okkur voru ekki öfundsjúkir. Þeir voru vinir okkar. Sumir spyrja sig hvers vegna dýpt kreppunnar í dag sé í réttu hlutfalli við fjölda viðskipta og hagfræðinga á Íslandi. Í viðtali við forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sagði hann að Hagfræðin hafi ekki fallið – hins vegar hafi aðeins mátt heyra eina skoðun: Orðrétt stóð þetta í greininni.

,,Forstöðumaðurinn sagði að þeir fræðimenn, sem haldi öðru fram, séu oft úthrópaðir og litnir hornauga. […] Þá sagði hann fræðimenn stundum einnig hika við að koma fram í fjölmiðlum þar sem þeir gætu átt von á beinum eða óbeinum skömmum frá ráðamönnum.“

Þetta vakti litla athygli. Frá hvaða ráðamönnum? Hverjir boða frelsi, en eru í rauninni aðeins hlynntir frelsi til að hafa eina skoðun? Hvaða ráðamenn vildu ekki að gagnrýnir fræðimenn kæmu í fjölmiðla : vettvanginn þar sem við sækjum upplýsingar og byggjum okkar skoðanir?  Hvaða menn – hér á Íslandi – í svokölluðu lýðræðisríki stunda slík vinnubrögð? Málið var ekki meðhöndlað eins og ætti að höndla slík mál – eins og mismunun, kúgun – já eða rasisma.

Þetta stjórntæki hefur gegnsýrt kerfinu okkar. Blaðamenn þekkja þetta, vísindamenn þekkja það, hagfræðingar þekkja þetta. Þeir sem hafa fylgst með náttúruverndarumræðunni þekkja þetta mætavel. Of margir vísindamenn sem ég ræddi við gátu ekki talað sem frjálsir menn við þjóð sína af ótta við óræðar refsingar. Þeir áttu að tala máli stjórnvalda eða þaga ella. Stjórnmálamenn höfðu skilgreint framtíðina og allt sem ógnaði henni þurfti að kæfa í fæðingu. Alar meginstærðir voru leyndarmál. Náttúruvísindamenn voru undir hælnum á framkvæmdavaldinu. Stjórnmálamenn höfðu bein áhrif á niðurstöður fræðimanna. Héldu sumum í skefjum, héldu öðrum frá verkefnum og of hæfir menn fengu engan framgang í starfi.

Núna verða allir að stíga fram. Segja okkur hvaða ráðamenn taka illa gagnrýni og halda henni niðri og tryggja að þeir verði ekki endurkjörnir. Hverjir hafa þannig brenglað lýðræðið í þágu eigin hugmyndafræði eða hagsmuna og þannig – valdið alþjóðlegri niðurlægingu þjóðarinnar og gjaldþroti.

Hagfræðingar staðfesta núna að ekkert mátti segja upphátt. Það er kannski táknrænt að fjármálaráðherra okkar er sérfræðingur í að gelda og svæfa.

Lýðræðið

Valdamenn hræðast lýðræðið. Það er aldrei tímabært að kjósa. Það er aldrei tímabært að fela lýðnum vald. Þegar utanríkisráðherra reynir að verja ráðherra sína og talar um þá sem skylmingarþræla, gladíatora, þá erum við skríllinn í Colloseum sem heimtar blóð en ekki borgarar í lýðræðisríki vill réttlæti, ábyrgð og gegnsæi eftir skrílslæti og fjárhættuspil síðustu ára. Ráðamenn bjóða fólki sem er að missa húsin sín upp á brauð og leika. Ráðherra hlýtur þá að vera Neró nema hún sjái sig sem kristinn píslarvott.

Alþingi er  valdalaus afgreiðslustofnun. Málin kláruð í flokknum, unnin í ráðuneytinu, stimpluð í þinginu.

Það er aldrei tímabært að kjósa. Það er ekki tímabært í góðæri, það gæti glatast, það er ekki tímabært í kreppu, þá er of viðkvæmt ástand.

Lýðræðið er gríðarlegt afl. Lýðræði er ekki skríll. Samanlögð niðurstaða af hugsun tugþúsunda er besta leiðin sem fundin hefur verið upp. Ef leiðtogi er eins og reiknistokkur þá er lýðræðið eins og móðurtölva. Ameríka hugsaði og kom fram með Obana – hann var óþekktur þar til í vor. Það var ekki sársaukalaust þeir tóku doktorspróf í Bush og lærðu upp á nýtt hvað lýðræði er. Við höfum fengið okkar skóla. Við eum í doktornámi í afleiðingu spillingar, græðgi og blindu.

Núna þegar ríkið á alla bankana, það er að eignast fyrirtækin, kvótann og þegar verðbólgan færir nánast allt húsnæði til ríkisins á óhugnanlegum hraða þá þurfum við að vera vakandi og þiggja ekki aðeins leiki og brauð af ráðamönnum heldur verður valdið að endurspegla þjóðina en ekki flokkana.

VIÐ ERUM RÍKIÐ. ríkið á að endurspegla vilja okkar. Ríkið er ávöxtur lýðræðis. En orðið ríki er mengað af níði. Ríkið átti ekki að geta hitt og þetta en núna á það að grípa alla vitleysuna sem við máttum ekki hafa skoðun á. Hefði Fjármálaeftirlitið sinnt skyldu sinni væri það kallað ,,óeðlileg ríkisafskipti af frjálsum markaði“. Menn töluðu af vanvirðingu um fóstruríkið – það var talið hlálegt ef RÍKIÐ, það er að segja, VIÐ sjálf, tækju að sér þá sem urðu veikir, sjúkir eða fyrir áföllum. Rætt var um skatta eins og hverja aðra eyðslu en ekki í sömu andrá og menntun og heilsu.

Núna á RÍKIÐ skyndilega að virka eins og öryggisnet – ekki fyrir okkur – heldur fyrir eitthvað sem er 12 sinnum stærra en ríkið og fóstran liggur kramin undir hlassinu.

Við skulum muna: RÍKIÐ ER EKKI ÞEIR, ríkið er ekki ríkisstjórnin, ríkið er ekki eitthvað annað en VIÐ og það sem við viljum og hugsum. Ef ríkið er spillt þá höfum við brugðist, ef ríkið er illa rekið þá höfum við klikkað: Landspítalinn er Ríkið – skólarnir eru ríkið, vegirnir, brýrnar og raflínurnar, vatnsveitan og hitaveitan eru ríkið og allt getur þetta virkað og á ekkert skylt við kúgun eða alræði í austri. Frjáls hugsun þrífst innan ríkis eins og ófrelsi getur aukist í nafni frelsis. Flest sem Íslendingar búa að er frá þeim tíma þegar ríkið var hugsjón, þegar hugmuyndin um Ísland og sjálfstæði var hugjón. Öll vandamálin núna eru vegna þess að hugsjónalausir menn tóku ríkið og stungu því í eigin vasa.

Stjórnmálamenn

Ríkið er okkar og vald þess hefur margfaldast og vandinn er sá að stærsti stjórnarflokkurinn telur að ríkinu sé ekki treystandi til að reka fyrirtæki. Hann er í þeirri ótrúlegu stöðu að með því að reka ríkisfyrirtæki illa, stunda flokksráðningar og aðra spillingu er hann að sanna sína eigin hugmyndafræði og styrkja sjálfsmynd sína. Sömu ráðherrar og embættismenn og brugðust í eftirlitshlutverki sínu hafa núna nánast alræðisvald á Íslandi og uppgjör hefur ekki farið fram og Alþingi veikara en nokkru sinni.

Við verðum að gæta þess að hæfustu menn verði ráðnir til að gæta hagsmuna OKKAR, að fólk með þekkingu hafi frelsi til að tjá sig og miðla skoðunum sínum. Ráðamenn tala um mannauð en virðast óttast fátt meira en mannauð. Fólk sem er hæfara en ráðherra storkar valdi hans og framkvæmd hugmyndafræði sem hefur ekki vísindalegan grunn.

Stjórnmálamenn sem ólust upp á tímum kalda stríðsins voru fullir af hroka – þeir töldu sig hafa unnið stríðið og þyrftu aldrei framar að hlusta á andstæð sjónarmið.

Núna er hægt að byggja upp. Við vitum að báðar fylkingar höfðu rangt fyrir sér.

Þegar ríkið á allt og flokkarnir sem hafa klúðrað öllu ætla að ráða öllu þá verðum við að fara að tala um flokksráðningar eins og hverja aðra mismunun, á grundvelli húðlitar, trúarbragða eða kynferðis. Við verðum að nota rétt orð. Einkavinavæðing er sniðugt orð en felur raunveruleikann sem er spilling. Við verðum að líta á grófar flokksráðningar eins og aðra mismunun – þegar fólk er sniðgengið á grundvelli húðlitar, kyns eða trúarbraða, ekki með sniðugheitum eins og einkavinavæðing. Þetta gildir um stjórnun allra þeirra ríkisfyrirtækja sem við skyndlega eigum – eða skuldum.

Vinir

Núna heyrum við ráðamenn segja að þessi þjóð eða hin sé ekki vinur okkar vegna þess að eins að menn neita að lána vanhæfum stjórnvöldum hundruð milljarða –  stjórnvöldum sem gerðu einhver stærstu hagstjórnarmistök í nútímasögu vestrænna ríkja. Enginn – ekki nokkur kjaftur hefur sagt af sér, viðurkennt mistök eða beðist afsökunar. Allt í einu erum ,,við“ vinir Pútíns, Kína – guðmávitahverra…

Getur verið að mesta vinarbragð nágrannaþjóðar væri að lána ekkert fyrr en einhver hefur tekið ábyrgð, sagt af sér, stigið niður og hleypt hæfari manni í sinn stól? Getur verið að mesta vinarbragðið væri að lána okkur ekkert – nema þjóðin hafi aðgang að lágmarks upplýsingum? Getur nokkurt vestrænt lýðræðisríki réttlætt fyrir sínum kjósendum að þjóð sem glutraði fyrir þeim þúsundum milljarða, eigi skilið aðstoð þegar hún hefur ekkert lært? Myndum við lána spilafíkli sem hefur ekki verið sviptur fjárræði?

Stjórnmálamenn okkar ætla að þreyja þorrann. Sálfræðingarnir eru búnir að skýra þetta út:

Fyrst er það undrun, svo reiði, síðan óttinn og loks sátt, samsömun og doði. Það á ekki að kjósa strax – ekki fyrr en í doðanum.

Enginn hefur sagt af sér. Enginn. Þrátt fyrir að skýrar breytingar er afsökun og afsagnir hið eina sem getur bætt orðspor okkar erlendis. Á meðan enginn segir af sér –  erum við öll samsek – þá liggur OKKAR samþykki við glæpnum. Þessu verður að breyta.

xxxxxx

Prófsteinn:

Næstu mánuðir eru prófsteinn á okkur sem manneskjur. Við getum varpað hruninu á aðra. Við getum kennt öðrum um ástandið, stjórnmálum, ytri aðstæðum, grægði. Við erum ekki stolt af góðærinu og ávöxtur þess er enginn. Næstu vikur eru prófsteinn á okkur sem manneskjur og þjóð.

Maður sagði eitt sinn við mig: Þú þekkir ekki manneskju fyrr en þú hefur skipt með henni arfi. Kannski má segja að þú þekkir ekki þjóð fyrr en hún hefur farið gegnum góðæri og hrun.

Stóra áskorunin er núna. Munum við klúðra kreppunni? Hafa ráðamenn náð slíkum tökum á hugum okkar að við getum ekki ímyndað okkur annað fólk við stýrið? Hugsun okkar var menguð af peningatali. Tími var peningar, börn eru fjárfesting. Við þurfum að fjárfesta í mannréttindum sagði Amnesty um daginn. En tími er ekki peningar. Tími er tími og núna eigum við ekkert nema tíma.

Að vera Íslendingur verður líklega ekkert nema hugsjón næstu misseri. Það er í sjálfu sér í lagi. Ísland var hugsjón í upphafi síðustu aldar sömuleiðis. Af því að ríkið er við þá verðum við að gefa tíma ef hann losnar í að byggja aftur upp þetta samfélag, en það gerist ekki án þess að þeir sem sköpuðu vandann stigi til hliðar. Atvinnuleysi má ekki skilgreina sem verkefnaleysi. Virkni er það sem skiptir mestu máli og verkefnin eru næg þótt peningar verði litlir.

Það er alveg sama hvaða lausnir koma upp næstu misseri – útkoman veltur öll á okkur sjálfum. Davíð montaði sig af því að hafa tæmt biðstofuna í stjórnarráðinu en Ísland mun fyrst glatast ef 300.000 manns ætla að bíða á biðstofunni hans Geirs.

Hatur og hefnd eiga ekkert skylt við réttlæti. Við höfum byggt upp réttarkerfi sem gerir ráð fyrir réttlæti og dómarinn þarf ekki að hata sakborninginn. Ofbeldi er engin lausn. Við upplifum þjóðarharmleik og við verðum að láta dómstóla dæma þá seku. Hatur er ekki valkostur. Við erum of lítið land til að hata.

Ríkið, – við eigum bankana – réttara sagt – skuldum þá. Lög hafa verið brotin og málin þarf að rannsaka. Þeir sem seldu bankana síðast eiga ekki að koma nálægt þeim – ekki undir neinum kringumstæðum. Fólkið sem vinnur þar verður að fá að gera það með reisn, þar vinnur og vann dýrmæt kynslóð sem býr að reynslu – og hún hlýtur að búa til betri banka, helst alþjóðlega, þar sem dagfarsprúðum yfirmönnum er ekki breytt í áhættufíkla.

Næstu misseri eru prófsteinn á okkur sem manneskjur. Hér eru þúsundir erlendra ríkisborgara og fólk af erlendu bergi brotið. Nú þegar þrengir telja margir sjálfsagt að ,,nú fari útlendingarnir heim“. Menn spyrja: ,,Jæja ertu nú ekki að fara heim?“

Eigum við ekki að spyrja okkur fyrst. Hvað geta margir búið á Íslandi? Hvað eru mörg störf hérna? Eru þau ekki jafn mörg og þeir sem vilja vera hér? Við erum lítið land. Verðum við sterkari ef við verðum færri? Við teljum að 30 manna hópur hafi skaðað orðsporið. Ætlum við sjálf þá að klúðra því sem eftir er?

Ég hef fulla trú á framtíðina. Við hljótum að krefjast auðmýktar ráðamanna, gagnsæis í stjórnsýslu, upplýsinga til almennings og lýðræðis án skilyrða.

Tími er ekki peningar heldur verðmætin sem við sköpum með tímanum og Ísland er hugsjón. Takk fyrir.

2 thoughts on “Hugsjónin Ísland

  1. Bakvísun: Bryndís Ísfold › Hvað sagði Andri Snær á Laugardag

  2. Bakvísun: Mótmælafundur á Austurvelli, 15. nóvember. | Borgarafundur

Lokað er á athugasemdir.