Um Andra Snæ Magnason

asmoddstchris

Andri Snær Magnason hefur fengist við skáldsagnaskrif, ljóðlist, leikritagerð, almenna hugmyndavinnu og kvikmyndagerð. Verk hans hafa verið gefin út eða sýnd í meira en 30 löndum og þau hafa hlotið margvíslegar innlendar og alþjóðlegar viðurkenningar.

Sagan af bláa hnettinum hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999, Vestnorrænu barnabókaverðlaunin 2002 og Janusz Korkzak heiðursverðlaunin í Póllandi árið 2000, Green Earth Book Awards honorary mention 2013 og UKLA verðlaunin í Bretlandi árið 2014.

LoveStar var ein mest selda skáldsaga ársins 2002, hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, hlaut menningarverðlaun DV í bókmenntum og var valin skáldsaga ársins af íslenskum bóksölum.

Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð kom út árið 2006 og er ein mesta selda bók sem komið hefur út á Íslandi. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 en kvikmyndin kom út árið 2009 sem Þorfinnur Guðnason leikstýrði í samvinnu við Andra Snæ.

Tímakistan, hans nýjasta verk er fyrsta bókin til að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabókmennta árið 2013.

Blái hnötturinn Lucerne - Sviss

Blái hnötturinn Lucerne – Sviss

Blái hnötturinn var settur á svið í Þjóðleikhúsinu árið 2001 og hefur verið settur upp í Lucerne í Sviss, tvisvar af YPT theater í Toronto, Akvavit Theater í Chicago, Álaborg í Danmörku, Lahti og Vasa í Finnlandi og víðar.

Andri hefur einnig komið nærri arkítektúr og hönnun, hugmyndir hans um miðborg Reykjavíkur fengu fyrstu til þriðju verðlaun í samkeppni Landsbankans um miðborgina árið 2004 og hann var í teyminu sem hannaði Krikaskóla í Mosfellsbæ. Andri fékk Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2002. Hann hefur tekið virkan þátt í baráttunni fyrir verndun hálendis Íslands og haldið fyrirlestra víða um heim. Andri Magnason fékk einnig Kairos verðlaunin hjá Alfred Toepfer stofnuninni í Hamborg árið 2010.

Æviágrip

Andri Snær fæddist í Reykjavík á Bastilludaginn, 14. júlí árið 1973. Hann flutti ungur til Seyðisfjarðar, þaðan til Bandaríkjanna þar sem hann var við nám um sex ára skeið. Níu ára gamall flutti hann í Árbæjarhverfið. Hann varð stúdent af Eðlisfræðibraut Menntaskólans við Sund, þvínæst skráði hann sig í Læknadeild HÍ en komst ekki í gegnum numerus clausus, þá féll hann á persónuleikaprófi flugumferðarstjórnar sem leiddi til þess að hann skráði sig í Íslenskudeild Háskóla Íslands. Hann gaf æskuverk sín út í ljóðabókinni Ljóðasmygl og skáldarán sem kom út hjá Nykri árið 1995. Haustið eftir komu út Smásögur hans, Engar smá sögur hjá Máli og menningu og Bónusljóð sem vöktu mikla athygli og er ein mest selda ljóðabók síðari tíma á Íslandi.

Andri lauk BA prófi árið 1997 lokaritgerðin fjallaði um trú í ljóðum Ísaks Harðarsonar, hún kom út endurskrifuð árið 1999 undir heitinu Maður undir himni. Sumarið 1997 vann hann að Nýsköpunarsjóðsverkefni fyrir Árnastofnun ásamt Sverri Jakobssyni. Verkefnið fjallaði um miðlun á handritaarfinum en verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna Forseta Íslands. Í tengslum við það vann hann ásamt Rósu Þorsteinsdóttir að útgáfu geisladisks sem Smekkleysa gaf út en hann heitir Raddir. Í febrúar 1999 frumsýndi LFMH fyrsta leikverk hans, Náttúruóperan heitir það, Harpa Arnardóttir leikstýrði en hljómsveitin múm samdi og flutti tónlistina við verkið. Um sumarið fékk leikritið, Blái hnötturinn þriðju verðlaun í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins. Þetta sama ár gerðu Andri og múm saman hljómorðadiskinn Flugmaður sem inniheldur ljóð eftir Andra og tónlist eftir múm.

Þann 1. janúar árið 2000 kom út Bók í mannhafið sem Andri ritstýrði og sá um útgáfu á. Hafi einhver bókina undir höndum er hann beðinn um að hafa samband. Andri skrifaði skýrslu fyrir Ferðamálaráð sem heitir Leitin að Mónu Lísu.

Andri Snær hefur skrifað leikrit með Þorleifi Erni Arnarssyni, Eilíf hamingja (2007) og Eilíf óhamingja (2010) sem voru sett á svið í Borgarleihúsinu og einnig Úlfshamssögu í leikstjórn Maríu Ellingssen sem var frumsýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2004.

Andri Snær hefur tekið þátt í félagsstörfum, hann var varaformaður Rithöfundasambands Íslands, hefur tekið þátt í neðanjarðarútgáfu ljóðabóka fyrir bókaforlagið Nykur. Hann hefur lesið upp í skólum, haldið fyrirlestra fyrir háskóla, stórfyrirtæki og félagasamtök, skipulagt ljóðakvöld og menningarviðburði. Hann sat í stjórn Þjóðmenningarhússins ásamt Jóhannesi Nordal og Salome Þorkelsdóttur og hefur átt sæti í stjórn Íslenskrar málnefndar, Þjóðleikhússráði, Rithöfundasambandi Íslands, Skriðuklaustri á Austurlandi auk þáttöku í hinum ýmsu náttúruverndarsamtökum.

Andri Snær býr í Reykjavík. Kona hans heitir Margrét Sjöfn Torp og þau eiga fjögur börn. asmoddstchris

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.