Úlfhams saga

 

Álög lögð á Úlfham

Úlfhamssaga / Hafnarfjarðarleikhúsið 2004

Leiktexti: Andri Snær Magnason, leikstjórn: María Ellingsen, tónlist: Eivör Pálsdóttir, leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson.

Álög hafa verið lögð á Hálfdán Gautakonung. Á veturna skal hann reika um skóga sem úlfur en á sumrin skal hann koma heim og verja ríki sitt. Hildur drottning stjórnar ríkinu í fjarveru konungs með illsku og slægð. Þjóðin gleymir nafni Hálfdánar, hann er kallaður Vargstakkur af þegnum sínum. Hann á tvö börn með Hildi, Úlfham og Dagbjörtu.

Einn vordag þegar Vargstakkur snýr heim sem maður heldur Hildur drottning mikla veislu, tælir konung upp í rúm og heggur af honum höfuðið. Hún lýsir víginu á hendur sér og vill ganga að eiga Úlfham son sinn og býður honum allan veraldar ljóma.

Úlfhamur flýr til skógar með fóstbræðrum sínum, þeim Skildi, Hermanni og Ásmundi. Hildur drottning sækir að þeim og verður það mikill bardagi. Úlfhamur er nær dauða en lífi en fóstbræður Úlfhams fella á hana fjórar eikur. Hildur beitir fjölkynngi til að komast undan.

Þegar Úlfhamur er gróinn sára sinna kemur Ríkharður ráðgjafi Hildar með bréf og býður honum fullar sættir. Úlfhamur lætur ginnast af tilboði móður sinnar en þegar í höllina er komið leggur Hildur álög á alla viðstadda. Ásmundur skuli eiga skamma ævi. Skjöldur og Hermann skuli fyllast af girnd til fugla í stað kvenna en Úlfhamur skal ganga í haug Varnar, valkyrjannar sem upphaflega lagði álögin á Hálfdán konung. Úlfhamur skal ekki losna úr þessum haugi fyrr en fögur mær komi og leysi hann úr álögunum en ef það gerist er Úlfhamur dæmdur til að gleyma þeirri mey sem bjargaði honum og ekkert vilja leggja á sig til að bjarga hanni. Dagbjört snýst gegn móður sinni, leggur á hana gagnálög og lætur brenna hana úti í skógi.

Úlfhamur gengur í hauginn og líður miklar kvalir. Skjöldur og Hermann flækjast um Valland, þjáðir af girnd til fugla. Ásmundur heldur til hafs, heltekinn af ótta við dauðann. Þar hittir hann Óttu, hún sér í aðra heima og veit af örlögum Úlfhams, hún finnur sig knúna til að koma honum til bjargar. Hún heldur af stað, gengur nakin í hauginn og leysir Úlfham úr álögunum, hann heitir því að gleyma henni ekki, en gleymir henni samt.

Úlfhamur vaknar og heldur af stað í leit að fóstbræðrum sínum, hann hittir Dagbjörtu systur sína, hann hittir Atram bróðir Óttu sem leitar systur sinnar en aldrei man hann eftir Óttu. Þau koma á Valland og bjarga fóstbræðrunum þar sem þeir eltast við forkunnarfagrar trönur. Þær reynast vera stúlkur í álögum, Álfsól og Sólbjört. Hópurinn siglir af stað. Þau sigla framhjá haugi Varnar. Úlfhamur vill ekkert kannast við að neinn hafi gengið í hauginn í sinn stað þar til Álfsól og Sólbjört hressa upp á minni hans. Þá rennur upp lokaorrustan. Haugurinn opnast á fullu tungli, þá er hægt að ráðast á Vörn og frelsa Óttu, ef það er ekki orðið of seint.

Um sýninguna

Tilurð Úlfhams sögu er nokkuð frábrugðin hefðbundinni vinnuaðferð leikhúsanna þar sem algengast er að byrja vinnu út frá fullunnu textahandriti. Í þessu tilfelli var leiktextinn skrifaður samhliða fæðingu verksins þegar öll formin komu saman og fundu hver sinn farveg í myndum og andrúmslofti og frumtilfinningum sem finna má í rímunum.

Sýningin er upphaflega hugarfóstur Maríu Ellingsen sem hóf að þróa sýninguna árið 2002. Úlfhams saga er byggð á Vargstökum eða Úlfhams rímum sem eru taldar frá 14. öld. Þá fyrst urðu rímurnar aðgengilegar með doktorsritgerð Aðalheiðar Guðmundsdóttur sem dustaði rykið af fornu handritinu, greindi söguna fræðilega og færði efnið til nútíma stafsetningar. María setti saman hóp listamanna: Eivöru Pálsdóttur frá Færeyjum og tilraunadansarann Reijo Kela frá Finnlandi ásamt Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndateiknara, Grétu Maríu Bergsdóttur dramatúrg og Andra Snæ Magnason rithöfund.

Vorið 2004 kom leikhópurinn saman í leiksmiðju ásamt leikstjóra, dramatúrg, Reijo dansara, Eivöru, leikmyndahönnuði og leikskáldi. Þar var farið gegnum frumtextann, menn soguðu í sig kraftinn í rímunum, spunnu sig gegnum framvindu og frumtilfinningu verksins, pikkuðu upp orð og setningar, sungu, hvísluðu eða öskruðu við hljómfall Eivarar. Frumkraftarnir sem losnuðu úr læðingi voru einir og sér alveg mögnuð leikhússupplifun. Þar var bygging verksins og hreyfing sögunnar á sviði lögð niður í megindráttum af Snorra Frey, Maríu og Grétu.

En þá þurfti að leggja persónum og leikendum orð í munn. Týnd saga sem varð ríma á 14. öld skyldi taka á sig nýja mynd sem leikverk. En hvað gátu þessar dramatísku hetjur sagt? Nútímamál varð hálf klaufalegt. Fátt getur verið pínlegra en orðið “pabbi” í óræðu miðaldaumhverfi og hinar risavöxnu tilfinningar urðu smáar á hversdagsmáli. Hvað segir drottning þegar hún hefur myrt mann sinn eftir ástarleik og vill ganga að eiga son sinn? Það varð að lyfta öllu upp á annað plan, búa til tungumál fyrir “íslenskan harmleik” án þess að yfirskyggja hlut tónlistar og dans í verkinu. Feta þurfti viðkvæman milliveg, “diet Skakespeare” er ef til vill útkoman. Úlfhams saga var krefjandi verkefni sem kallaði á skapandi þátttöku allra í leikhópnum í hvívetna.

Persónur í þeirri röð sem þær birtast

    * Ótta: Álfrún Helga Örnólfsdóttir

    * Atram: Jón Páll Eyjólfsson

    * Hildur: Ragnheiður Steindórsdóttir

    * Úlfhamur: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson

    * Dagbjört: Esther Talia Casey

    * Ásmundur: Jón Páll Eyjólfsson

    * Hermann: Sigurður Eyberg

    * Skjöldur: Jón Ingi Hákonarson

    * Ríkharður: Kristján Franklín Magnús

    * Álfsól: Lára Sveinsdóttir

    * Sólbjört: Ásta Sighvats Ólafsdóttir

    * Seiðkona: Eivør Pálsdóttir

    * Vargstakkur: Kristján Franklín Magnús

    * Trana: Lára Sveinsdóttir

    * Trana: Ásta Sighvats Ólafsdóttir

    * Snækollur: Ragnheiður Steindórsdóttir

    * Bölsóti: Kristján Franklín Magnús

    * Vörn: Ragnheiður Steindórsdóttir

 

Listrænir stjórnendur

 

    * Leikstjórn: María Ellingsen

    * Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson

    * Hreyfihugmyndir: Reijo Kela

    * Tónlist: Eivør Pálsdóttir

    * Leiktexti: Andri Snær Magnason

    * Dramatúrg/aðstoðarleikstjórn Gréta María Bergsdóttir

    * Búningar: Helga I. Stefánsdóttir og Bergþóra Magnúsdóttir

    * Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

    * Myndbandstækni: Gideon Gabriel Kiers

    * Leikgervi: Ásta Hafþórsdóttir

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.