Um tímann og vatnið – aukasýningar í Borgarleikhúsinu 12. og 26. nóv.

Nú eru nokkrar vikur síðan bók mín Um tímann og vatnið kom út og viðtökur hafa verið vonum framar. Sýningarnar í Borgarleikhúsinu hafa gengið fyrir fullu húsi og einnig sýningin í Hofi á Akureyri.

Aukasýningum hefur verið bætt við, það er óðum að fyllast á sýninguna 12. nóvember og 26. nóvember er komin á sölu. Með mér á sviðinu allt kvöldið er Högni Egilsson, með víólu, píanó og dularfulla módular syntha græju. Hann bjó sérstaklega til tvö kórverk fyrir sýninguna sem Kór Kársnesskóla flytur.

Um tímann og vatnið er sögustund þar sem ég spinn sögur úr fortíð og framtíð og vef inn í frásögnina ljósmyndum og kvikmyndum og nokkrum skelfilegum línuritum. Viðbrögð áhorfenda hafa verið sterk og góð. Sýningin tengir saman kynslóðir, elstu áhorfendur hafa verið 95 ára og þeir yngstu um 11 ára og ég hvet fólk til að taka ungt og hugsandi fólk með sér og unga fólkið til að grípa með sér eldri frændur sem myndu kannski ekki drífa sig sjálfviljugir.

Hér er hlekkur á sýninguna á vef Borgarleikhússins þar sem nálgast má miða. 

Frekari upplýsingar eru hér:

Á næstu 100 árum mun jörðin okkar fara í gegnum breytingar sem eru stærri en tungumál okkar og myndhverfingar geta höndlað. Þessar yfirvofandi ummyndanir sprengja í raun skynjun okkar svo við heyrum bara eitthvað hvítt suð. Andri Snær Magnason ætlar að hjálpa okkur að sjá gegnum suðið og skilja stærðirnar með því að blanda saman persónulegum sögum, vísindum, minningum og hugmyndum um framtíðina. Þannig vefur hann fyrir okkur söguþráð sem er í senn ævintýralegur, alvarlegur og kannski með vonarglætu í lokin. Búðu þig undir ferðalag upp á Vatnajökul, þar sem við hittum Robert Oppenheimer, höfund kjarnorkusprengjunnar, leitum að uppruna lífsins og heyrum um frændann sem endurholdgaðist sem forsögulegur krókódíll áður en við förum á fund hjá heilögum manni sem lumar á svarinu við spurningunni um tilgang lífsins.

Fram koma Andri Snær Magnason, Högni Egilsson og skólakór Kársnesskóla.