Björn Þorbjarnarson – minningarorð í New York Times

Björn Thorbjarnarson afi minn er látinn 98 ára gamall. Hann lést í svefni og var andlega hress fram á síðasta dag. Björn var einn fremsti skurðlæknir á heims á sínu sviði og komst í sviðsljós heimsmiðlanna þegar hann skar upp Íranskeisara árið 1979. Hér er minningargrein um hann í New York Times, talsverð umfjöllun um dauða Andy Warhol sem lést eftir aðgerð sem afi framkvæmdi. Fjölmiðlar sögðu þetta hafa verið rútínuaðgerð en rannsóknir leiddu í ljós að veikindi hans voru mun alvarlegri en áður var greint frá.

Það var alltaf ævintýralegt að heimsækja afa, Peggy og fjölskyldu þeirra í stóra hvíta húsið í New Jersey enda áttu þau sundlaug og John frændi minn var með kyrkislöngu og krókódíl í svefnherberginu sínu. Þrátt fyrir fjarlægð náði ég að heimsækja hann alloft í seinni tíð. Ég hitti hann fyrir þremur vikum á heimili hans og Margaret Thorbjarnarson eiginkonu hans í New Jersey. Hann var fótfúinn en stálminnugur og við náðum að spjalla um heima og geima í nokkra klukkutíma. Ég náði að sýna honum bókina mína á tölvuskjá, en Björn afi, Arndís systir hans og John Thorbjarnarson sonur hans spila stórt hlutverk í henni. Afi lést á útgáfudegi bókarinnar þann 4. október. 

Morgunblaðið birti eftirfarandi minningarorð um afa:

Björn Þor­bjarn­ar­son, fyrr­ver­andi skurðlækn­ir í New York, er lát­inn 98 ára að aldri. Björn var yf­ir­lækn­ir á New York-sjúkra­hús­inu og naut viður­kenn­ing­ar fyr­ir rann­sókn­ir sín­ar, kennslu og lækn­is­störf á langri starfsævi.

Björn komst í hringiðu heimsviðburða árið 1979 þegar hann skar upp Mohammad Reza Pahlavi Íran­skeis­ara sem þá var í út­legð í Banda­ríkj­un­um. Meðal annarra sjúk­linga Björns voru eðlis­fræðing­ur­inn J. Robert Opp­en­heimer og listamaður­inn Andy War­hol.

Björn fædd­ist á Bíldu­dal 9. júlí 1921. For­eldr­ar hans voru Þor­björn Þórðar­son, lækn­ir á Bíldu­dal og Guðrún Páls­dótt­ir, hús­freyja á Bíldu­dal. Björn var næstyngst­ur af sjö systkin­um, en þau voru Páll alþing­ismaður og út­gerðar­eig­andi í Vest­manna­eyj­um, Þórður, for­stjóri Fiski­stofu, Arn­dís, hús­freyja og hrepps­nefnd­ar­kona á Sel­fossi, er eitt sinn var barn­fóstra fyr­ir J.R.R. Tolkien, höf­und Hringa­drótt­ins­sögu, Sverr­ir, for­stjóri Trygg­inga­stofn­un­ar rík­is­ins, Guðrún, hús­freyja í Reykja­vík og Krist­ín, hús­freyja og próf­arka­les­ari í Reykja­vík. Eru systkin­in nú öll lát­in.

Björn varð stúd­ent frá MA 1940 og cand. med. frá HÍ 1947. Hann starfaði sem aðstoðarlækn­ir hjá héraðslækn­in­um í Pat­reks­fjarðar­héraði sum­arið 1947 og kandí­dat frá Fjórðungs­sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri 1948 en þaðan hélt hann til Banda­ríkj­anna. Björn lauk sér­fræðiprófi í skurðlækn­ing­um 1954 og fékk al­mennt lækn­inga­leyfi í New York-ríki 1955. Hann var pró­fess­or hand­lækn­inga­deild­ar á New York Hospital, Cornell Uni­versity Medical Center frá 1968 til starfs­loka. Björn ritaði fjöl­marg­ar grein­ar í er­lend lækna­rit einn eða með öðrum og á átti þátt í þróun skurðlækn­inga á þess­um árum.

Barn­s­móðir Björns af fyrra sam­bandi er Hulda Guðrún Fil­ipp­us­dótt­ir. Dæt­ur þeirra eru tví­bura­syst­urn­ar Krist­ín og Guðrún, f. 12. sept­em­ber 1946. Í Banda­ríkj­un­um gekk Björn að eiga Marga­ret Thor­bjarn­ar­son (f. 1928). Þau eignuðust John Björn dýra­fræðing (f. 1957 d. 2010), Kat­hryn Wilmu jarðfræðing (f. 1959), Paul Stew­art tón­list­ar­mann og tölvu­for­rit­ara (f. 1960, d.1996) og Lisu Anne (f. 1964) bók­mennta­fræðing. Björn læt­ur eft­ir sig 11 barna­börn og 20 barna­barna­börn.