Björn Thorbjarnarson afi minn er látinn 98 ára gamall. Hann lést í svefni og var andlega hress fram á síðasta dag. Björn var einn fremsti skurðlæknir á heims á sínu sviði og komst í sviðsljós heimsmiðlanna þegar hann skar upp Íranskeisara árið 1979. Hér er minningargrein um hann í New York Times, talsverð umfjöllun um dauða Andy Warhol sem lést eftir aðgerð sem afi framkvæmdi. Fjölmiðlar sögðu þetta hafa verið rútínuaðgerð en rannsóknir leiddu í ljós að veikindi hans voru mun alvarlegri en áður var greint frá.
Það var alltaf ævintýralegt að heimsækja afa, Peggy og fjölskyldu þeirra í stóra hvíta húsið í New Jersey enda áttu þau sundlaug og John frændi minn var með kyrkislöngu og krókódíl í svefnherberginu sínu. Þrátt fyrir fjarlægð náði ég að heimsækja hann alloft í seinni tíð. Ég hitti hann fyrir þremur vikum á heimili hans og Margaret Thorbjarnarson eiginkonu hans í New Jersey. Hann var fótfúinn en stálminnugur og við náðum að spjalla um heima og geima í nokkra klukkutíma. Ég náði að sýna honum bókina mína á tölvuskjá, en Björn afi, Arndís systir hans og John Thorbjarnarson sonur hans spila stórt hlutverk í henni. Afi lést á útgáfudegi bókarinnar þann 4. október.
Morgunblaðið birti eftirfarandi minningarorð um afa:
Björn Þorbjarnarson, fyrrverandi skurðlæknir í New York, er látinn 98 ára að aldri. Björn var yfirlæknir á New York-sjúkrahúsinu og naut viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar, kennslu og læknisstörf á langri starfsævi.
Björn komst í hringiðu heimsviðburða árið 1979 þegar hann skar upp Mohammad Reza Pahlavi Íranskeisara sem þá var í útlegð í Bandaríkjunum. Meðal annarra sjúklinga Björns voru eðlisfræðingurinn J. Robert Oppenheimer og listamaðurinn Andy Warhol.
Björn fæddist á Bíldudal 9. júlí 1921. Foreldrar hans voru Þorbjörn Þórðarson, læknir á Bíldudal og Guðrún Pálsdóttir, húsfreyja á Bíldudal. Björn var næstyngstur af sjö systkinum, en þau voru Páll alþingismaður og útgerðareigandi í Vestmannaeyjum, Þórður, forstjóri Fiskistofu, Arndís, húsfreyja og hreppsnefndarkona á Selfossi, er eitt sinn var barnfóstra fyrir J.R.R. Tolkien, höfund Hringadróttinssögu, Sverrir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, Guðrún, húsfreyja í Reykjavík og Kristín, húsfreyja og prófarkalesari í Reykjavík. Eru systkinin nú öll látin.
Björn varð stúdent frá MA 1940 og cand. med. frá HÍ 1947. Hann starfaði sem aðstoðarlæknir hjá héraðslækninum í Patreksfjarðarhéraði sumarið 1947 og kandídat frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1948 en þaðan hélt hann til Bandaríkjanna. Björn lauk sérfræðiprófi í skurðlækningum 1954 og fékk almennt lækningaleyfi í New York-ríki 1955. Hann var prófessor handlækningadeildar á New York Hospital, Cornell University Medical Center frá 1968 til starfsloka. Björn ritaði fjölmargar greinar í erlend læknarit einn eða með öðrum og á átti þátt í þróun skurðlækninga á þessum árum.
Barnsmóðir Björns af fyrra sambandi er Hulda Guðrún Filippusdóttir. Dætur þeirra eru tvíburasysturnar Kristín og Guðrún, f. 12. september 1946. Í Bandaríkjunum gekk Björn að eiga Margaret Thorbjarnarson (f. 1928). Þau eignuðust John Björn dýrafræðing (f. 1957 d. 2010), Kathryn Wilmu jarðfræðing (f. 1959), Paul Stewart tónlistarmann og tölvuforritara (f. 1960, d.1996) og Lisu Anne (f. 1964) bókmenntafræðing. Björn lætur eftir sig 11 barnabörn og 20 barnabarnabörn.