Mun Bitcoin éta alvöru íkorna í framtíðinni?

Ég er kvótaður í dag í Bloomberg um Bitcoin bóluna. Eins og áður hefur komið fram eru hérlendis einhverskonar Matrix tölvur sem soga í sig alvöru auðlindir og verðmæti til þess að búa til Bitcoin sýndarpeninga sem einhverjir aumingjans innipúkar hafa veðjað á og hríðfalla í verði einmitt núna. Það er ekkert sem réttlætir að einstæðar jarðminjar við Eldvörp eða ósnortin víðerni eins og umhverfi Drangajökuls sé raskað fyrir slíka starfsemi. Ef rétt er í Bloomberg að 100MW af orku fari í Bitcoin námur þá duga þrjár umdeildustu virkjunar framkvæmdir samtímans, Hvalárvirkjun, Svartárvirkjun og virkjun í Eldvörpum ekki fyrir orkunotkun BITCOIN á Íslandi.

Orkugeirinn virðist hafa áttað sig og virðist hafa tekið einn PR fund og nú er Bitcoin orðið einhverskonar æfing fyrir fjórða hagkerfið og margvísleg þekking á að hafa orðið til við þessa sóunarstarfsemi. Miðað við mínar upplýsingar er starfsemin líkari lagerhaldi og allar kröfur og gæði þjónustunnar miklu minni en við annarskonar gagnaver, oftar en ekki hálfopin refabú með einföldu rafmagni og viftum. Enda var hægt að tæma heilt svona refabú án þess að nokkur yrði þess var.

Fjórða hagkerfið hljómar sexí og mun eflaust heyrast meira í ímyndarstríðinu, þegar við spyrjum okkur til hvers þau eru öll þessi gagnaver. Viltu fórna fossunum til að geyma fullt af myndum af fossum? Hvort elskarðu meira, ímyndaða peninga eða alvöru náttúruverðmæti? Gagnaverin verða reyndar horfin eftir 30 ár. Þá verður hægt að geyma öll selfí 21. aldar í einhverjum DNA krukkum. Kannski munu þær borða bjargfugla eða íkorna. Vonandi íkorna, ég myndi sjá eftir súlum og svartfugli í svona rugl.