Ég hef ekki tjáð mig mikið um Hvalárvirkjun. Það er alveg eins hægt að sitja heima hjá sér og horfa á Ground Hog Day á tíu skjám, allan daginn, allan ársins hring. Það er rannsóknarefni hvernig svona mál þróast og hvað orðræðan er stöðnuð. Það sem er kannski sérkennilegast er hvernig þjóð sem er orðin langmesti orkuframleiðandi í heimi er alltaf til í átök og hvernig hitastigið hjá þeim sem vilja virkja er alltaf eins og þeir séu að fá fyrstu ljósaperuna í hús. Það er rannsóknarefni hvað það er auðvelt að rugla saman grunnþörf almennings og braski auðmanna sem eru að selja orkuna í eitthvað kjaftæði eins og bitcoin eða Kísilver í Helguvík. Samtals er orkuþörf Bitcoin og Kísilveranna eins og sex Hvalárvirkjanir (c.a 300MW)
Vandinn er sá að stundum er engu líkara en að þeir sem stýra orkumálum þjóðarinnar nýti sér grunnþörf almennings til að réttlæta almennt brask erlendra auðmanna eins og í tilfelli Hvalárvirkjunar. Við höfum ekki einu sinni rætt hvort við viljum að orkufyrirtæki hér séu í erlendri eigu eða hvort þau eigi bara að taka toll af Íslenskri náttúru án endurgjalds til þjóðarinnar. Það á að fylgja ,,leikreglum“ og fara eftir rammaáætlun, en var hún líka hugsuð fyrir erlent eignarhald án endurgjalds? Eins og ævinlega hefur málinu hefur verið stýrt inn í umræðu um orkuöryggi á Vestfjörðum, til að tryggja víglínurnar. ,,Við“ á móti ,,hinum“. Þannig að ,,við“ er Ítalski landeigandinn, Pétur í Ófeigsfirði, Vestfirðingar, kanadíski eigandi orkufyrirtækisins en ,,þeir“. Það eru ,,náttúruverndarsinnarnir“, c,a rétt tæplega helmingur íbúa Árneshrepps og tveir læknar. Þannig er ítalskur landeigandi og kanadískt fyrirtæki frontað með nafninu ,,Vesturverk“. Ísfirskur talsmaður tryggir að við skynjum málið sem ,,vestfirska“ hagsmuni.
Náttúruverndarsinnar eru í þeirri stöðu að vilja ekki að Vestfirðingar njóti ,,öryggis“. Þannig að ef Hvalá væri Hvalur þá má líkja þessu við að þegar Kristján Loftsson veiðir hundraðasta hvalinn þá sé hann ennþá að því vegna þess að börnin hans eru svo svöng. Ef Vestfirðir búa við ótryggt rafmagn í landi þar sem orkuinnviðir gætu þjónað fimm milljón manna samfélagi, þá er það vegna þess að menn í orkugeiranum hafa vanrækt Vestfirði og hafa haft meiri áhuga á öðrum, ekki vegna skorts á orku. Þannig er meira að segja Bitcoin bólan á undan Vestfirðingum í forgangsröðinni. Þjóð sem íhugar sæstreng til Skotlands mætti alveg æva sig með því að hringtengja Vestfirði fyrst. Það má segja að Kristján hafi vísvitandi svelt börnin sín, vegna þess að svöngu börnin eru forsenda þess að einhverjum finnist vit í því að hann veiði næsta hval. Þannig að miðað við þetta línurit: Já það er fullkomlega hægt að búa til þjóðgarð kringum Drangajökul. Og nei, fegurðin þar er ekki nýlega uppgötvuð, hún er það sérstök að margir velja að fara þangað af öllum stöðum í heiminum á hverju sumri. Ef ég gúggla Pétur í Ófeigsfirði þá sé ég hann oft á myndum með vinum mínum og kunningjum, þar sem hann hefur verið hjálplegur þeim sem hafa farið um þessar einsaklega fallegur slóðir, árum og jafnvel áratugum saman.
Staðan í dag stefnir í að verða einhverskonar harmleikur, þar sem fallegt og viðkvæmt samfélag er svelt og síðan eyðilagt, þar sem allir tapa nema kannski sá erlendi aðili sem mun eiga virkjunina og sá bjáni sem nær að mala gull úr honum gegnum Bitcoin. Það er umhugsunarefni, hvernig svona harmleikur verður til, ekki við skort á rafmagni, heldur ofgnótt.