Skattagrýlan og kosningarnar

Ég vil gott heilbrigðiskerfi
Það þarf að fjármagna það með sköttum.
Ef menn vilja ekki borga skatta skulum við ræða tryggingamál, Obamacare og önnur úrræði. Það er ekki hægt að vilja öryggisnet, ókeypis krabbameinsmeðferðir, mannsæmandi líf með langvinnum sjúkdómum og úrbætur í geðheilbrigðismálum um leið og skattar eru lækkaðir. Fjármagnið verður að koma einhversstaðar frá. Ef menn vilja ekki skatta þá verða menn að koma hreint fram og bjóða fram sýn um hvar skuli kaupa tryggingar og leiðir til að tryggja nauðsynlega þjónustu.


Það gengur heldur ekki að starfsfólkið niðurgreiði kerfið með álagi, sjálfboðavinnu og óviðundandi starfsumhverfi eða sjúklingar með beinum fjárframlögum ofan á vinnu og heilsutap.

Ég vil gott menntakerfi, öflugt menningarlíf og vilja til að viðhalda sjálfstæðu tungumáli með tilheyrandi bókmenntasköpun, Þjóðleikhúsi, kvikmyndagerð, Ríkisútvarpi, Árnastofnun og sinfóníu. Til þess að tungumálið verði gjaldgengt í tækjum framtíðar þarf grunnrannsóknir og gagnagrunna, til að keyra inn í tölvu og þýðingarkerfin.

Ef menn vilja ekki borga skatta skulum við byrja að safna í ,,College Funds“. Það þarf ekki að vera verra kerfi, en það er ekki hægt að vilja hvort tveggja, að vera með ókeypis fyrsta flokks skóla og lága skatta. Fólk með ung börn getur þá strax safnað þeim 15 milljónum sem kostar að fara í MR eða Versló og síðan þeim 20 sem kostar að fara í Háskólann. Það gengur ekki að þynna bara námið í sparnaðarskyni, eða láta starfsmenn niðurgreiða það.

Ef menn vilja láta íslenskuna danka, eða keppa án stuðnings við milljónatungumál þurfum við að ræða skipulagt undanhald hennar, hvernig skuli pakka henni saman og gera nýrri kynslóð fært að læra alvöru ensku með tilheyrandi bókasöfnum og sömu menningarlegu dýpt og tíðkast í Ameríku og Bretlandi. YouTube enska er ekki enska og hún lærist ekki af sjálfu sér án innviða.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi og við þurfum að leggja meira á okkur til að byggja upp innviði en víðast hvar. Það hlýtur að vera óraunhæft að búa hér og greiða lægri skatta en í Danmörku eða Noregi. Við þurfum að jafna aðstöðu landsmanna, við þurfum að grafa nokkur jarðgöng til viðbótar á Austurlandi og Vestfjörðum, styðja bændur og við þurfum að niðurgreiða flug til Ísafjarðar, Egilsstaða og Vestmannaeyja. Það gerist aðeins með því að borga skatta.

Við erum lítil þjóð og óhagkvæm eining og viljum halda úti utanríkisþjónustu, eigin þingi, rannsóknum, landsliðum og löggæslu, menningu, landbúnaði, samgöngum, æskulýðsstarfi og heilbrigiskerfi. Það vill reyndar svo til að við eigum mannauð og auðlindir sem gera okkur þetta kleift. Og ef allir innviðir eru í lagi þá vill fólk setjast hér að og þá skapast atvinnulíf. Ef innviðir eru í molum þá setjast frumkvöðlarnir að þar sem skólar, sjúkrahús og menningarlíf er í lagi. Panamaskjölin sýndu að málsmetandi fólk hérlendis vildi ekki einu sinni greiða lægstu mögulegu skatta til samfélagsins. Þeir sem eru þannig gerðir mega alveg fara.

Áherslan á skattalækkanir án þess að búa til kerfi sem gera okkur kleift að veita fjármagni á mikilvæga staði, valda því að Íslenska góðærið verður ævinlega yfirborðslegt fyllerí. Það sem skiptir máli er svelt, á meðan landið fyllist af dóti. Heimilin fyllast af tækjum en ekki skólarnir, við gistum á dýrum hótelum en sofum á spítalagöngum þegar mest ríður á. Við ökum á dýrum bílum um lélega vegi frekar en ágætum bílum á góðum vegum eða alvöru almenningssamgöngum. Hvert góðæri skilar sér því ekki í raunverulegum verðmætum heldur þvert á móti, grefur oftar en ekki undan grunnstoðum þegar skera þarf niður á sjúkrahúsum, leikskólum og öðrum póstum til að ,,kæla“ hagkerfið.

Kosningabaráttan hefur nánast verið barnaleg, hún hefur snúist um að búa til grýlu úr samfélaginu sem við þurfum og viljum halda uppi án þess að tala hreinskilnislega um hvernig skuli þá fjármagna það með öðrum hætti.

Ég þekki mikið af góðu fólki sem er í framboði og þekki af eigin reynslu að þetta er átak og mér finnst mikið og fínt mannval í boði. Ég fagna því aðGuðmundur Andri Thorsson sé þarna ofarlega og Samfylkingin sé að ná vopnum sínum. Mér líst vel á að Katrín Jakobsdóttir fái góða kosningu og vil að Sara Oskarsson komist á þing, hún er magnaður eldhugi, Eydís Blöndaler góður kostur og kosningaprófin hafa sagt mér að ég sé 86% Dagrún Ósk Jónsdóttir og Óttarr Proppé sem ég hef kunnað að meta. Hordur Agustssoní Macland yrði flottur á þingi, Helga Vala Helgadóttir verður öflug og mér líst vel á að Einar Kárason og Hallgrímur Helgason hafi tekið slaginn. Þeir sem íhuga villitrippin í Miðflokki mættu íhuga að Lilja D. Alfredsdottir er úrvals stjórnmálamaður og Biggi lögga Birgir Örn Guðjónsson hefur brennandi áhuga og þekkingu á samfélaginu. Ég óska annars öllum frambjóðendum góðs gengis og hvet alla til að kjósa rétt.