Í dag kveðjum við ástkæran Árna afa, hann var stjúpfaðir móður okkar og bjó lengst af í Hlaðbænum þar sem amma býr ennþá. Árni afi var mikill kappi, skíðamaður, fjallagarpur, félagsmálamaður og ræktaði garðinn sinn betur en flestir aðrir. Árni afi var okkur öllum mikil og góð fyrirmynd en hann lifði langa og fallega ævi og þau Hulda amma voru sérlega heppin að eignast hvort annað. Hér er minningargrein sem ég skrifaði um hann:
Árni Kjartansson f. 26. nóvember 1922 d. 28. september 2017:
Hann er 94 ára og tekur fram gömlu slides vélina og varpar myndum upp á tjald. Þarna birtast ljóslifandi, Jökulheimar, Kerlingarfjöll, Jósepsdalur. Fjallabílar, snjóbíllinn Gusi, þarna birtast goðsagnir í fjallamennsku, Guðmundur Jónasson, Sigurður Þórarinsson, Sigurjón Rist. Þarna er Selásinn, amma á skíðum, mamma og Guðrún í Þórsmörk með KB og GB saumað í smekkbuxurnar. Í glugganum hrafntinnur og geislasteinar, Selás, Heiðmörk og Bláfjöll út um eldhússgluggann, Elliðaárnar skoppandi fyrir utan og blómagarðurinn allt um kring. Hann skiptir um sleða og nú birtust þær á tjaldinu, dalíurnar, rauðar, gular og bleikar, flugeldasýningar sem hann galdraði fram úr litlum fræjum.
,,Menning er að gera hlutina vel“, sagði Þorsteinn Gylfason og ef maður hugsar um afa í Hlaðbæ þá gerði hann hlutina ekki aðeins vel heldur varð hann yfirleitt langbestur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann varð ungur Íslandsmeistari í 1500 og 5000 metra hlaupi, hann var leiðangursstjóri í fyrstu ferðum Jöklarannsóknarfélagsins og tók þátt í að byggja skálana á Grímsfjalli og í Jökulheimum.
Sem ljósmyndari skilur hann eftir sig ómetanlegt safn fyrir fjölskylduna en líka heimildir um íþróttasögu og sögu fjallamennsku á Íslandi. Sem kjötiðnaðarmaður þótti hann einstaklega vandvirkur og fólk kom um langan veg til að fá hjá honum jólasteikina. Sem þáttakandi í félagsstörfum gaf hann endalaust af tíma sínum. Hann tók þátt í uppbyggingu Skíðadeildar Ármanns og Flugbjörgunarsveitar Íslands. Þegar hann fékk áhuga á blómarækt varð garðurinn einn sá fallegasti á landinu.
En afi gerði þetta ekki einn. Hann var svo heppinn að hitta jafnoka sinn í henni Huldu ömmu. Þau dönsuðu allt kvöldið á hreppaskilum skíðafélagsins og hann bauð henni með sér í leiðangur upp á Vatnajökul. Hún hélt nú það og einhverjir spurðu forviða. Ætlar þú að taka konu með þér upp á jökul? Þau giftu sig 25. maí 1956 og fóru beint af stað í þriggja vikna leiðangur. Þau fengu öll veður og voru föst í tveggja manni tjaldi í þrjá sólarhringa. Var ykkur ekki kalt? spurði ég. Kalt? sagði afi. Við vorum nýgift! Vatnajökull var ókönnuð og nafnlaus veröld en nú heitir efsta kennileitið á Kverkfjallahryggnum Brúðarbunga. Þau voru einstaklega samrýmd í einu og öllu í meira en 60 ár.
Afi fékk svo sannarlega ekki allt upp í hendurnar. Hann missti föður sinn ellefu ára gamall og hætti í skóla þótt hann væri efnilegur námsmaður. Afi var með mikið keppnisskap, stundum hugsaði maður hvort þar væri drengurinn að sýna heiminum að víst gæti hann afrekað eitthvað. Þegar hann gaf endalaust af tíma sínum hugsaði maður um eina fátækustu fjölskyldu bæjarins sem fékk eina nútímalegustu íbúð bæjarins í Verkamannabústöðunum við Ásvallagötu.
Menning er að gera hlutina vel. Þegar hann talaði um ömmu síðustu árin þá notaði hann öll fallegustu orðin. Gagnvart afa og langafabörnum og var hann langbesti afi sem hægt var að hugsa sér. Hann lifir í minningunni, við sjáum hann fyrir okkur, umkringdan fjöllum og dalíum, hrafntinnu og geislasteinum, í fjallakofa sem heitir Himnaríki.