,,Að skreyta sig með nátthúfum lángafanna“

Screen-Shot-2015-12-27-at-17.37.01-768x498

Hér er jólakort frá forsætisráðuneytinu, búið er að skeyta inn á Vonarstrætið hús sem var víst skólaverkefni Guðjóns Samúelssonar en er nú orðið sérstakt gæluverkefni forsætisráðherra Íslands. Það er skemmtileg tilviljun að í hægra horni þessarar myndar skuli glitta í Ráðhús Reykjavíkur. Árið 1986 var nefnilega haldin opin samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um nýtt ráðhús við Tjörnina en alls bárust 38 hugmyndir í keppnina. Höfundar sigurtillögunnar voru kornungir arkítektar, þau Steve Christer og Margrétar Harðardóttir en þau voru ekki nema 27 ára gömul þegar þau fengu þetta vandasama verk upp í hendurnar. Með hliðsjón af tillögu forsætisráðherra er vert að rifja upp hvað Margrét Harðardóttir sagði í ræðu sinni við vígslu Ráðhússins 1992:

„Sumir virtust eiga þá ósk heitasta, að byggingarlistin tæki stefnuna rakleitt aftur til fortíðar. Þetta er algengt fyrirbæri og e.t.v. afleiðing þess, að menn átta sig ekki á því, að ástæða þess, að margar af eldri byggingum okkar eru svo fallegar, er einmitt sú, að þá vönduðu menn sig sem bezt þeir gátu. Nú leyfir peningavélin ekki, að menn geri sitt bezta. Þetta hefur leitt af sér hræðslu gagnvart öllu því, sem nýtt er. Halldór Laxness kallaði þetta „að skreyta sig með nátthúfum lángafanna“ og taldi það vitna um hnignun þjóðernis, þegar menn leituðu einkenna sinna mörg hundruð ár aftur í tímann. Það er jafn hættulegt að gerast þræll fortíðarinnar og að glata virðingu sinni og þekkingu á því, sem á undan er gengið. Ég tel mig geta fullyrt fyrir hönd allra, sem nálægt byggingu Ráðhúss Reykjavíkur hafa komið, að þeir eru þakklátir fyrir að hafa fengið, e.t.v. í eina skiptið á ævinni, að sýna fagmennsku í allri sinni fegurð.“

Ég held að það væri draumur margra 27 ára arkítekta í dag að fá að spreyta sig á stórhýsi fyrir Alþingi á þessum vandasama reit. Í opinni keppni væri heldur ekki ólíklegt að Margrét og Steve sendu inn tillögu en frá því þau teiknuðu Ráðhúsið árið 1986 hafa þau hannað mörg merkilegustu hús okkar samtíma, oftar en ekki á afar viðkvæmum og grónum reitum, eins og hús Hæstaréttar eða stúdíóið við Hverfisgötu sem er tilnefnt til Mies Van Der Rohe verðlaunanna.

R__h_s1-minni

Dómnefnd samkeppninnar um Ráðhúsið skipuðu Davíð Oddsson, Sigrún Magnúsdóttir, borgarfulltrúi, Þorvaldur S. Þorvaldsson, forstöðumaður Borgarskipulags, af hálfu borgarinnar og arkitektarnir Guðni Pálsson og Þorsteinn Gunnarsson af hálfu Arkitektafélags íslands. Þórður Þ. Þorbjamarson, borgarverkfræðingur var tæknilegur ráðgjafi nefndarinnar. Sigrún Magnúsdóttir er núverandi umhverfisráðherra, hún mætti gjarnan lesa opnunarræðu Margrétar Harðardóttur á Ríkisstjórnarfundi. Í öllum frásögnum er Davíð sjálfum eignuð hugmyndin að staðsetningu hússins. Þótt hann hafi þótt ráðríkur og jafnframt með listræna taug, þá held ég að honum hefði aldrei dottið í hug að ákveða sjálfur hvernig húsið skyldi líta út.

Að forsætisráðherra sjálfur ákveði sjálfur útlit og hönnun opinberrar byggingar er fáheyrt og fordæmalaust í vestrænu lýðræðisríki. Að hugmyndin sé þó komin svo langt sýnir algeran dómgreindarskort í hans nærumhverfi og afhjúpar alvarlega veikleika í stjórnsýslu Íslands. Að þetta skuli gerast með hús á vegum Alþingis er hreint hnignunarmerki. Tillagan ber vott um vaxandi stjórnlyndi þar sem lýðræðislegir ferlar og grundvallaratriði í verkaskiptingu eru brotin þegar þeir sérfræðingar sem við höfum treyst til að reka þetta land eru í vaxandi mæli sniðgengnir. Við höfum áður séð skýr brot á nútíma leikreglum í úthlutun á styrkjum sem fóru fram með SMS til flokksfélaga og nýlega beina íhlutun í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.

Húsin sem voru byggð í hrauninu í Prýðahverfi nýta að engu leyti sérstætt umhverfi sitt. Þessi hálfbyggðu hús eru dæmi um versta verktakahönnun síðustu ára og táknrænt ef hrauninu verði spillt í nafni þessara húsa - sem standa þó við fáfarna götu sem má auðveldlega laga - með vandaðri hönnun.

Verktakalist – glötuð tækifæri í Prýðahverfi í Garðabæ.

Vilji menn efla umræðu um arkítektúr, breyta byggingareglugerðum og auka kröfur um fagurfræði nýbygginga er það allt annað mál. Ef menn vilja setja reglur um efnisval, skala, gluggasetningu eða annað í miðborg Reykjavíkur má prófa að ræða það, en að sniðganga heila kynslóð listamanna og taka frá okkar kynslóð einstakt tækifæri til að skapa Guðjón Samúelssyni og dætur samtímans er algerlega forkastanlegt. Tillaga Sigmundar eða óánægja með samtímann er að sumu leyti skiljanleg í ljósi ljótra húsa og jafnvel hverfa sem hafa risið undanfarin ár. En ljótleiki í samtímanum er yfirleitt ekki vegna arkítektúrsins heldur vegna skorts á honum, ljótleikinn stafar af græðgi og metnaðarleysi sem hefur því miður ríkt í verktakabransanum en þar hafa glatast ótal tækifæri á síðustu árum. Írónían er einmitt sú að í hópi þessara sömu verktaka má finna helstu bakhjarla þeirra sem nú ráða á Alþingi. Lausnin er ekki afturhvarf til fortíðar, lausnin felst í því að sýna metnað og leyfa okkar besta fólki að gera sitt besta. Nærtækt að vitna í Margréti og Steve í grein frá 1985:

,,Arkitektúr á sinn naflastreng tengdan öllum greinum lista. Vöxtur hans og þroski er kominn undir þeirri næringu er þaðan streymir, hvort sem það er ný kvikmyndafantasía eða nýstárleg tónsmið. Uppsprettan er alltaf hin sama, mannlífið sjálft. Arkitektúr framtíðarinnar knýr óhræddur á dyr óvissunnar. Hann hefur dregið sinn lærdóm af fumi og fáti nútímans, sem átt hefur þaö til að taka hræðslustökk aftur á við í imyndað öryggi og rómantík fortiðarinnar. Framtiðin býr yfir töfrum og krafti, sem ekki er að finna í þvi, sem dagað hefur uppi.“