Bara ein spurning. Hvenær hefur Evrópa verið betri en hún er núna? Var það 1914 – 1918? Eða voru það kreppuárin? Varla, og alls ekki stríðsárin, þá dóu fleiri á hverjum degi heldur en starfa við báknið í Brussel. Og gullöldin var ekki 40 árin eftir stríð þegar öll austurblokkin var í járnum. Og austurblokkin opnaðist ekki fyrr en kringum 1990 en þá logaði Júgóslavía í heilan áratug fram að aldamótum. Á síðustu 15 árum hef ég eignast vini í hverju einasta Evrópulandi frá löndum sem mig grunaði ekki að ég ætti eftir að heimsækja þegar ég var lítill. Á þessum tíma hefur maður farið til Póllands og Eistlands og Litháen án þess að vopnaðir menn og geltandi Schaefferhundar bíði manns við hver landamæri og innanbæjarlest tekur mann frá Malmö til Kaupmannahafnar á tíu mínútum. Já hvenær er gullöld Evrópu? Var það fyrir fimm árum? Eða kannski núna? Það loga eldar og fólk flýr – 99.99% gott og fallegt fólk, sem flýr fjandans hernaðarvélina. Og ég skil strákana vegna þess að hetjur flýja stríð. Það er slæmt að vera kona og barn í stríði – en miklu verra að vera karlmaður sem eru 90% hinna látnu. Og ég held að það sé hægt að endurbyggja Sýrland á styttri tíma en fátækar ekkjur endurbyggðu Varsjá. Er það hægt? Já – það er hægt – Evrópa sannar það. Hún sannar að andstæðar fylkingar geta hreinlega opnað landamærin. Það er barnaskapur að sakna Evrópu þar sem hver og ein þjóð skellir í lás og ,,stendur í lappirnar“. Eru gallar? Já alveg hundraðþúsund gallar. Milljón hlutir sem þarf að laga – félagslega, efnahagslega og ekki síst umhverfislega. En hvað sem öllu líður – þá er þetta líklega skásti heimur allra heima og það er hægt að gera hann betri.