Humans of Gautaborg: Var að koma af Gautaborgarmessunni. Hitti ljóðskáld frá Damaskus, upprunalega frá Palestínu, flottur gaur, töffari, býr í Svíþjóð núna yrkir á arabísku, með metsölubók í Belgíu, ætlaði aldrei að verða annað en ljóðskáld, ekkert annað frá því hann var sjö ára. Flóttamaður? Já, hann fékk hæli fyrir tveimur árum, þekkir Mazen Maarouf vin okkar frá Íslandi. Hann tók ekki þátt í stríðinu, gekk ekki í frelsisherinn gegn Assad. Hvers vegna? Vegna þess að ég er heigull. Ég þorði því ekki, ég vildi ekki deyja eins og vinir mínir. Þekkirðu einhvern sem fór og dó? Já, 287. Þögn. Það eru 280.000 látnir, en um það bil 700.000 eru týndir. Líklega um milljón dáin í þessu stríði. Önnur milljón örkumla, sjónlaus, fótalaus. Assad stjórnin er ein versta harðstjórn í sögunni, búin að rústa 400 borgum og bæjum í Sýrlandi með loftárásum og þungavopnum, þær eru allar eins og Hiroshima, Ísis er með þrjár borgir, en allir halda að þeir séu verstir. Hermenn sem Assad stjórnin handsamar eru allir pyntaðir, allt er plokkað af þeim, augu, eyru, tær, nef, kynfæri, smátt og smátt, þeir fá vatn að drekka til að dauðdaginn verði hægari en engan mat svo að lokum deyja þeir úr hungri. Ég er með myndir í tölvunni heima, 55.000 myndir af 11.000 mönnum sem voru látnir deyja á þennan hátt, yfirmaður í fangelsinu strauk og kom þeim í okkar hendur, þær eru komnar til Haag. Við höfum upp á mæðrum þeirra. Þær segja alltaf strax, já þetta er sonur minn. En innan 24 tíma kemur alltaf annað bréf. Nei, þetta er ekki hann. Þetta er annar. Það er eitthvað í heilanum. Hann ræður ekki við þetta. Bróðir minn er kominn til mín, það tók hann átta mánuði, ég þurfti að kaupa fyrir hann fimm fölsuð vegabréf, um 30.000 evrur, farið til Tyrklands kostaði 10.000 evrur. Danir eru orðnir fasistar, hrikalegt ástand í Ungverjalandi. Vita menn ekki að saga heimsins er saga fólksflutninga? Eru menn búnir að gleyma hvernig Ameríka varð til. Vita menn hversu margir fóru frá Írlandi? Frábært framtak frá Íslandi samt, þessi stelpa, skáldið. Hvað heitir hún? Bryndis Bjorgvinsdottir? Já. Fréttirðu af því? Maður veit aldrei hvað er í alvöru heimsfrétt frá Íslandi. Frétti ég af því? Þetta var alls staðar, um allan heim! Þetta var á Al Jazzeera, BBC það sem hún gerði skipti miklu máli, mjög miklu máli, þótt þið takið ekki við neinum, þá skiptu skilaboðin máli. Tónlistin hækkaði, bjór kom á borðið, klukkan orðin 11:55 og þá fara Svíar að dansa og þá var dansað, eins og enginn væri gærdagurinn.