Já heilagur makríll. Maður veit nefnilega ekki hvort frumvarpið um 5 nýja virkjunarókosti sem Jón Gunnarsson ætlar að skella í andlitið á þjóðinni sé sett fram til að dreifa athyglinni frá makrílfrumvarpinu en til öryggis þá mun ég skella inn orðinu makríll reglulega sem vörn gegn smjörklípunni.
En til að skilja hvað Jón Gunnarsson er að fara, já og kannski í von um að hann lesi sjálfur þennan póst og skilji hvaða frumvarp hann var að leggja fram þá er ágætt að kynna sér örnefnið Skrokköldu. Jón Gunnarsson virðist ætla persónulega að brjóta lög og alla ferla um rammaáætlun og opna dyrnar fyrir orkuiðnaðinn inni á miðju hálendi Íslands. Markmiðið er að næla sér í skitin 35MW, það er c.a 5% af orkunni sem Alcoa kaupir á gjafverði á Austurlandi. Vandinn er sá að Skrokkalda er einmitt á einum vinsælasta hluta Sprengisandsleiðar þar sem öræfakyrrðin er orðin alger og þú ert í þínum eigin heimi og nokkrir bílar skrölta eftir hlykkjóttum slóða en að öðru leyti ertu kominn í heim sands og jökla. Já makríll hafi það. Til að rjúfa friðinn á þessu svæði þarf að leggja uppbyggðan veg, jafn langan og frá Reykjavík til Selfoss og það þarf að leggja jafn langa rafmagnslínu, já eins og frá Reykjavík til Selfoss – alveg inn í HJARTA LANDSINS en framkvæmdir af þessu tagi ,,láglendisvæða“ hálendið. Þar með verður svæðið eins og hver annar vegkantur Holtavörðuheiðar. Kostnaðinn við að leggja þessa línu verður lagður á rafmagsnotendur í heild sinni á Íslandi enda á sér stað alveg einstaklega óhagkvæm og illa rökstudd innviðagerð á vegum Landsnets sem felst eiginlega í því að hugsanlegur hagnaður af orkusölu á Íslandi næstu áratugi er allur ráðstafaður af Landsneti og fer í að byggja upp raflínur sem þjóna bara sjálfum sér og stóriðjunni sem þær tengjast. Á meðan skilar fyrirtækið ekki arði og enginn peningur fer TIL ÞJÓÐARINNAR sem nýtir hann í þarfari innviði eins og skóla, menningu og heilbrigðiskerfi. Línulagnirnar eru einskonar furðuáhugamál, eins og heimilisfaðir sem eyðir öllu í módelsmíði eða fornbílinn sinn eða eins og allur hagnaður Kristjáns Loftssonar fjármagnar tap af hvalveiðiáhuga í stað þess að lenda í vasa fiskverkakvenna sem myndu hvort eð er bara eyða þessu í bækur eða tómstundir barna og helgarferðir með saumaklúbbnum. Þannig að: Kynnið ykkur Skrokköldu! Hér hefur hugsjónafólk hjá Framtíðalandinu tekið saman gögn í frítíma sínum til að upplýsa þig um verðmæti sem þú átt – en samkvæmt nýju frumvarpi Jóns Gunnarssonar á að spilla – og takið eftir: Náttúran alltaf verðlögð á núll krónur niðri á hinu andlega láglendi þar sem sumir þingmenn halda sig. Makríll! En þá er eftir að telja upp virkjanir í neðri Þjórsá sem gætu eyðilagt strærsta laxastofn á Íslandi og Hagavatnsvirkjun sem skerðir mikilfengleg víðerni.
http://www.framtidarlandid.is/is/natturukortid/bidflokkur/skrokkolduvirkjun