Heiðurslaunin og ætternisstapinn

Nú þegar menn skammta sér þrjá milljarða í arðgreiðslur fyrir sameiginlega auðlind okkar og greiða verkafólki 230.000 krónur á mánuði er tímabært að búa til smá læti í kringum HEIÐURSLAUN ALÞINGIS!!! vegna þess að ekkert reitir heiðarlegt vinnandi alþýðufólk meira til reiði en þá ósvinnu að 23 einstaklingar séu á heiðurslaunalista Alþingis. Þarna er meðal annars Edda Heiðrún, þarna er Jórunn Viðar, Hannes Pétursson, Megas, Guðbergur Bergsson og Atli Heimir Sveinsson svo fáir séu nefndir. Á yfirstandandi flokksþingi Framsóknarmanna í Reykjavík liggur fyrir eftirfarandi ályktun sem ég verð að segja – er alveg ótrúlega vanhugsuð.

,,Framsóknarflokkurinn lítur svo á að heiðurslaun listamanna séu ekki besta leiðin til að stuðla að grósku í íslensks listalífi. Framsóknarflokkurinn leggur til að heiðurslaun listamanna verði lögð niður í núverandi mynd og að það fjármagn sem sparast verði notað í sérstök starfslaun fyrir unga listamenn.“

Í fyrsta lagi verð ég að segja að þetta er alveg hrikalega dónaleg framsetning gagnvart fólki sem Alþingi hefur kosið að heiðra. Að láta eins og Hannes Pétursson á sínum friðarstóli á Álftanesi – (þar sem milljarða óþörf vegagerð fer fram) sé það sem stendur ungum skáldum á Íslandi fyrir þrifum er alveg mögnuð og ósvífin uppstilling. En burtséð frá dónaskapnum má spyrja: Hvernig ætla menn að framkvæma þetta? Á að búa til biðlista fyrir unga listamenn þannig að þegar einn heiðurslistamaður hrekkur upp af – þá losnar pláss fyrir ,,ungan“ listamann? Erum við þá að tala um 10 ,,unga listamenn“ á næstu 10 árum? Hafa menn reiknað út upphæðina sem ,,sparast“. Er þetta einhverskonar menningarlegur ætternisstapi sem menn hafa í huga. Búum við í samfélagi eins og í Gautrekssögu í Fornaldarsögum Norðurlanda:

,,Hér er sá hamar við bæ vorn, er heitir Gillingshamar, og þar í hjá er stapi sá, er vér köllum Ætternisstapa. Hann er svo hár … að það kvikindi hefir ekki líf, er þar gengur fyrir niður. Því heitir það Ætternisstapi, að þar með fækkum vér vort ætterni, þegar oss þykir stór kynsl við bera, og deyja þar allir vorir foreldrar fyrir utan alla sótt og fara þá til Óðins, og þurfum vér af engu voru foreldri þyngsl að hafa né þrjósku, því að þessi sældarstaður hefir öllum verið jafnfrjáls vorum ættmönnum, og þurfum eigi að lifa við fjártjón og fæðsluleysi.“

Það er auðvitað bráðfyndið að framsóknarmenn sitja ekki í Gillingshamar heldur í Gullhömrum í Grafarholti. Heiðurslaunin má auðvitað deila um en það er óumdeilt að þarna eru og hafa verið margir helstu listamenn þjóðarinnar af eldri kynslóð.

En málið er ekki svona einfalt – að maður geti tekið fé af öldruðum listamönnum og fært það til hinna yngri, þótt það sé vissulega göfug hugmynd. Þeir sem hafa áhuga á krónum og tíköllum og nærbuxnaskúffum samborgara – en ekki sóun á milljörðum og misskiptingu ættu að fara inn í reiknivél Tryggingarstofnunar Ríkissins og reikna út ráðstöfunartekjur lífeyrisþega. Annarsvegar með engar tekjur og hins vegar með 250.000 króna heiðarslaunum. Þá sjáið þið að ráðstöfunartekjur gamalmennis á heiðurslaunum eru nánast hin sömu og ráðstöfunartekjur gamalmennis án heiðurslauna – enda koma heiðurslaunin öll til skerðingar á ellilífeyri. Þannig að hvað sparast? Nánast EKKERT! Ekkert nema að heiðurinn sem þessir listamenn fá og var hugsaður sem heiður þings og þjóðar er tekinn af þeim ítrekað með dónalegum ályktunum eins og þessum og vitleysisgangi í kommentakerfum í kjölfarið eins og einn á Eyjunni sagði:

,,Ef fólk getur ekki lifað af list sinni þá bara fær það sér vinnu með. Ef fólk meikar það ekki ,þá er klárlega ekki ástæða að vera verðlauna það fyrir einhver minipoka störf. Málið dautt..“

Já af hverju fá þeir sem eru fæddir 1918 sér ekki heiðarlega vinnu ef þeir geta ekki lifað af listinni!

Listamennirnir munu lifa í verkum sínum og heiður þeirra sömuleiðis en ég hef meiri áhyggjur af Alþingi – ef eitthvað skortir á Alþingi á þessum síðustu og verstu tímum er það einmitt heiðurinn.

Hér er reiknivélin:
http://www.tr.is/tryggingastofnun/reiknivel-lifeyris/