Hvað gætu íslenskar konur framleitt mikla mjólk á ári ef auðlindin væri fullnýtt….

photo 1Það var hressandi frétt um daginn á RÚV þar sem sagt var ítarlega frá hugmyndum um virkjun Jökulsár á Fjöllum og Dettifoss – allskyns tölur voru nefndar, rennslistölur og firra pirra bull skull sem ég veit ekki af hverju ég þurfti að vita. Var einhver í alvöru að fara að virkja fossinn? Ég velti fyrir mér, fyrir hvern voru þessar tölur, af hverju var þetta sett fram? Af hverju var ekki bara lesið ljóð um fossinn? Af hverju árið 2015 er LSD draugurinn enn á kreiki? Er þetta formsatriði, eitthvað sem menn gera samkvæmt ,,lögum“ eða er enn til fólk innan Orkustofnunar sem vill klára LSD? Er fólk í stjórnkerfinu eða stjórnmálaflokkum eða Landsvirkjun sem vilja þetta? Og ef svo er ekki – er þetta þá ekki bara jafn mikið bull og að tala um að fréttamaðurinn hafi verið 79 kg og samkvæmt lögum ætti að meta hvort hann væri gott prótein í laxafóður? Og að tala um Pantheon sé hentugt efni í vegfyllingu af því að lagalega á að ,,kanna alla kosti“ og að konur á Íslandi gætu framleitt 1800 tonn af mjólk árlega ef þær væru mjólkandi og að gangverð á 320.000 nýrum á Íslandi gæti stoppað upp í fjárlagagatið.

En það er óþarfi að búa til ný orð vegna þess að hjá Orkustofnun stendur tíminn í stað og hægt að nýta sér Halldór Laxness orðréttan um þetta mál nema skipta út Gullfossi fyrir Dettifoss: ,,Annar kontóristi úr Orkustofnun kom í útvarpið og talaði um Gullfoss. Rannsóknir og mælíngar hafa verið gerðar á fossinum, sagði þessi maður, og hægt að leggja til atlögu við vatnsfall þetta með litlum fyrirvara. Eru svona ræður haldnar til að storka landslýðnum, eða hvað? Einginn virðist þó kippa sér upp. Landslýðurinn hlustaði með þolinmæði sem mátti heita kristileg. Manni skildist að Gullfoss ætti að vera hafður í nýar málmbræðslur, meira alúminíum, að sínu leyti einsog vakir fyrir laxárvirkjunarnefnd nyrðra: stórir “orkunotendur” að utan gefa sig vonandi fram!“ ,,Hernaðurinn gegn landinu“ eftir Halldór Laxness 1971.