Majones
Hún fékk ekki að standa lengi í friði, risavaxna Gunnars Majonesdollan sem stóð við þjóðveg eitt skammt frá Þjórsá. Ég er feginn að ég fékk að sjá hana þetta augnablik áður en hún var fjarlægð vegna þess að hún var bara nokkuð ,,falleg“.
Gunnars Majones er á einhvern hátt íslenskara en skjaldarmerkið og fáninn og það var nánast tignarlegt að sjá dolluna tróna þarna með fjöllin í baksýn og öðlast þann sess sem hún á skilið. Majonesið hefur fylgt okkur frá vöggu til grafar, í gleði og sorg, það hefur flotið yfir skírnarveislur, fermingar og erfidrykkjur. Majonesið var fyrsti lúxusinn sem almenningur gat veitt sér eftir aldalangt harðæri, með munninn fullan af majonesi fór um þjóðina sælustraumur og gömlu konurnar smurðu þykkt á brauðterturnar eins og til að bæta börnum sínum upp það sem þær hafði alltaf skort.
Hvergi átti Majonesdollan betur heima en einmitt við hringveginn þar sem Majonesið drýpur af hverju strái. Þar sem maður er rétt búinn að melta kokteilsósuna úr Árnesti á Selfossi til að vera farinn að langa í þykka rækjusamloku á Hellu sem undirbúning fyrir sveittan borgara og franskar á Hlíðarenda.
Hefði Andy Warhol verið íslenskur hefði hann málað myndir af Gunnars Majonesdollum. Jeff Koons hefði ekki gert postulínsútgáfu af Michael Jackson heldur risavaxna eftirlíkingu af Gunnars Majonesi og sett hana upp við þjóðveg 1. Það væri talið dýrasta listaverk Íslandssögunnar.
Af hverju mátti dollan ekki standa? Enginn hefur kvartað yfir kókdollunni í Borgarnesi. Kannski vegna þess að majonesdollan er spegill. Hún er tákn fyrir það sem við viljum ekki vera lengur í kapphlaupi við að smyrja yfir fortíðina og hallærisheitin. Einmitt í majonesinu kristallast hin íslenska smekkleysa. Hvað er það annað en glæpur að demba kokteilsósu yfir nýgenginn sjóbirting? Við þykjumst hafa breyst, bjóðum upp á pestó í fermingarveislum, étum silunginn hráan með hrísgrjónum, hvítvíni og wasabi. Nú fæst burritos í Hlíðarenda með tex mex sósu.
Majonesdollan mikla ögrar okkur þar sem við brunum framhjá með tjaldvagninn í eftirdragi. Við innbyrðum allt af sama óhófi og við gúffuðum í okkur majonesið og vitum að ef dollunni yrði sleppt út í náttúruna myndi hún fjölga sér eins og minkur þar til ekki sæist lengur til fjalla. Pestó er bara flótti frá majonesinu eins og majonesið var flótti frá smjörinu sem var flótti frá flotinu. Það er kaldhæðnislegt að majonesdollan skyldi fjarlægð af umhverfisástæðum þar sem hún var staðsett við Þjórsá. Atlagan að Þjórsárverum er einmitt smekklaus eins og gæsabringa með kokteilsósu.
Ég vona að Gunnars Majonesdollan rísi ekki við höfuðstöðvarnar í Hafnarfirði. Majonesdollan ætti að hljóta verðugan sess á hringtorginu við Þjóðminjasafnið.
(Birtist upphaflega sem bakþanki í Fréttablaðinu í júlí 2004.)