Hinn eilífi skortur

Hér er ansi mögnuð frétt af vefmiðlinum Austurfrétt.is. Fyrirsögnin er þessi: ,,Engin ný tíðindi fyrir okkur Austfirðinga að eiga við náttúruverndarsinna“. Samkæmt fréttinni er orkuskortur á Austurlandi, grípa þurfti til skömmtunar á raforku og stofnanir og fyrirtæki þurftu að kynda með olíu um nokkurra vikna skeið. Jens Garðar Helgason, forseti bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðismanna sagði á bæjarstjórnarfundi: „Það að fá orku er lífsspursmál fyrir fyrirtæki og stofnanir. Við þurfum að halda áfram að berjast fyrir því að tryggði verði afhending á orku hingað austur á land og það gerist ekki nema við fáum línuna yfir Sprengisand.“
Það er vert að staldra við þessa frétt, skortinn og línu yfir Sprengisand. Á Austurlandi er framleidd raforka sem ætti að duga milljón manns eftir að 670 MW Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun en samkvæmt þessari frétt er raforkuskortur á Austurlandi og sækja þyrfti orku ,,suður“. Hér er á ferðinni stórmagnað dæmi um hinn eilífa skort. Þú hefur tvöfaldað skuldir Landsvirkjunar og tvöfaldað orkuframleiðsluna, þú hefur rústað Lagarfljóti og hálendinu norðan Vatnajökuls, efnt til þjóðarrifrildis – og þú hefur ekki fengið nóg – það þarf að skera hálendið í tvennt. Það er lífsnauðsynlegt. Jens heldur áfram: „Það eru engin ný tíðindi fyrir okkur Austfirðinga að þurfa að eiga við náttúruverndarsinna. Við erum komin með ákveðinn hóp, svo sem Hagkaupsbörnin og Björk, sem berjast gegn framkvæmdum eins og þessum og fleiri virkjunum“.

En það eru nokkrir hlutir sem ætti að skoða í þessu samhengi. Ef línan yfir Sprengisand felur í sér offjárfestingu upp á 15 milljarða – er hún réttlætanleg til að spara 15 milljónir á ári?

Er réttlætanlegt að skera hálendið í tvennt – vegna þess að tíunda hvert ár er slæm vatnsstaða svo grípa þarf til olíukyndingar í nokkrar vikur?

En er EKKERT SKRÍTIÐ að það skuli ríkja skortur og olíukynding – með rúmlega 700 MW framleiðslu bara á Austurlandi. Fréttin er í rauninni fáránleg, jafn fáránleg og frétt um bensínleysi í Saudi Arabíu, klakaleysi á Suðurpólnum og bananalaust í Hondúras. Austurland er svo gott sem alvirkjað, útópía virkjanasinnans – auk fossanna í Jöklu og Jökulsá á Fljótsdal er búið að virkja Fjarðará, Grímsá og Lagarfoss. Virkja fjórum sinnum meira en allt höfuðborgarsvæðið notar á aðfangadag. HVERGI í heiminum – er jafn mikil raforkuframleiðsla á mann. Samt skömmtun og skortur? Eru menn að reyna að sanna að jörðin sé óbyggileg, vegna skorts?

Jens telur sig knúinn til að fara í slag við Björk og ,,Hagkaupsbörnin“. Hvergi í heiminum er framleidd meiri raforka á mannsbarn heldur en á Austurlandi. HVERGI. En samt er skortur, samt þarf að berja á náttúruverndarsinnum og tala örlítið niður til þeirra í leiðinni – já gefa til kynna að þeir verði ,,sigraðir“.

Og það er fleira sem má gæta að. Jens nefnir þarna til sögunnar akveðnar persónur sem búa ekki á Austurlandi. Þrátt fyrir ,,stórsigur“ stjórnmálamanna fyrir austan þegar Kárahnjúkavirkjun var barin í gegn, þrátt fyrir að a annað hundrað ,,sherpa“ hafi verið fórnað til að tryggja ,,ljós og yl“ þá er ekki komið nóg. Það ríkir skortur. Það er engin nýlunda fyrir ,,okkur Ausfirðinga“ að eiga við náttúruverndarsinna. Já – það er ennþá ástæða til að vera reiður út í Björk. Eða hvað? Hún stendur enn í vegi fyrir ,,fullkomnun“ samfélagsins, hún heldur fyrir ,,lífæðina“. Já – það er um ,,líf“ og ,,dauða“ að tefla. Er þetta ekki bara dæmi um verstu tegund orðræðu úr munni stjórnmálamanna? Hver leyfir Jens að tala fyrir munn ,,okkar Austfirðinga“. Jens býr til ímyndaðan hóp sem eru ,,þeir“. Hinn hópurinn er ,,við“. Þeir sem falla í hópinn ,,þeir“ falla í ákveðið og hentugt fordómamengi. (listamenn/ auðmenn) Staðreyndin er hins vegar þessi: Það er ekki skortur á raforku á Austurlandi. Alls enginn. Jafnvel þótt Kárahnjúkavirkjun hefði ekki verið byggð – væri ekki skortur. Þótt lagt verði stóriðjunet kringum landið er ekki einu sinni víst að bæir undir línunni fái þriggja fasa rafmagn og að aldrei slái út á Djúpavogi. Dreifðar byggðir munu áfram lenda í vandræðum með ísingu og Sprengisandur tengist ekki veikum hlekkjum í línum út á Langanes eða Hólmavík og fjárfestingin gagnast ekki óöruggasta hluta kerfisins sem eru Vestfirðir. Þar eru menn ekki reiðir út í Björk. Þeir voru að klára flottustu rokkhátíð landsins – Aldrei fór ég suður.