Á að klúðra öllu?

Þegar opinberir aðilar úthluta styrkjum til vísindamanna, menningarverkefna, mannúðarmála eða sérverkefna þá hefur það verið almenn regla að úthlutun eigi ekki að koma persónulega frá ráðherra heldur gegnum auglýsingar, umsóknarferli eða opinber útboð. Sérstakir sjóðir ráðherra hafa verið skornir niður á síðustu árum svo að þeir hafa haft einhverja hundraðþúsundkalla til að setja í tilfallandi verkefni – en þessar 200 milljónir forsætisráðherra eru hærri upphæð heldur en margir vísindasjóðir hins opinbera. Þarna er engin nefnd, ekkert umsóknarferli eða auglýsing og fleiri milljónir sem virðast fara hingað og þangað, oftar en ekki eftir persónulegum duttlungum og samböndum. Svona vinnubrögð eru forkastanleg, þau eru stjórnsýslulegt afturhvarf að minnsta kosti 20 – 30 ár aftur í tímann. Ráðherra er að setja sjálfan sig persónulega í hlutverk ,,gefandans“ og spurning hvort hann eigi þá ekki að undirrita persónulega laun allra ríkisstarfsmanna og styrkþega ríkissins – til þín með kveðju frá landsföður. Í öllum venjulegum lýðræðisríkjum hefðu þessi vinnubrögð kallað á tafarlausa afsögn enda spillingarhættan alger og augljós.