10/1 Tíu á móti einum

Screen shot 2012-09-17 at 00.07.31

Ég er að hreinsa til í tölvunni og fann þessa mynd frá 2008. Hér eru listaðar upp framkvæmdir og þau þúsund megavött sem menn ætluðu að fá í hús fyrir árið 2015. Semsagt – eiginlega núna átti að vera búið að skrapa saman í eins og eina og hálfa Kárahnjúkavirkjun – nota bene – eftir að Kárahnjúkavirkjun hafði verið reist. Þessi áætlun er frá 2008 en man ekki nákvæmlega hvaðan línuritið kemur, hvort það var banki eða ríkisstjórn eða SA/ASÍ sem gerði þetta. En einhver klár, vel menntaður maður tók þetta saman og setti fram sem raunhæfa fimm ára áætlun fyrir Ísland án þess að spyja sig um skuldirnar, áhættuna eða raunhæfnina.

En þarna er eitt stórt atriðið sem mér finnst allt of sjaldan talað um – eitthvað sem má kalla heróínhagkerfið í hnotskurn. Á línuritinu má sjá áætlun um 13.000 ársverk til að skapa 1200 störf. Það má orða það einhvernveginn svona – að um leið og 1200 manns hafa fengið ,,varanleg störf“ missa 12.000 manns atvinnuna. Það má segja að þarna sé heróínhagkerfið í hnotskurn. Þegar við bætist lág ávöxtunarkrafa orkufyrirtækjanna og jafnvel tapkrafa – þá verður höggið ennþá meira þegar framkvæmdum er lokið. Auðlindarentan nær ekki að bæta upp þessi 12.000 störf sem hverfa.

Þetta er einmitt þessi staða sem við stöndum frammi fyrir núna – þegar við horfum yfir landið. Jú við gætum verndað það – allt sem við eigum núna, við eigum næga orku, við höfum allt til alls – en það er BRJÁLAÐUR þrýstingur á að halda áfram. Og þegar menn halda áfram – þá gerist það í þessu sama 10/1 einum hlutfalli. Um leið og framkvæmdum er lokið – þá missa menn vinnuna. Þeir sem hanna stífluna eiga ekki ,,hugverk“ eins og uppfinningamenn, listamenn eða hönnuðir sem geta stundum margfaldað verðmæti hugverka sinna með því að selja þau áfram og aftur. Þeir standa bara aftur á núlli og geta ekki byrjað að vinna fyrr en þetta 10/1 hagkerfi hefur verið endurræst.

Mér finnst mjög mikilvægt að tala um þetta hlutfall. Eigum við að búa til hugtak um það? 10 á móti einum? Á þjóð eins og Ísland að fara í tíu á móti einum framkvæmdir? Væri ekki betra ef það væri öfugt eins og í nýsköpun – einn á móti 10. Einn maður hugsar eitthvað og verður tíu manna fyrirtæki á fjórum árum? Það hlutfall er reyndar nær 1/1.2. Tíu hugsa eitthvað. Níu ná ekki árangri en ein hugmynd sigrar og verður 12 manna fyrirtæki.

10/1 er hugtak sem hefur ekki verið rætt í rammaáætlun og ekki heldur virkjunarhraðinn. Hver er virkjunarhraðinn? Hvað á að klára þetta á mörgum árum? Má gefa þessu 100 ár? 200 ár? Er einhver að flýta sér? Virkjunarhraðinn á ofangreindri mynd má líkja við að aka á vegg á 100 kílómetra hraða. Hvar vildu menn virkja næst? Náttúrufræðingar mega gjarnan fara að skipta sér meira af hagfræðingum og viðskiptafræðingum og beita á þá þekkingu sinni á þörungablóma, veirusýkingum og ofauðgun og beita á það ágæta fólk sem setur upp svona línurit. Líffræðin á fullt af hugtökum sem er hægt að nota um lífverur sem búa til töflur eins og þá sem sjá má hér fyrir ofan án . Sá sem setti upp þetta línurit setur örugglega kíló af flögum í fiskabúrið sitt, tonn af áburði á garðinn, gefur börnum sínum 2 glös af vítamíni á morgnana og er hissa að allt skuli vera drepast í kringum hann.

10 á móti einum er heróinhagkerfið í hnotskurn og það er meinsemd og ber að varast. 10/1 skemmir landið, hneppir okkur í skuldir, skilur menn eftir hungraða og örvæningarfulla við verklok –  það eyðileggur andrúmsloftið (bókstaflega og óeiginlega) og spillir eðlilegu viðskiptaumhverfi. Við verðum að snúa við þessu hlutfalli og það verður að gerast strax. Landsvirkjun á ekki að vera fyrirtæki sem heldur uppi 10 á móti einum atvinnustefnu heldur einmitt öfugt. Landsvirkjun á að greiða niður allar sínar skuldir. Fyrirtækið á að skila hagnaði í samræmi við þær fórnir og fjárfestingar sem við höfum þegar lagt í, helst 30 milljörðum á ári. Það er að segja – stærsti hluti af tekjum fyrirtækisins ætti að vera hagnaður í staðinn fyrir afborganir af erlendum skuldum. Fyrir hluta af því fé væri hægt að stuðla að nýsköpun, menntun og rannsóknum á fjölbreyttum sviðum sem myndu skila fleiri störfum en 10/1 heróínstefnan sbr. ræðu Hilmars Veigars Péturssonar á dögunum. Verkfræðistofur munu hafa nóg að gera við að halda við því orkukerfi sem við eigum nú þegar – það er ærin vinna – en það sem upp á vantar – fixið sem menn vilja fá með því að djöflast áfram með 10/1 stórverkefni er gjaldþrota stefna og gengur ekki lengur.

Munið bara það er EKKI jákvætt þegar stjórnmálamenn telja upp tíu verksmiðjur á næstu 4 árum. Spurðu um hlutfallið – er það 10/1? Mun hagnaður orkufyrirtækisins dekka þessi 9 störf sem hverfa þegar verksmiðjan opnar? Spurðu stjórnmálamanninn, ertu að bjóða mér vítamín eða heróín? Sá sem býður hamingju í þessu formi ætlar ekki bara að rústa landinu – heldur atvinnulífinu líka.

PS: Myndin er tekin úr minnisblaði frá SA frá júní 2009.

PPS: 10/1 og 1/10 er hugsað sem myndhverfing frekar en akademísk greining á eðli stórframkvæmda vs nýsköpunar. Hafa þarf í huga að við 10/1 stórframkvæmdir missa smærri fyrirtæki lykilfólk tímabundið inn í bóluhagkefið.

PPPS – fann þessa mynd í Mogganum daginn eftir tónleika. Veröld ný og góð. Má bjóða einhverjum 10/1 – hrein nál. Gott stöff.

Screenshot 2014-03-28 11.21.49

One thought on “10/1 Tíu á móti einum

  1. Bakvísun: Heróínhagkerfið í hnotskurn: Má bjóða þér hreina nál? Þetta er gott stöff : Herðubreið

Lokað er á athugasemdir.